143. löggjafarþing — 110. fundur,  14. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[09:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er vissulega svo að í þessu frumvarpi er að hluta til að finna efnisþætti sem eru það jákvæðasta í þessum skuldamálapakka, þ.e. þá hugsun að aðstoða fólk sem hyggur á húsnæðisöflun við að mynda sparnað eða höfuðstól með skattalegum stuðningi. En að hinu leytinu er þetta hluti af höfuðstólsniðurfærslunni og með þeim ágöllum að fólk er aðstoðað þeim mun meir sem hærri eru tekjurnar.

Þá tel ég að sú ráðstöfun meiri hlutans að leggja til stækkun á umfangi aðgerðanna, sem eingöngu gagnast hinum tekjuhærri, með því að færa tekjumörkin sé algerlega vanhugsuð og mæli eindregið með því að menn greiði atkvæði gegn henni.

Með hliðsjón af þessu tvíþætta efnisinnihaldi málsins mun a.m.k. sá sem hér talar sitja hjá við efnisgreinar frumvarpsins en greiða atkvæði gegn þeim hluta breytingartillagnanna sem stækka aðgerðina.