143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:22]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er mér alveg sérstök ánægja að fá að mæla fyrir nefndaráliti mínu á þessum ánægjulega tíma sólarhringsins, tala saman þriðjudag og miðvikudag sem væntanlega verður hlutskipti mitt. Mig langar að spyrja hæstv. forseta, áður en ég hef meginmál mitt eins og sagt var, hvort búið sé að leggja ríkisstjórnina niður bókstaflega. Er búið að leggja ríkisstjórnina niður, herra forseti? (Gripið fram í: Ha, ha, bara aldrei hér.) Í þessum sal hafa ekki sést ráðherrar, hvorki í gær né í dag, og það er alloft búið að spyrja hvort við megum ekki vænta þess að forustumenn ríkisstjórnarinnar, einhverjir af lykilráðherrunum, verði hér eitthvað til svara þannig að til dæmis sé hægt að beina einhverjum spurningum til þeirra sem fara með yfirábyrgð á ríkisfjármálum eða stjórnmálum í landinu.

Mér er að vísu tjáð að einhver slatti af ráðherrum sé erlendis. Það er óhefðbundið við þinglok að einir þrír ráðherrar eða svo telji það brýnna að vera í misáríðandi erindagjörðum erlendis en að vinna hér með okkur hinum að því að ljúka verkefnum Alþingis. Það verður þá að hafa það, það er þeirra mat.

Auðvitað stingur, herra forseti, langmest í augu fullkomin fjarvera hæstv. forsætisráðherra. Það er með miklum endemum. Nú veit ég ekki hvort ástæðan í kvöld er sú að hann sé kvöldsvæfur og úthaldslítill þannig að hann hafi þurft heim að hvíla sig upp úr kvöldmatarleytinu. Ég sá hann í þinghúsinu einhvern tíma rétt um kvöldmat. En eiginlega er ég farinn að hallast að því að það sé betra að hann komi ekki, þ.e. ég held að úr því sem komið er sé það hæstv. forsætisráðherra mest til háðungar að hann haldi áfram að hunsa Alþingi, hunsa þessa umræðu og hunsa sitt eigið hugarfóstur, heimsmetið mikla, stóra kosningaloforðið.

Það er athyglisvert að hæstv. forsætisráðherra hefur endurtekið þennan leik í umræðum um það sem áttu að vera mörg af stærstu málum þessarar ríkisstjórnar. Hann sást aldrei í umræðum um ESB-tillöguna, hann hefur ekki komið í umræður um séreignarsparnaðarhluta skuldapakkans og hann ætlar líka að hunsa umræður um stóra málið sjálft, sjálfa höfuðstólsniðurfærsluna. Það er mjög athyglisvert, herra forseti, það mun örugglega ekki fara fram hjá fleirum en þeim sem hér er að hæstv. forsætisráðherra velur þetta verklag. Það eru undarleg og athyglisverð samskipti eins forsætisráðherra við Alþingi Íslendinga.

Ef til vill er það svo, svo maður leyfi sér að geta sér til um einhverjar skýringar, að hæstv. forsætisráðherra sé að byrja að átta sig á því, herra forseti, að glansmyndin sé svolítið farin að dofna á þessum málum. Þau eru ekki að seljast nein ósköp lengur. Það er farið að súrna í loforðunum og þjóðin er að átta sig á því upp til hópa hvílíkt rugl þetta er. Það eru engir dynfjaðraðir svanir sem núna fljúga um loftin á vegum hæstv. forsætisráðherra. Það er nær að segja að það liggi á kviðnum á jörðinni plokkuð hæna þar sem eru loforð Framsóknarflokksins síðasta vor. (VigH: Er góða skapið heima?)

Nú vil ég endilega, herra forseti, að við gefum friðardúfunni hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur allt það rými sem hún vill til að verða sér hér áfram til skammar með frammíköllum og öðrum (Gripið fram í: Góða skapið …) slíkum málflutningi. Það er mjög mikilvægt, satt best að segja, að Framsóknarflokkurinn tefli fram sínum öflugasta málsvara, sínum taktískasta leiðtoga, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttir. (Gripið fram í.) Það er aldeilis liðsstyrkurinn sem við mætum frá Framsóknarflokknum.

Veruleikinn er sá, herra forseti, að þessi móðir allra kosningaloforða, eins og ég leyfi mér að kalla loforð Framsóknarflokksins frá síðasta vori, á eftir að verða á spjöldum sögunnar. Oft hefur gamla Framsókn gengið fram af mönnum með ábyrgðarlausum loforðum en hérna sló hún öll met. Ég þekki ekki í vestrænum stjórnmálum nokkurn tímann að menn hafi farið svona ofboðslega offari í því að reyna að kaupa sér fylgi á kostnað annarra, á kostnað framtíðarinnar, (VigH: ESB?) á kostnað barnanna, eins og hér hefur verið gert. Það ætla ég að sýna fram á með því meðal annars að fara rækilega yfir það hvaða inntak er í þessu máli og hvernig það hefur þróast frá kosningabaráttunni á vor- og útmánuðum 2013.

Það er alkunna að Framsóknarflokkurinn hertók eiginlega kosningabaráttuna síðasta vor, hann stal kosningabaráttunni eins og fyrirbærið stal jólunum hérna einu sinni, með því að keyra inn í kosningabaráttuna svo yfirgengileg loforð en gera út á svo viðkvæman málaflokk að andstæðingum hans var erfitt um vik. Hver vill setja sig í þá stöðu að vera stimplaður á móti heimilum og skuldugu fólki í erfiðleikum? Í skjóli af raunverulegum erfiðleikum þúsunda heimila fór Framsóknarflokkurinn fram með þessi ótrúlegu yfirboð og loforð sem allir hugsandi menn máttu vita að voru óraunhæf og út í loftið. Það hafa þau líka reynst vera. Það stendur ekki steinn yfir steini af því sem Framsóknarflokkurinn reyndi að telja þjóðinni trú um að væri hægt síðasta vor.

Maðurinn horfði í augun á þjóðinni og sagði: Ég veit að þetta er hægt. Um hvað var hann að tala? Að sækja 240–300 milljarða til vondra hrægamma og nota þá til að færa niður skuldir allra heimila í landinu. Þannig skildist þetta og allt of margir trúðu því. Það er mikið umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga sem þjóð að sömu flokkar skyldu ná völdunum á Íslandi 2013 með svipuðum loforðum og þeir notuðu til þess 2003. Sagan endurtekur sig og það tók ekki nema tíu ár. Þrátt fyrir hina bitru reynslu hrunsins féll allt of stór hluti þjóðarinnar á prófinu og trúði þessu.

Hvernig var þetta 2003? Framsóknarflokkurinn lofaði fólki því að það mætti skuldsetja sig meira, taka meiri áhættu og fara með lánin alveg upp undir verðmæti eigna sinna. (VigH: 110%-leiðin?) Meiri greiðinn, var það ekki? Reyndist það fólki vel og það sem á eftir fór? Sjálfstæðisflokkurinn lofaði glórulausum skattalækkunum eins og venjulega. Sjálfstæðisflokkurinn lofar alltaf skattalækkunum. Það er alveg sama hvernig árar, hvernig ríkissjóður er staddur, hvort það er uppsveifla eða niðursveifla í hagkerfinu, á eitt má treysta: Íhaldið lofar skattalækkunum. Það bregst aldrei, sama hversu vitlaust sem það er.

Árið 2003 voru aðstæðurnar mjög viðkvæmar fyrir Ísland vegna þess að þensla var gengin í garð og menn vissu að fram undan væru mjög erfið viðfangsefni í hagstjórn. Það var búið að taka ákvörðun um miklar stóriðjufjárfestingar, það lá fyrir að mikið fjármagn mundi dælast inn í hagkerfið á næstu árum. Þar með mátti reikna með því að Seðlabankinn yrði að reyna að halda aftur af verðbólgu með hækkun stýrivaxta. Þar með mátti reikna með því að Ísland yrði útsettara fyrir vaxtamunaviðskiptum. Þar með, og í þessu samhengi, mátti reikna með því að fasteignamarkaðurinn mundi ofhitna með því að hækka veðsetningarmörk á húsnæði. Allt gekk þetta eftir — og endaði í hruni. (SigrM: En hvað gerðist svo?)

Já, hvað gerðist svo, hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir? Komdu inn í salinn, tylltu þér hérna í stólinn og hlustaðu smástund. (SigrM: Já, já.) Það gerðist að Ísland var næstum farið á hausinn og það þurfti í einhverjar erfiðustu aðgerðir í mörg ár til að afstýra því sem lýðveldið hefur upplifað. Allir sanngjarnir menn viðurkenna að engin kynslóð íslenskra stjórnmála hefur þurft að takast á við hluti sambærilega þeim sem skullu á með hruninu og fylgdu í kjölfarið næstu ár á eftir. (VigH: Hrósaðu nú sjálfum þér.) Það er staðreynd og þarf ekki um það að tala meira.

Þannig er í pottinn búið að skuldavandi heimilanna var gerður að einhverju sérstöku andlagi stjórnmálaumræðunnar síðasta vetur. Það var talað eins og öll heimili á Íslandi væru eins, allir byggju í þungt skuldsettu húsnæði, hefðu fengið gríðarlegt misgengi á lánin sín og þetta ætti að leiðrétta. Heimilin í landinu voru bara eitt mengi og út á það gekk málflutningurinn, einfaldanir og afbökun umræðunnar þegar veruleikinn er sá að að því marki sem eitthvað efnislegt var á bak við umræður um forsendubrest o.s.frv. hafði mjög afmarkaður hluti íslenskra heimila orðið fyrir honum. Það var búið að liggja fyrir í þrjú ár (Gripið fram í.) hvaða hópur það var. (VigH: Ekki gerðirðu nú neitt í ríkisstjórn.)

Þá þarf ekki að vitna í sjálfan sig, herra forseti. Í nefndaráliti 4. minni hluta er gerð geysilega vel grein fyrir þessu. Það gerir hv. þm. Pétur Blöndal. Ég legg til að félagar hans í stjórnarliðinu taki þetta nefndarálit, leggi það á náttborðið sitt, lesi það á morgnana og lesi það á kvöldin í nokkra daga. Hv. þingmenn stjórnarliðsins hefðu gott af því sem flestir ætla að láta sig hafa það að samþykkja þessa vitleysu. Þarna er þetta dregið mjög skýrt upp og hefur, eins og ég segi, legið fyrir í ein þrjú ár. Ef hægt er að tala um raunverulegan forsendubrest í þeim skilningi að verðtryggð lán hefðu hækkað umfram þróun fasteignaverðs og launavísitölu var það hópurinn sem tók lánin frá árslokum 2004 og fram að hruni sem fyrir því varð, sérstaklega þeir sem keyptu þá sína fyrstu íbúð, áttu ekki aðra eign til að selja upp í hana og keyptu þar af leiðandi á uppspenntum fasteignamarkaðnum, auðvitað allt of dýrt.

Þetta átti að leiðrétta með peningum, ekki alveg af himnum ofan en það er næsti bær við. Vondir hrægammar áttu að borga fyrir þetta. Hver vill ekki láta vonda hrægamma borga fyrir góð mál? (VigH: Steingrímur.) Jú, það féllu mjög margir fyrir því. Hvað hefur svo gerst? Hvernig er þróunin búin að vera í málinu frá þessum loforðum? 240–300 milljarða niðurfærsla, allur almenningur taldi sér trú um að þetta væru sirka 20% af höfuðstól lánanna. Margir trúðu því að þetta væri yfir línuna, næði yfir allar skuldir. Það var stundum leiðrétt í kosningabaráttunni en ekki höfðu framsóknarmenn fyrir því að útskýra smáatriðin í loforðunum. Henni tókst það reyndar vel og það verður að segja Framsókn til hróss að hún getur ýmislegt. Hún getur til dæmis oft siglt svona vitleysu í gegnum næstum heila kosningabaráttu án þess að vera skotin niður. (ÖS: Miklu lengur.)

Það er auðvitað umhugsunarefni fyrir okkur hin. Af hverju erum við svona aum við að benda á svona vitleysur þegar þær vaða uppi? Það erum ekki bara við, andstæðingar þeirra í stjórnmálum. Ég get alveg lofað ykkur því, t.d. miðað við mína þekkingu á norrænum stjórnmálum, að ef Framsóknarflokkurinn hefði reynt þessa kosningabaráttu í Noregi hefði hún ekki lifað vikuna (VigH: Hvaða rugl …) vegna þess að þar hefðu fjölmiðlar og fræðimenn spurt gagnrýninna spurninga, heimtað svör, málefnaleg svör en ekki einhverja útúrsnúninga, ekki einhverjar einfaldanir, og þetta hefði varla enst vikuna. Auðvitað hefði þessi kosningabarátta Framsóknar síðasta vor ekki átt að endast nema vikuna í þroskuðu, upplýstu lýðræðissamfélagi með sterka fjölmiðla og aðhald frá fræðimönnum og öðrum slíkum. (VigH: Þú tapaðir kosningunum, Steingrímur.)

Nú er það ég sem tala hér og ræð því sem ég segi en ekki Vigdís Hauksdóttir. Það er ekki svo komið að ég biðji hana leyfis á einu eða neinu. Hv. þingmaður má auðvitað gjamma fram í eins mikið og hún vill, sjálfri sér til skammar, en það verður tekið á móti því. Ég bíð bara eftir því að hún fari að hrópa: Icesave. Mér finnst að hv. þingmaður megi ekki detta úr karakter. Þegar rökþrotin eru orðin alger hjá Framsókn og reyndar stundum hjá sjálfstæðismönnum núna er hrópað: Icesave. Einhvern tímann við gott tækifæri skulum við taka það mál úr ræðustóli Alþingis. (VigH: Til í það.) Þá má Vigdís Hauksdóttir vera viðstödd.

Hér kom þingsályktunartillaga, það var skipuð nefnd og hún dró saman heilmikla skýrslu sem var kynnt með miklum bravúr í Hörpu 30. nóvember. Þá mætti hæstv. forsætisráðherra, en hann hefur ekki sést hér. Það má margt gott segja um þá skýrslu, ég vil halda því til haga að að mörgu leyti var hún vel unnin. Hún gerði til að mynda heiðarlega grein fyrir öllum fyrri ráðstöfunum og tíundaði umfang þeirra, enda þurfti þess með, því að nú allt í einu mundu stjórnarflokkarnir eftir því að það hefði verið gert eitthvað fyrir heimilin á síðasta kjörtímabili. Þegar átti að nota það til að draga frá mundi eftir því fólkið sem æpti hér dögum oftar að það væri ekkert gert fyrir heimilin. Það heyrðum við nokkrum sinnum á síðasta kjörtímabili. Svo kemur bara í ljós að aðgerðir sem eru svipaðar að umfangi og höfuðstólslækkunin sjálf hjá ríkisstjórninni eiga að dragast frá. Og það er mikill ágalli á þessu fyrirbæri vegna þess að þar á í hlut fólkið sem sannanlega var í mestum erfiðleikum og fær þá enga frekari aðstoð. Nú er komið að hinum, segja þeir.

Hverjir eru hinir? Það eru þeir sem voru svo tekjuháir, svo efnaðir að þeir ýttust út úr fyrri aðgerðum. Já, nú er komið að hátekjufólkinu. Og það er það sem gerist.

Skýrslan var ágæt. Hún hafði eitt mjög fram yfir þetta frumvarp, hún reyndi að halda til haga skilgreiningu á forsendubrestinum. Til stóð að leiðrétta verðtryggð lán sem höfðu staðið á árabilinu 2007–2010/2011 um það sem væri umfram 4,8% verðbætur á ári. Það var skilgreining. Ókei, þar var sem sagt komin einhver afmörkun á forsendubrestinum.

En hvað segir þetta frumvarp? Er forsendubresturinn skilgreindur hér? Nei. Hún er farin, það er engin skilgreining á einum eða neinum forsendubresti. Eina skilyrðið er að lánin hafi staðið á árunum 2008 og 2009. Það er engin viðmiðun, hún er horfin.

Hvað er þetta, herra forseti, átti ekki að leiðrétta forsendubrest? Hvernig getur það gengið upp að í frumvarpinu um leiðréttinguna, sem heitir „um leiðréttingu“, sé engin viðmiðun? Hvað er verið að leiðrétta ef engin viðmiðun er við eitthvað sem þarf að leiðrétta, eins og hv. þm. Pétur Blöndal segir, einhverja reikningsskekkju eða einhverja verðbólgu umfram eitthvað? Það er horfið út úr málinu af því að nú er búið að ákveða að forsendubresturinn hafi verið 80 milljarðar og hvergi meiri en 4 milljónir hjá fólki og bara hjá því fólki sem ekkert hefur fengið áður.

Botninn er dottinn úr málinu. Allt talið um að leiðrétta forsendubrest, sem menn hafa gefist upp á að skilgreina, segir sig auðvitað sjálft. Þetta er satt best að segja stórbrotið. Það var talað, ekki bara fyrir kosningar heldur í vor sem leið, í haust, fram á vetur, eins og þetta lægi allt kristaltært fyrir. Menn vissu nákvæmlega hver forsendubresturinn væri. Lengi vel vissu menn alveg hvernig átti að sækja peningana til hrægammanna. Menn töluðu þannig að þetta væri svo skýrt og klárt að það yrði sett upp reiknivél þar sem hver maður gæti bara slegið inn sínar tölur og fengið niðurstöðuna: Ég fæ svona mikið.

Hvar er reiknivélin, herra forseti? Hvað veit fólk um það hvað það fær? Það veit ekki neitt enn þá og verður í svartholi í þeim efnum, ég giska á fram í október eða nóvember. Ég hef enga trú á því að þessi aðgerð rúllist þannig upp í sumarfríunum að þetta verði allt saman klárt í septemberbyrjun. Það má mikið ganga vel ef það á að gerast. Svona er þetta nú, heildarupphæðin 80 milljarðar og svo ákveðnar takmarkanir á því.

Enda var þetta tal allt saman um forsendubrestinn í hreinu áróðursskyni. Ef menn hefðu verið menn til að halda sig þá við eitthvað sem þeir skilgreindu og útskýrðu hefði verið öðru nær. Satt best að segja var ég mjög eindregið þeirrar skoðunar árið 2010 að það sem ætti að reyna að gera væri að endurreikna þau lán sem hefðu sannarlega tekið á sig verðbólguhögg og stæðu þannig að fólk væri eignalega mun lakar sett en það hefði mátt ætla að það yrði vegna þróunar fasteignaverðs, neysluverðsvísitölu og eftir atvikum launavísitölu. Það var viðráðanlegt og væri út af fyrir sig enn viðráðanlegt verkefni að ráðast í að klára þetta gagnvart verðtryggðum lánum með endurreikningi á lánunum sem tekin voru á óhagstæðasta tíma með ákveðnum viðmiðunum eða parametrum eftir því hvernig höggið kemur inn. Þá byrjar það í lok árs 2004, þar þarf tiltölulega litla leiðréttingu og hún fer vaxandi og verður hæst á árinu 2006 og aftur á árinu 2008. Þessi kúrfa er þekkt og hún er að hluta til í nefndarálitinu frá 4. minni hluta, eins og menn sjá.

Menn geta sett sér viðmiðunarmörk. Viljum við skera þetta af miðað við 4,8%, viljum við nota 2,5%, sem er verðbólguviðmiðið sjálft, eða hvað viljum við nota? Í það færu nokkrir tugir milljarða að endurreikna þessi lán svona og það væri enn hægt, a.m.k. ekki flóknari aðgerð en þessi ósköp sem á að fara í hér og nú. Fyrir því standa efnisleg rök. Það væri hægt að útskýra fyrir öðrum sem eiga að greiða þessa aðgerð, skattgreiðendum, börnunum okkar, að það hefði verið sanngjarnt að mæta þessum hópi sem vandaðar greiningar sýndu að hefði orðið fyrir sérstöku viðbótarhöggi. En hvernig í veröldinni ætlið þið, hv. stjórnarþingmenn, stuðningsmenn þessa máls, að útskýra fyrir barnabörnunum ykkar í afmælum framtíðarinnar að þið hafið talið nauðsynlegt að nota peninga úr ríkissjóði og framtíðartekjur ríkis og sveitarfélaga til að lækka skuldir á stórefnuðu fólki? (FSigurj: Það verða engin afmæli.) Nei, þið þorið ekki að halda afmæli, það er auðvitað niðurstaðan, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, það er búið með þau. Ykkar skömm verður slík að þið munuð aldrei þora að halda barnaafmæli. (Gripið fram í: … svarthol.) Hvernig ætlið þið að horfast í augu við blessuð börnin? Það gengur ekki, það er augljóst mál.

Þetta verður ekki auðvelt að forsvara, en það er það sem manna bíður ef þeir láta sig hafa þetta. Auðvitað er það þannig að í félagslegri aðgerð verður að gera ákveðnar kröfur til þess að menn noti opinbera fjármuni, fjármuni annarra, okkar allra saman og framtíðarinnar, á einhvern réttlætanlegan og skilvirkan hátt. Það er ekki verið að gera það hér. Það er að mínu mati verið að misnota erfiðleika fólks sem sannarlega er þarna úti og þarf á stuðningi að halda. En við náum ekki til þess með þessum aðferðum, það liggur algerlega fyrir. Það væri þá aftur að ráðast á vanda þess hóps sem gögn sýna sannanlega að situr eftir uppi enn þá með verulega verri eignastöðu en hann lagði upp með. Kannski á það eftir að lagast samt býsna hratt ef fasteignaverð þróast áfram með sambærilegum hætti og hækkar að raunvirði umfram neysluverðsvísitölu. (PHB: Ný bóla.) Í bili er þetta auðvitað svona.

Síðan eigum við önnur og mjög vel þekkt tæki til að koma stuðningi til þessa fólks. Þau heita vaxtabætur og húsaleigubætur. Við getum bætt í þær, við getum breytt skilgreiningum, rýmkað fjárhæðarmörkin ef við teljum okkur hafa ráð á meiri peningum í vaxtabótakerfið. Það er ekkert vandamál að rýmka fjárhæðarmörkin þannig að þær elti fólk lengra upp í millitekjur eða jafnvel háar millitekjur. Það tekur svona korter að breyta lögunum um vaxtabætur fyrir vana menn þannig að við teygjum kerfið þannig að það hjálpi fleirum og vaxtabætur eða húsaleigubætur verði ekki jafn beitt tekjutengdar og þær voru áður. Það er einfalt mál. Þá verða þær að almennari aðgerð og fanga þá sem eru með hlutfallslega eitthvað lægri tekjur og þunga greiðslubyrði af lánum.

Leigjendur liggja náttúrlega algerlega óbættir hjá garði og það er kostulegt í ljósi þeirra upplýsinga og gagna, m.a. frá Hagstofunni, sem hafa komið undanfarnar vikur og mánuði, að samt ætla stjórnarflokkarnir að láta sig hafa það að klára þetta mál þannig að leigjendur séu skildir algerlega eftir. Það er alveg ótrúlegt þegar gögn sýna okkur núna að það er sá hópur sem sennilega hefur hlutfallslega fengið mesta skellinn hvað varðar húsnæðiskostnað með stórhækkaðri leigu. Gleymum þá ekki hópnum meðal leigjenda sem er með fullan forsendubrest, ef einhver er það, í verðtryggðri húsaleigu. Þannig er það hjá Félagsbústöðum og hjá mörgum af þeim sem búa í einmitt leiguhúsnæði að leigan er verðtryggð og hún eltir verðbólguna upp á allan toppinn, ekki satt? Er ekki forsendubrestur þar? Hann er enn skýrari þar en í verðtryggðum námslánum og hafa þó ýmsir nefnt þau, vegna þess að þar er um húsnæðiskostnað að ræða.

Það er svo grimm mismunun á þessum tveimur formum, séreign og því að búa í leigu, að leiðrétta þá ekki einhvern veginn, ef ekki í gegnum húsaleigubætur, þá til dæmis með því að leyfa húsnæðissamvinnufélögum og leigufélögum að vera með í niðurfærslu lánanna. Það stækkar aðgerðina ekkert óskaplega mikið því að þetta eru frá 5 og upp í 20 milljarðar kr. í heildarskuldum sem stærstu húsnæðisfélögin hafa, Félagsbústaðir, Félagsstofnun stúdenta, Brynja, Búseti, Búmenn og þessir aðilar. Það eru algerlega viðráðanlegar stærðir í samhengi 1.200 milljarða íbúðaskulda heimilanna. Það mundi ekki setja neitt á hliðina þó að þau væru tekin með.

Deilan hér snýst því ekki og hefur aldrei snúist um það hvort einhverjir vilja gera eitthvað fyrir heimilin eða ekki. Þetta er spurning um hvað er skilvirkt og vitrænt að gera og hvernig á þá að útfæra það og að það komi til þeirra sem sannanlega eiga réttlætiskröfu til þess og þurfa á því að halda. Þá væru margir með í aðgerðum af því tagi, þar á meðal sá sem hér talar.

Þetta fór sem sagt svona, virðulegur forseti, að peningarnir koma hvorki frá himnum né frá vondum erlendum hrægömmum. Hver einasta króna í þessa aðgerð á að koma úr ríkissjóði, frá ríki og sveitarfélögum í tekjutapi á næstu árum og framtíðartekjutapi. Það er engin smábreyting frá loforðunum. Er þetta efnd á kosningaloforðunum um að einhverjir aðrir færðu niður skuldirnar fyrir heimilin í landinu? Nei, það eru þau sjálf. Niðurstaðan er að við Íslendingar, þ.e. öll saman, ætlum að taka að okkur að færa niður skuldir tiltekins hóps landsmanna. Við gerum það í gegnum ríkissjóðinn, sem við eigum öll saman, og sveitarfélögin, sem flestir búa í einhvers staðar. Það er þannig, ekki hrægammar, við erum það ekki, er það nokkuð? Ekki þjóðin, ekki börnin okkar, ekki barnabörnin. Það eru örugglega ekki þessir hrægammar sem Framsókn var að tala um fyrir kosningar. Það eru samt þau sem eiga að borga, sá er veruleikinn.

Ég glími svolítið við að taka kostnaðinn af þessu saman. Það höfum við fleiri reynt að gera en ekki gerir meiri hlutinn það. Ekki var það í greinargerðum frumvarpanna og ekki er það í nefndaráliti meiri hlutans. Nei, það er ekki gerð minnsta tilraun til að leggja heildstætt kostnaðar- eða efnahagsmat á þessar aðgerðir. Kannski þora menn því ekki þegar þeir hafa farið að átta sig á því hvað þeir eru með í höndunum. Ég er ekki frá því að einn og einn maður hafi verið bleikur þegar minnisblöðin fóru að koma frá Íbúðalánasjóði og fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem búið var að reikna framtíðartekjutapið á réttan hátt. Þá fór mönnum aðeins að bregða þegar þeir sáu að þetta var svolítið meira en þeir höfðu kannski áttað sig á sjálfir.

Menn geta reynt að teygja tekjuöflunina sem á að heita til staðar hvað varðar þessa 80 milljarða, hækkunina á bankaskatti, út í það að þar með sé staðið við loforðið um að vondir hrægammar séu að borga þetta af því að þetta sé tekið að drjúgum hluta af búum hinna föllnu banka. En það eru skatttekjur í ríkissjóð eins og hverjar aðrar skatttekjur, eins og margir hafa bent hér á, ekki eyrnamerktar tekjur. Það gæti reynst hverfull tekjustofn. Það fáránlega við þetta mál var að hæstv. fjármálaráðherra kom með hækkun á bankaskatti til að bjarga ríkissjóði, koma honum út úr halla, og sló sér á brjóst í haust að hann ætlaði að sækja bara 10 milljarða, eða hvað það nú var, í hækkaðar tekjur af bankaskatti með því að taka búin undir hann. Hann tók samt sérstaklega fram í greinargerð með frumvarpinu að ekki væri gert ráð fyrir þessum tekjum nema í tvö ár því að þá væri reiknað með að búunum hefði verið slitið. Í þrengingum sínum fyrir jólin, þegar engin leið var til að fá hrægammana til leggja fé á borðið og menn voru hættir við að stofna leiðréttingarsjóð, sem stóð til um tíma, var gripið til þess ráðs að stórhækka bankaskattinn aftur, auðvitað við litla hrifningu þeirra, ekki síður innlenda fjármálageirans eða stóru bankanna sem bera hann að fullu. Það gæti átt eftir að draga til tíðinda í þeim efnum ef menn láta reyna á réttmæti þessarar skattheimtu, eins og látið hefur verið í skína.

Í greinargerðum með frumvörpunum er, að mínu mati, reynt að gera eins lítið og hægt er úr áhrifum þessa á fjármál ríkisins og enn minni áhyggjur hafa menn af fjármálum sveitarfélaganna þar á bæ. Það sýnir hversu smættað niður þetta var að í sjálfu kostnaðarmatinu sem fylgir málinu er gerð ráð fyrir 1,3 milljörðum í kostnað hjá Íbúðalánasjóði, á ári í þrjú ár ef ég man rétt. Nú kemur hins vegar Íbúðalánasjóður sjálfur og segir 7,5–24 milljarðar, áður en aðgerðin var stækkuð. Það ber dálítið í milli. Óraunsæið er náttúrlega fullkomið þegar því er haldið fram á heimasíðu forsætisráðuneytisins að hrein áhrif á ríkissjóð verði óveruleg fyrir hvert ár á þessu tímabili. Nú væri gaman að hafa hæstv. forsætisráðherra hér til að hann útskýrði þetta fyrir okkur. Það er athyglisverð notkun á orðinu óveruleg. Annað er að koma á daginn.

Því verður ekkert lengur mótmælt að við erum að tala hér um tugi og aftur tugi og síðan hundruð milljarða. Kostnaðurinn leggur sig í grófum dráttum þannig að þessir 80 milljarðar fara úr ríkissjóði á næstu fjórum árum, þ.e. ef Alþingi samþykkir árlega 20 milljarða í þetta og finnur þá einhvers staðar eða sker niður í heilbrigðiskerfinu ef bankaskatturinn skyldi rýrna, til að skaffa peninginn í gæluverkefnið. Íbúðalánasjóður sjálfur metur það svo að efri mörk þess sem hann gæti tapað í viðbót vegna þessara aðgerða liggi í 24 milljörðum. Það var áður en meiri hlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd, mínir góðu vinir þar, fékk smáörlætiskast einn eftirmiðdag og stækkaði aðgerðina. Það þýðir að áhættan af tapi hjá Íbúðalánasjóði eykst og alveg óumdeilanlega vex kostnaður ríkis og sveitarfélaga. Við höfum ekki fengið nýtt mat frá Íbúðalánasjóði, kannski mundi hann reikna út núna að hann gæti verið í hættu með að lenda upp í 27 milljarða eða eitthvað svoleiðis, það er ómögulegt að segja nákvæmlega.

Það fer að vísu svolítið eftir því hvað ríkisstjórnin ætlast fyrir með Íbúðalánasjóð. Verði honum lokað og geti Íbúðalánasjóður ekki endurlánað það uppgreiðslufé sem mun þá hrúgast væntanlega inn í hann á næstu missirum verður vandi hans enn meiri og töpin væntanlega líka en ef hann gæti þó að einhverju leyti endurlánað þetta fé, ég tala nú ekki um ef honum yrði heimilað að bjóða upp á óverðtryggð lán.

Sveitarfélögin tapa útsvarstekjum á árunum 2014–2017 og með framreiknuðu töpuðu skattfé í útsvari á komandi áratugum, a.m.k. tveimur til þremur áratugum, allt að 21 milljarði áður en aðgerðin var stækkuð, út af séreignarsparnaðarhlutanum einum. Það liggur fyrir í blaði frá fjármálaráðuneytinu, að gefnum tilteknum forsendum um ávöxtun. Hvað eigum við að stækka það mikið eftir örlætisgerning meiri hlutans, breytingartillöguna? Upp í 25, 27, 28, eitthvað nálægt því, giska ég á.

Ríkissjóður tapar skatttekjum 2014–2017 og framreiknuðu töpuðu skattfé miðað við sömu ávöxtun allt að 43 milljörðum kr. Er það óverulegt? Nú sé ég að hér situr auðvitað einn aðalleiðtogi landsins, aðstoðarmaður forsætisráðherra. (ÖS: Aðstoðarforsætisráðherra.) Aðstoðarforsætisráðherrann sjálfur, ólaunaður að vísu, situr hér í hliðarsal. Hann hefur málfrelsi hér, það vill nefnilega svo skemmtilega til að aldrei þessu vant hefur aðstoðarmaður ráðherra líka málfrelsi á Alþingi af því að hann er þingmaður, (Gripið fram í: Hv. þingmaður hefur …) hv. þingmaður. Kannski gæti hv. þingmaður, vinur vors og blóma, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, komið í ræðustólinn og útskýrt fyrir okkur notkunina á orðinu óverulegt í forsætisráðuneytinu. Þeir eru nokkuð stórir í sniðum í forsætisráðuneytinu ef svona milljarðatugir eru óveruleg áhrif á ríkissjóð.

Síðan hefur enginn tekið með í þennan reikning, það var varla minnst á það í greinargerðum frumvarpanna, að augljóst er að umtalsverð útgjöld leggjast á almannatryggingakerfið á komandi áratugum verði þróunin með séreignarsparnaðinn sú sem reiknað er með, að kannski 70–90 milljarðar af honum fari í skattfrjálsa lækkun lána í stað þess að greiðast að stærstum hluta inn í kerfið, ávaxtast þar og koma til útgreiðslu á komandi áratugum. Verði samspil almannatryggingakerfisins og lífeyrisgreiðslna eitthvað í líkingu við það sem það er í dag er þetta ávísun á ekkert annað en verulega aukin útgjöld í almannatryggingakerfinu. Það þekkjum við mjög vel sem höfum séð samspil og skörun milli þessara kerfa. Mjög varlega reiknað má slá á það máli að það séu svona 15 milljarðar kr. og það er skynsamlegt að fara varlega í þessa útreikninga.

Til að minna á það frekar en að reyna að slá á það nákvæmri tölu er auðvitað ljóst að það má reikna með að vaxtakostnaður ríkisins aukist vegna þessara aðgerða. Það stendur einfaldlega í umsögnum Seðlabankans, meira að segja greiningarfyrirtæki, sem gaf mjög jákvæða umsögn og gerði lítið úr öllum áhrifum nema þá þeim jákvæðu, viðurkennir að auðvitað séu líkur á því að vaxtastigið verði að hækka eitthvað í landinu til að hamla gegn efnahagsáhrifum þessara aðgerða. Og það er fljótt að taka í þar sem er allur skuldastabbi ríkissjóðs og þess vegna auðvitað sveitarfélaganna og annarra aðila í hagkerfinu, sem er mjög skuldugt, ef vaxtastigið hækkar um 0,5% á einhverju árabili eða eitthvað svoleiðis, verður mjög fljótt mjög dýrt fyrir íslenska ríkið, a.m.k. á styttri hluta lánasafnsins. Frekar en ekki set ég 5 milljarða kr. á það.

Þetta leggur sig saman á 188 milljarða, herra forseti. Með lauslegri áætlun á því hvað stækkun meiri hlutans bætir við í kostnað hjá þessum aðgerðum er nokkuð ljóst að við erum að stefna öfugum megin við 200 milljarða sem verður kostnaður ríkis og sveitarfélaga í bráð og nokkurri lengd af þessum aðgerðum. Það er enginn smáreikningur, það munar aldeilis um það. Og hvað gætum við ekki hugsað okkur að gera margt fyrir þótt ekki væri nema brot af þeirri fjárhæð?

Eru allir svona gjörsamlega sannfærðir um að þetta sé eina rétta og skynsamlegasta ráðstöfunin? (FSigurj: Já.) Er það þannig? Það læðist enginn efi að hv. þingmanni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, að einn einasti eyrir af þessu ætti kannski frekar að fara í eitthvað annað? (FSigurj: Nei.) Það læðist enginn efi? Mikið óskaplega eiga menn gott að vera svona sannfærðir. Það er ekki vandi að sofna þegar menn hafa 100% rétt fyrir sér og eru svona öruggir og vissir í sinni trú. (FSigurj: … slitabúunum?) Þetta er eiginlega óþarfi, hv. þingmaður. Viltu ræða eitthvað sérstaklega um slitabú? Líður þér illa yfir þeim úti í salnum núna? (FSigurj: Nei.) Nei. Við skulum bara eiga málefnaleg skoðanaskipti um hvaðeina sem hv. þingmaður vill eiga orðastað við mig um þegar við erum báðir í jöfnum færum til að flytja okkar mál. Ég ráðlegg hv. þingmanni það og ég mun ekkert renna af hólmi þó að hv. þingmaður vilji gagnrýna mig. En ég held að hv. þingmaður verði að þola að til eru menn sem hafa aðrar skoðanir á þessum málum en hann og hans flokkur og það gæti jafnvel verið hollt fyrir hv. þingmann að reka sig á það einstöku sinnum að Framsóknarflokkurinn er ekki hafinn yfir gagnrýni, og það sem hann stendur fyrir.

Það er líka margt í þessu máli, herra forseti, sem hefur sáralítið og allt of lítið verið rætt, lausir endar sem ég hef voðalega litla tilfinningu fyrir hvernig eiga eftir að ganga upp í framkvæmd. Það er svo sem smámál í þessu þó að menn lendi í einhverju hnjaski með það, ég ætla ekki að missa svefn yfir því en bendi á það til að hafa sagt það að miðað við mína lauslegu skoðun á báðum þessum málum eru enn á því ýmis tæknileg álitamál, jafnvel lagaleg álitamál. Það mætti þess vegna reikna með dómsmálum. Það er ekkert skrýtið þegar mörg hundruð milljarða millifærsla á fjármunum í einu samfélagi er að eiga sér stað þó að einhverjir settu við það spurningarmerki og spyrðu út í sinn rétt: Er kannski brotið jafnræði á mér?

Hvað með búseturéttarhópa sem ekki eiga að fá niðurfærslu á sínum lánum en hafa lagalega verið meðhöndlaðir, bæði skattalega og hvað varðar ráðstafanir, algerlega eins og eigendur húsnæðis, þ.e. þeir sem búa í búseturéttaríbúðum hverra lán eru skráð á íbúðina og greiðslan miðast við skuldina á íbúðinni, enda hafa þeir fengið vaxtabætur og það þótti sjálfsagt mál að þeir færu í greiðslujöfnun? Með öðrum orðum hafa þeir verið meðhöndlaðir algerlega eins og þessi hópur að öllu leyti í gegnum hrunið og allt þangað til núna. Nú eru þeir ekki með. Ég held að það standist ekki. Ég spái því einfaldlega að þeir hefðu mjög sterka stöðu til að fara fyrir dómstóla með þetta mál. Trúlega er það augljósasta dæmið um hættuna á broti á jafnræðisreglunni þar sem er það húsnæðisform því að það er séreignarform að því sem nemur búseturéttinum en líka vegna þess að viðkomandi búseturéttarhafi þjónustar lánið sem hvílir á hans íbúð og hefur fengið fyrir það fullar vaxtabætur. Það segir sig eiginlega alveg sjálft að það stenst ekki að undanskilja þann hóp.

Enn einu sinni fær lánsveðshópurinn enga úrlausn. Það eru mér mikil vonbrigði. Af mikilli þolinmæði beið ég með frumvarp okkar hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, við biðum eftir að ríkisstjórnin gerði eitthvað í þeim efnum. Hún er búin að hafa langan tíma til þess, frá því í vor eða haust. Ég trúði að menn mundu hafa fyrir því að reyna að finna far fyrir lánsveðshópinn í þessum aðgerðum. Við áætluðum mögulegan kostnað á móti því sem lífeyrissjóðirnir greiddu upp á +/-2 milljarða kr. Það hefði ekki sett aðgerðina á hliðina. Lánsveðshópurinn fær auðvitað eitthvað út úr þessu, en hann verður ekki jafn settur þeim sem fóru í 110%-leiðina. Hann verður skilinn eftir, yfirveðsettur að hluta. Við vitum það. Viljið þið þá taka að ykkur, hv. stjórnarþingmenn, að svara þeim næst? Þeir leita mikið til mín og okkar sem höfum reynt að bera þeirra mál áfram inn í þingsalina, en hér eftir, ágæta fólk sem sitjið enn föst í lánsveðsyfirveðsetningargildrunni, frá og með því að þetta verður að lögum skulum þið snúa ykkur til Frosta Sigurjónssonar, Willums Þórs Þórssonar, Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og þeir ætla að taka ykkar mál að sér. (SSv: Og Vigdísar Hauksdóttur.) Og Vigdísar Hauksdóttur, að henni ógleymdri. Mun heldur betur muna um það.

Nei, ráðstöfun þessara fjármuna verður þannig, það tel ég að við höfum náð að sýna fram á, að það er út úr öllu korti að fara svona með sameiginlegt aflafé landsmanna og sveitarfélaganna. Það er hneyksli ef menn ætla að láta þetta fara óbreytt þannig í gegn að stóreignafólk geti fengið fulla niðurfærslu á sínum skuldum, fólk sem á hreina eign upp á 100, 120, 200, 500 milljónir kr. Hvernig ætlið þið að forsvara það að skatttekjur framtíðarinnar sem lenda á herðum barnanna okkar gangi til þess að auka auð sumra ríkustu fjölskyldnanna á Íslandi? Það er í þessu frumvarpi. Við þurftum auðvitað að hafa fyrir því að draga þær upplýsingar fram, en við fengum þær frá ríkisskattstjóra. Þetta eru kannski 229 manns, fjölskyldur sem eiga auð upp á meira en 120 millj. kr. í hreinni eign, skulda samt að meðaltali 9,7 milljónir í einhverju íbúðarhúsnæði af því að það lán var bara skilið eftir með ágætisveði í húsinu. Kannski er það bara með mikla fjármuni í ávöxtun annars staðar og lítur svo á að þetta sé ágætisfjárstýring, eins og það heitir víst á fínu máli. Það mun fá, ef það ber sig eftir því, að einhverju marki niðurfærslu á höfuðstól þessara lána og hrein eign þess vex þá kannski úr 120 í 124 milljónir. Þetta getur gerst og mun gerast. Eru menn alveg búnir að sofa sig í gegnum þetta og ætla að láta sig hafa það?

Það er ákaflega einfalt að laga þetta með því að setja einhver eignamörk, þó að þau væru tiltölulega rúm. Meiri hlutinn leggur það hins vegar ekki til og ég geri það ekki á þessu stigi mála því að ég vil fella þetta frumvarp og er ekki að flytja við það breytingartillögur á meðan. Auðvitað er það samt hægt.

Aðrir hafa farið vel yfir það hvernig þessar hópar eru meira og minna skildir eftir og ég þarf ekki að endurtaka það hér. Það sem mér finnst umhugsunarefni út frá þessu er eiginlega spurningin: Hvers konar ríkisstjórn er þetta?

Ég efast ekkert um að almennt vilja stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar vera góð ríkisstjórn og gera gott. En hvað birtist okkur til dæmis í þessum málum? Í hverra þágu er unnið og hefur verið unnið fram að þessu? Eru það leigjendur? Nei. Er það tekjulægsta fólkið sérstaklega í landinu? Nei, það fékk enga skattalækkun fyrir áramótin en millitekjufólk fékk það með mjög skrýtnum röksemdum. Er verið að hjálpa þeim sem eru með þyngstu greiðslubyrðina miðað við tekjur sínar vegna húsnæðiskostnaðar? Nei, það voru skornar niður vaxtabætur sem eru öflugasta tækið til þess. Á árinu 2014 verða greiddar lægstu vaxtabætur að raungildi á Íslandi í níu ár. Það er þannig. Það er dregið verulega úr þeim stuðningi sem sérstaklega er beint að tekjulægstu fjölskyldunum með þunga greiðslubyrði af íbúðalánum.

Ég tók mig til og fékk aðstoð frá góðu fólki í fjármálaráðuneytinu við að láta framreikna fjárhæðir allra vaxtabóta og sérstakra vaxtaniðurgreiðslna aftur í tímann og til og með fjárlögunum í ár og út úr þessu kom að þegar teknar eru til hliðar fjárhæðirnar sem eiga að ganga í sérstakar lánsveðsvaxtabætur á þessu ári standa eftir rétt rúmir 8 milljarðar og það er lægsta fjárhæð að raungildi sem verið hefur í átta eða níu ár, ég man nú ekki nákvæmlega hvort það er en það er á því bili. Það þarf að fara langt aftur undir aldamótin til að finna jafn lága fjárhæð þegar skuldirnar voru þó lægri en þær eru núna. Ekki er verið að hjálpa því fólki þar.

Þá erum við komin með það að þessi ríkisstjórn er greinilega ekki sérstaklega að vinna fyrir þetta fólk. En hverjum hefur hún liðsinnt? Stórútgerðinni, og ætlar að gera enn betur. Er ekki önnur eða þriðja lækkun á veiðigjaldinu í farvatninu? Jú, jú, eitthvað hefði kannski þurft að endurskoða upphafleg áform vegna lakari afkomu, en það má aldeilis fyrr vera þegar svo er komið, miðað við áformin sem ég hef heyrt af núna, að það standi til þess að bolfisksútgerðin greiði nær ekkert sérstakt veiðigjald að teknu tilliti til afsláttar. Hún er laus við það, það er bara horfið.

Þetta er greinilega ríkisstjórn sem lætur sér mjög annt um tekjuhæsta fólkið í landinu. Það er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu, þið fyrirgefið. Af hverju segi ég þetta? Vegna þess að það er búið að ákveða að leggja af auðlegðarskattinn, ráðstöfun sem ráðist var í á Íslandi og fyrirkomulag sem er við lýði í mörgum öðrum löndum og hefur reyndar verið tekið upp í nokkrum í viðbót þar sem menn hafa komist í gegn með það, til að láta auðugustu og efnuðustu fjölskyldur landanna hjálpa til á þessum erfiðu tímum í heiminum sem meira og minna allt vestrænt hagkerfi og annað en nýmarkaðslöndin hafa gengið í gegnum undanfarin ár.

Í Noregi þar sem ríkissjóður er nú ekki á flæðiskeri staddur, ekkert að baksa út úr einhverju hruni, hefur verið auðlegðarskattur um árabil. Það þykir sjálfsagt, heitir „formueskat“ á norsku, mjög hliðstæður auðlegðarskattinum hér. En það á að fella hann niður á einu bretti og þar fjúka 9 milljarðar af því að samúð manna er greinilega með þessum auðugustu fjölskyldum í landinu.

Viðbáran sem við heyrðum var að skatturinn væri kannski ólöglegur. Hvað sagði Hæstiréttur á dögunum? Nei, að sjálfsögðu ekki. Ríkið hefur fullt vald til að leggja á málefnalegan skatt með skýru skattandlagi af þessu tagi. Auðvitað, enda hafði ég ekki af því hinar minnstu áhyggjur þó að stálfrúin færi í mál út af því. Ekki þarf að leggja hann af vegna þess, en það á að gera enn betur við hluta þessa hóps því að eitthvert fólk mun fá sérstaka lækkun á íbúðarskuldum sínum á árinu sem það losnar undan því að greiða auðlegðarskatt. Það er aldeilis góðvildin í garð þessa hóps. Þannig er þetta.

Eðlilega velta menn því fyrir sér, og eiga að velta því fyrir sér ef menn velta fyrir sér ráðstöfun opinberra fjármuna, vanda sig við að velta hverri krónu við nokkrum sinnum og spyrja sig: Hvar er hennar mest þörf? Þetta þekkja allir sem hafa glímt við fjárlagagerð, fjárhagsáætlanir sveitarfélaga o.s.frv. Það er hollt að spyrja sig þeirrar spurningar. Það vantar alveg inn í þessa umræðu, því miður. Auðvitað hefðum við þurft að vera með þessi mál inni í umræðum og samhliða umræðum um fjárlagafrumvarp og ríkisfjármálaáætlun. Þá hefði verið hægt að ræða þetta í hinu rétta samhengi. Ef þessi pakki hefði beðið haustsins hefði hann getað komið inn í umræður samtímis fjárlagafrumvarpi og ríkisfjármálaáætlun þar sem við horfðum yfir stöðuna og veltum fyrir okkur á hverju við hefðum ráð á næsta ári og hvernig hagsmunum ríkisins yrði borgið næstu þrjú, fimm, tíu árin eða svo.

Hið nærtæka blasir við, að borga einfaldlega niður skuldir ríkisins. Það er sennilega að mörgu leyti einfaldasta ráðstöfunin og ég trúi að um hana hefði getað orðið mjög breið samstaða í landinu. Fáir hefðu orðið til að mótmæla ef menn hefðu ekki verið fastir í þessum ólánsloforðum um að gera eitthvað allt annað.

Ég hefði mælt með blandaðri leið þar sem við hefðum mætt fólki sem sannarlega á í miklum erfiðleikum vegna þungrar greiðslubyrði af húsnæðisskuldum eða vegna hárrar leigu, að við færum blandaða leið þess að hækka vaxtabætur, hækka húsaleigubætur umtalsvert og nota svo kannski afganginn að mestu leyti til að greiða niður skuldir ríkisins. Halda menn ekki að það hefði getað orðið sæmileg sátt um þetta? Þá værum við að gera hvort tveggja, grynnka á vandanum í þágu framtíðarinnar, borga aðeins minna í vexti á komandi árum af skuldum ríkisins, en líka að hjálpa þeim sem við værum sannarlega sammála um að væru verst settir í sambandi við mikinn kostnað af húsnæðisöflun.

Auðvitað hefðum við getað blandað kokteilinn enn þá meira og sagt: Við ætlum líka að taka aðeins frá fjármuni vegna þess að þörfin er orðin svo brýn á því að snúa við blaðinu og byrja að byggja upp í innviðum samfélagsins, í velferðarkerfinu, menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu, rannsóknum og þróun, samgöngukerfinu þar sem vegirnir okkar eru að slitna upp og við höfum ekki náð að sinna viðhaldi almennilega þannig að þeir liggja margir undir skemmdum. Það eru ótal verkefni sem kalla á í okkar landi að við förum yfir það hvernig við eigum skynsamlegast að spila úr því sem við höfum til ráðstöfunar. Það er ekki ótakmarkað, það hefur reynslan kennt okkur. Við reyndumst ekki eins rík og við héldum og verðum það ekki á næstu árum.

Áhyggjur mínar eru í sjálfu sér ekki þær að þetta setji ríkið eða sveitarfélögin á hliðina, ef áfram gengur vel næstu árin. Auðvitað munum við alveg ráða við þetta ef hér verður góður hagvöxtur og við sýnum ráðdeild og skynsemi í fjármálastjórn ríkisins að öðru leyti. Þetta er það hins vegar ekki. En ef það slær eitthvað í bakseglin, ef við verðum nú fyrir einhverjum áföllum vitum við, og höfum gert alveg síðan í árslok 2008, að staðan er ofboðslega brothætt. Við erum enn að glíma við hátt skuldahlutfall þó að það lækki aðeins núna sem hlutfall af vaxandi landsframleiðslu. Það er komið niður úr þeim 100% sem það kyssti þegar verst lét en það er ekki vegna þess að við höfum borgað skuldirnar niður. Skuldastabbinn stendur nokkuð óbreyttur. Það er vegna þess að landsframleiðslan hefur aukist og þá lækkar þetta hlutfall aðeins. Það er vissulega gott, það eru meiri verðmæti á móti skuldunum í sjálfu sér í veltu hagkerfisins, en við erum ekki farin að borga niður skuldirnar. Það er ekki þannig. Við höfum í besta falli haldið sjó með þær.

Við vorum komin býsna tæpt. Það muna kannski einhverjir eftir því hér að hin krítísku mörk, 120%, voru viðmiðið á Íslandi í eitt og hálft eða tvö ár meðan við héldum enn þá að við mundum enda þar. Menn þekkja þá tölu frá Grikklandi og víðar. Það er almennt mat og almennt sýna líkön að opinberar skuldir verða ósjálfbærar ef þær fara mikið yfir þau mörk. Það þarf að ganga mjög vel ef menn eiga að klára sig af meiri skuldum en svo miðað við veltu hagkerfisins. Hættan er sú að menn fari að spóla, geti kannski haldið skuldunum niðri en ekki borgað þær niður og þá fer sama fjárhæð í vexti ár eftir ár. Um þetta eru þekkt dæmi, við getum þess vegna nefnt Japan sem að vísu hefur fyrst og fremst getað borið sínar háu skuldir um langt árabil vegna þess hve lágir vextirnir eru þar. Við vorum tæp gagnvart þessari stöðu.

Þessar áleitnu spurningar eru allar þarna og verða ekki umflúnar. Menn eiga ekki að komast upp með að láta sig hafa það bara á örfáum klukkutímum að sulla svona aðgerð í gegn og hafa ekki sjálfir, hver og einn og sameiginlega, velt þessum áleitnu spurningum fyrir sér. Ég verð bara að segja alveg eins og er að ég er botnsannfærður um að þessi ráðstöfun svona mikilla opinberra fjármuna er glórulaus. Það er ekki vit í henni. Að mínu mati er betra að gera ekki neitt en að taka svona stóran reikning á hið opinbera og inn í framtíðina.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta ábyrgðarlaust. Ég tel að ef hrunið hafi kennt okkur einhvern skapaðan hlut sé það í fyrsta lagi það að hlusta á gagnrýni og taka því vel ef menn benda okkur á að við séum kannski ekki á réttri leið. Það á bæði við inn á við og út á við. Við hefðum betur hlustað meira hvert á annað á árunum í ruglinu, en líka á erlendar raddir sem vöruðu okkur við og við gerðum ekkert með. Við ættum að hlusta núna. Menn ættu að velta þessu vel fyrir sér áður en þeir láta sig bara hafa það. Og það að efna eitthvert kosningaloforð sem hvort sem er var glórulaust eru engin rök, ekki ef menn efnislega sjá að það væri skynsamlegra að gera hlutina öðruvísi. Þá eru menn menn að meiri að endurskoða sín sjónarmið í þeim efnum.

Ég hef að minnsta kosti hugsað mér að nota málfrelsi mitt á meðan ég er á Alþingi til að þegja ekki ef ég tel að menn séu að fara út af sporinu. Ég notaði þennan sama rétt á Alþingi mikið á árunum 2004, 2005 og fram til 2008, sjálfsagt með mismiklum árangri, verður að segjast, með því að halda ræður og flytja þingmál, vara við þróuninni í hagkerfinu og leggja til að gripið yrði til aðgerða. Ég var einn fárra sem gerði það. Vonandi þarf maður ekki aftur að lenda í svipuðum sporum á lífsleiðinni og varð niðurstaðan af því öllu saman, en maður hefði haldið að nú væru aðrir tímar gagnvart því að fara varlega og sýna ábyrgð.

Sérstaklega finnst mér að við eigum að sýna ábyrgð gagnvart framtíðinni. Ég hef nálgast þetta þannig frá hruni að við brugðumst sem kynslóð. Stórfelld mistök voru gerð á Íslandi og okkur, ekki persónulega hverju og einu, sem tilheyrum einni kynslóð í landinu mistókst herfilega, það er ekkert hægt að horfa fram hjá því. (VigH: Landsbankabréfið.) Það mun fylgja — Þegiðu, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, nú ætla ég að leyfa mér að segja þetta, forseti, það er nóg komið að hafa þennan leiðindafriðarspilli gjammandi þarna endalaust. Það er aldrei hægt að tala á alvarlegum nótum (Forseti hringir.) um nokkurn skapaðan hlut —

(Forseti (EKG): Forseti vill engu að síður biðja hv. þingmann að gæta orða sinna.)

Já, ég skal gera það, hæstv. forseti, en forseti ætti þá kannski ekki að sofa þarna og líða það að ræðumenn séu truflaðir með þessum hætti. (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti fylgdist nákvæmlega með ræðu hv. þingmanns.)

Það er gott, gleður mig stórkostlega, forseti, gleður mig stórkostlega.

Ég lít svo á, herra forseti, og læt ekki slá mig út af laginu, að það höfum verið við sem kynslóð sem brugðumst. Skal ég ræða þetta mál vel við forseta, enda ber að beina orðum sínum til hans. Það vorum við, sem erum á þessum aldri núna og stjórnuðum landinu undanfarin ár, sem brugðumst. Við gerðum stórfelld mistök og hættuleg sem komu Íslandi í háska. Sem betur fer hefur unnist sæmilega úr því. En við ættum að læra eitthvað af því.

Eitt skulum við ekki gera, forseti góður, það að velta þeim vanda yfir á börnin okkar. Við skulum gjöra svo vel og takast á við það sjálf að vinna okkur út úr þessum erfiðleikum. Það hafði ég og hef haft að leiðarljósi og ætla mér að gera eftirleiðis. Þá fyrst bregðumst við tvisvar ef við erum ekki menn til þess, Íslendingar sem nú erum á dögum, að takast á við þessa erfiðleika og bera þá sjálf. En þið, hv. þingmenn, sem ætlið að senda þennan reikning inn í framtíðina eruð að hluta til að víkja ykkur undan því. Það er þannig og það mun fylgja ykkur. Það verður séð til þess ef þið samþykkið þessi ósköp.

Ég ætla að óska Pétri H. Blöndal til hamingju með að vera þó sá sem hann hefur oftast verið, hann sjálfur, fylgja sannfæringu sinni og standa í lappirnar. Ég óska Vilhjálmi Bjarnasyni sömuleiðis til hamingju. Því miður, aðrir hv. stjórnarþingmenn, veit ég ekki enn til þess að ég geti látið þær hamingjuóskir ganga lengra. Mér finnst það virðingarvert þegar menn fylgja þannig sannfæringu sinni af einbeitni og rökstyðja sitt mál eins og hv. þm. Pétur Blöndal gerir mjög vel í sínu magnaða nefndaráliti sem ég tel að eigi að vera skyldulesning í stjórnmálum héðan í frá.

Þá held ég að ég fari bara að láta þessu lokið, herra forseti. Ég er að hugsa um að leifa svona tveimur mínútum, það gleður forseta alveg örugglega eins og öll þessi ræða hefur gert. Ég veit það, forseti er brosmildur þarna fyrir aftan mig.

Þá er ég að hugsa um að bjóða mönnum góða nótt og vona að allir sofi vel þrátt fyrir allt. Ef hugur minn stendur til þess á ég auðvitað rétt til þess að tala hérna aðeins meira. Ég hefði til dæmis mjög gaman af að vita hvort hæstv. forsætisráðherra treystir sér til að halda ræðu um þetta mál. Það eru ákveðin skilaboð ef svo er ekki. Þá verður bara að hafa það.

Málið gefur tilefni til þess að það sé rætt, svo mikið er víst, og einhvern tíma hefur einni nótt verið spanderað í minna en að tala um þetta.