143. löggjafarþing — 110. fundur,  14. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[09:44]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er myljandi stemning fyrir þessu frumvarpi eins og maður sér hér á ráðherrabekknum mér til hægri handar þar sem enginn ráðherra ríkisstjórnarinnar er mættur til þess að styðja það. [Hlátur í þingsal.]

Að því er varðar það frumvarp sem hér er undir eru margar meginlínur í því mjög jákvæðar. Það er góð hugsun í því að mörgu leyti. Það sker sig frá hinu frumvarpinu sem við ræðum hér síðar í dag að því marki að í því er miklu meira réttlæti að finna. Ég tel t.d. að húsnæðissparnaðarleiðin sem þar er kynnt sé mjög góð þó að henni sé áfátt og að það sé kannski besta hugsunin sem fram hefur komið í þessu.

Það sem vefst fyrir mér í þessu máli er að komið hafa fram upplýsingar um að sveitarfélögin tapa gríðarlegum upphæðum á þessu. Það var staðfest í gær af hv. þm. Frosta Sigurjónssyni að það yrðu hugsanlega 23 milljarðar. Það er ábyrgðarhluti að axla það þegar ríkisstjórnin hefur ekki sagt neitt um að koma til móts við það. Á þessu stigi að minnsta kosti hef ég ekki axlir til þess að standa undir því þannig að ég mun sitja hjá við þetta frumvarp.