143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

snjómokstur á Fjarðarheiði.

578. mál
[10:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Aftur ítreka ég þakkir fyrir þessa umræðu. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef verið kölluð sérstakur áhugamaður um jarðgöng og ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sérstaklega fyrir þá nafnbót. Ég get tekið undir með hv. þm. Kristjáni L. Möller varðandi það sem hann nefnir hér og mikilvægi þess að góðar samgöngur við Seyðisfjörð verði tryggðar. Það er risastórt mál og skiptir miklu máli. Ég hef áður og geri það áfram treyst á dómgreind hv. þingmanns í því og ráðleggingar og mun þess vegna, í samræmi við það sem þingmaðurinn nefndi, óska eftir því við vegamálastjóra að hann fundi sérstaklega með fulltrúum á svæðinu og farið verði í að meta hvort hægt sé að gera betur og hvernig það verði þá best gert. Það þarf ekki að orðlengja um það.

Varðandi göngin undir Fjarðarheiði er það auðvitað mikið áhugamál og mikið kappsmál og hagsmunamál, eðlilega, fyrir þetta svæði. Ég held að þingheimur sýni því allur skilning, ég sýni því skilning og hef ítrekað rætt þetta mál við heimamenn þar sem eru auðvitað farnar í gang og undirbúningur hafinn að ákveðnum rannsóknum vegna fjármagns sem þingið veitti til þess undir lok síðasta árs í tengslum við fjárlög.

Síðan höfum við einnig rætt við aðila á svæðinu um þær framkvæmdir og hvernig þær gætu komið til og meðal annars rætt hvort einhver kostur væri á því að fara með þau göng að hluta í einkaframkvæmd. Það hefur einnig verið til umræðu á þessu svæði.

Ég held að við séum öll áhugamenn um að tryggja góðar samgöngur við þetta svæði og munum áfram vinna að því þrátt fyrir að ég þori ekki, frekar en aðrir í þessum sal, að gefa einhver fyrirheit um tímasetningar. Ég get þó gefið fyrirheit um það að Vegagerðin muni setjast betur yfir málið, og þetta mál sérstaklega, á sumarmánuðum og vonandi tryggja að samgöngur við þetta svæði á vetri komanda verði eins góðar og mögulegt er.