143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við komumst einfaldlega að þeirri niðurstöðu að það hefði lýst fáránlegri þvermóðsku og þvergirðingshætti að leggjast gegn því að ríkisstjórnin greindi (Gripið fram í.) forsendur sinna eigin tillagna, þetta birtist okkur bara þannig. Við vorum á sameiginlegu nefndaráliti í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, ég og fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, efnislega sammála.

Við styðjum upplýsingaöflun, greiningar, en við höfðum það alltaf skýrt í okkar málflutningi, um þingsályktunartillögu forsætisráðherra, að við legðumst gegn þeim hugmyndum sem höfðu verið á lofti um svona mikinn fjáraustur úr ríkissjóði. En það sveimaði hér enn þá í loftinu einhver hugmynd um að hægt væri að fjármagna svona aðgerðir öðruvísi, með einhverjum geislum, á einhvern fáránlegan hátt. Það var bara ágætt að fá það upp á yfirborðið. Það er þó alla vega kristaltært að þetta er fjármagnað úr ríkissjóði. Það höfum við alltaf sagt, (Forseti hringir.) það liggur fyrir og er ein meginástæða þess að við erum algjörlega á móti þessu.