143. löggjafarþing — 110. fundur,  14. maí 2014.

lyfjalög.

222. mál
[09:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þessi breytingartillaga er orðalagsbreyting á 7. mgr. 33. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, um skilgreiningu á samhliða innfluttu lyfi. Samkvæmt dómaframkvæmd Evrópudómstólsins hefur það verið talið nægilegt til að lyf teljist til samhliða innflutts lyfs að það sé ekki bara lyf sem er þegar skráð og hefur markaðsleyfi hér á landi, heldur einnig ef það er nægilega sambærilegt öðru lyfi sem þegar er skráð og hefur markaðsleyfi hér á landi. Þessi breytingartillaga lýtur að því að samræma þessa skilgreiningu laganna við dómaframkvæmd Evrópudómstólsins.