143. löggjafarþing — 109. fundur,  14. maí 2014.

fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

327. mál
[00:46]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um þessa tvo samninga sem hér eru undir. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa utanríkisráðuneytisins og sömuleiðis fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands. Auk þess bárust nefndinni allnokkrar umsagnir um málið.

Hv. þingmenn þekkja þetta mál mjög vel, enda í þriðja skiptið sem það kemur fyrir þingið. Ástæðan fyrir því að ekki var hægt að samþykkja þetta á hinum fyrri stigum málsins var sú að það spruttu hörð mótmæli alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar gegn málinu. ASÍ tók eðlilega undir þau, sömuleiðis leiddi það til þess að í ýmsum öðrum löndum, t.d. Noregi, var ákveðið að samþykkja málið ekki. Ástæðan fyrir mótstöðu hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar var sú staðreynd að í Kólumbíu hefur ríkt langvarandi óöld. Þar hafa verið uppi skæruliðahreyfingar sem fyrir einum og hálfum áratug voru samtals sjö talsins. Sömuleiðis hafa, vegna veiks ríkisvalds, komið upp á hægri vængnum sveitir öfgamanna. Þessar sveitir hafa borist á banaspjót. Þetta leiddi til langvarandi og harðra átaka sem kostuðu fjölmarga lífið og hefur leitt til þess að alþýða manna hefur mótmælt þessari þróun mjög harkalega.

Víðs vegar um Kólumbíu voru það ekki síst forustumenn verkalýðshreyfingarinnar sem voru í fararbroddi í því að mótmæla þessum átökum. Það leiddi meðal annars til þess að sex af þessum sjö skæruliðahreyfingum voru leystar upp. Hreyfingarnar, hinar vopnuðu sveitir á hægri vængnum, leystu sig einnig sjálfar upp. Eftir var ein vinstri sinnuð skæruliðahreyfing, FARC, sem um væri hægt að flytja langt mál. Segja má að hún reki rætur sínar til þess tíma í Kólumbíu sem kallaður var áratugur ofbeldisins þegar vopnaðar sveitir sósíaldemókrata og íhaldsflokksins í Kólumbíu bárust á banaspjót víðs vegar um Kólumbíu. Leifar þessara sveita má segja að hafi skapað hefð sem leiddi til þess að á róstusömum áratugum, upp úr miðjum sjöunda áratugnum, komu fram þær hreyfingar skæruliða sem ég nefndi fyrr í ræðunni.

Til að gera langa sögu stutta hefur FARC lifað. Verkalýðshreyfingin hefur kvartað undan því að forustumenn hennar í Kólumbíu sem hafa tekið málstað alþýðu og barist gegn ofbeldi af hálfu FARC hafa sætt ofbeldi, hvers kyns mannréttindabrotum og verið drepnir svo hundruðum skiptir í gegnum árin. Samtals hafa þessar róstur yfir marga áratugi leitt til þess að 3–5 milljónir Kólumba hafa hrakist af svæðum sínum, 10 milljónir hektara hafa verið teknar af þeim með valdi og notaðar til þess að framleiða t.d. kókalauf til að nota í ólöglegan eiturlyfjaiðnað. 300 þús. manns hafa látið lífið á þessum tíma.

Verkalýðshreyfingin benti meðal annars á það að lengi vel tóku kólumbísk stjórnvöld ekki nægilega við sér og veittu ekki þeim sem voru í andófi gegn þessari stöðu í landinu nægilega vernd. Yfirferð þessa máls í nefndinni leiddi hins vegar í ljós að þrátt fyrir að enn sé við lýði þetta andóf innan alþjóðlegu verkalýðshreyfingarinnar eru skýr merki um það að kólumbísk stjórnvöld hafi gert mjög mikið á síðustu árum til að vernda forustumenn verkalýðshreyfingarinnar. Þar á meðal er bent á það í nefndarálitinu að núna er 730 manns veitt stöðug vernd. Til þess eru notaðar 250 brynvarðar bifreiðar og bara á síðasta ári var samtals 200 milljónum dollara varið til þess að verja mannréttindafrömuði og verkalýðsforustu í Kólumbíu. Sömuleiðis hafa á síðustu árum verið samþykkt tímamótalög í Kólumbíu sem eiga meðal annars að leiða til sátta í landinu. Menn eru að setja á fót sannleiksnefndir til þess að reyna að sætta þá sem hafa tekist á í gegnum árin og sömuleiðis er búið að setja upp viðamikla stofnun sem á að dreifa landnæði til þeirra sem hafa hrakist af jörðum sínum.

Í stuttu máli er það niðurstaða okkar eftir að hafa farið vel yfir þetta mál að kólumbísk stjórnvöld hafi sannarlega tekið sig á og sýni mjög einbeitta viðleitni, sérstaklega undir forustu nýs forseta, Santosar, til að ná varanlegum friði. Þau hafa sömuleiðis tekið þátt í samningaviðræðum við FARC sem hafa verið haldnar bæði í Ósló og Havana á Kúbu undir forustu kúbverskra og norskra stjórnvalda. Sjálfstæð samtök, alþjóðleg almannasamtök, telja að þessar viðræður séu líklegar til að leiða til varanlegs friðar þegar kemur fram undir mitt ár eða í lok næsta árs.

Að öllu þessu saman virtu og sömuleiðis eftir að hafa skoðað gögn sem málið varða og eftir fund með tveimur ráðherrum úr kólumbísku ríkisstjórninni sem hingað komu til lands var það niðurstaða nefndarinnar að leggja til að þessi tillaga verði samþykkt eftir þriggja ára samfellda vinnslu.

Undir þetta rita formaður nefndarinnar, hv. þm. Birgir Ármannsson, ég sem framsögumaður, og hv. þingmenn Ásmundur Einar Daðason, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason. Aðrir voru fjarstaddir en enginn þeirra sem sátu fundi nefndarinnar eða eru í henni hefur lýst sig andvígan því að við tökum nú þetta skref.