143. löggjafarþing — 109. fundur,  14. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[01:00]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum.

Frumvarpið gekk til nefndar eftir 2. umr. Nefndin ræddi sérstaklega umsögn Persónuverndar, þ.e. öflun málaskrárupplýsinga. Umsögn Persónuverndar kom eftir að frumvarpið var afgreitt úr nefnd og það er ástæðan fyrir því að breytingartillagan kemur svona seint. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd stendur öll að breytingartillögunni.

Fram kemur í umsögn Persónuverndar að mikilvægt sé að gæta meðalhófs við öflun umræddra upplýsinga, meðal annars í tengslum við það hvaða upplýsinga sé aflað og hversu langt aftur í tímann, sem og að umsækjendum og starfsmönnum sé greint frá því fyrir fram að þeim verði flett upp. Þá sé einnig mikilvægt að mönnum sé veitt færi á að koma að skýringum við skráningu færslna í málaskrá. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til þá breytingu að um öflun málaskrárupplýsinga, þar á meðal umfang upplýsingaöflunarinnar, fræðslu til umsækjenda og starfsmanna í aðdraganda uppflettingar og andmælarétt þeirra, skuli nánar mælt fyrir í reglugerð.

Rétt er að taka fram að þessi háttur er hafður á nú þegar í framkvæmd og því er hér einvörðungu verið að lögfesta það ferli sem þegar er til staðar. Þessi breytingartillaga mun því ekki breyta neinu um það hvernig hlutirnir eru gerðir núna en rétt þótti að hafa það lögfest og skýrt í lögum að þessi mál væru samkvæmt áliti Persónuverndar að þessu sinni.

Ekki er meira um málið að segja, virðulegi forseti. Ég þakka nefndinni kærlega fyrir að taka málið fyrir og að leggja fram þessa breytingartillögu og er hún sett fram af allri hv. allsherjar- og menntamálanefnd.