143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

samkeppnishindranir í fiskvinnslu.

437. mál
[10:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka ágæta fyrirspurn hv. þingmanns. Um er að ræða mikilsvert mál sem oft hefur komið til umræðu á Alþingi og ég vildi svo gjarnan hafa fengið rýmri tíma til að ræða en hér er gefinn.

Tilefni fyrirspurnarinnar er álit Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2012. Álitið er sett fram með fyrirvara um mikilvægi þess að tryggja verður samkeppnishæfni íslenskrar útgerðar og fiskvinnslu á alþjóðlegum mörkuðum en þannig verða talin rök til þess í álitinu að lóðrétt samþættar útgerðir fái að standa í óbreyttri mynd, m.a. vegna mikilvægis samþættingar, vegna geymslutíma og eiginleika vöru, markaðssetningar og öflunar hráefnis til að uppfylla kröfur um langtímasamninga. Þessu er ég sammála.

Varðandi a-lið 2. töluliðar fyrirspurnarinnar vil ég upplýsa að 1. janúar gengu í gildi breytingar á tekjuskattslögum varðandi milliverðlagningu. Það sýnist mögulegt að þessar nýju reglur geti dregið úr möguleikum tengdra aðila til að stunda óeðlilega milliverðlagningu með fisk en auðvitað þarf að reyna á framkvæmd reglna sem þessara, m.a. hvort þróa megi þær nánar svo að þær geti gilt við innri viðskipti milli útgerðar og fiskvinnsluhluta lóðrétt samþættrar útgerðar.

Ég vil vekja athygli á því að milliverðlagningarreglur heyra undir fjármálaráðherra og frumvarpið kom þaðan afgreitt í desember.

Varðandi b-lið vil ég taka fram að ég er tilbúinn að taka þátt í skoðun á kostum og göllum þeirrar tillögu. Ég geri þannig enga athugasemd við það ef hafnir miða við verðlagsstofuverð á fiski við álagningu hafnargjalda eins og dæmi munu um. Ég vek þó athygli á að málefni hafna heyra undir innanríkisráðherra.

Varðandi c- og d-liði vil ég segja að það fælist í því mjög viðurhlutamikil ráðstöfun ef löggjafinn tæki ákvörðun viðmiðunarverðs úr höndum greinarinnar og fæli opinberri stofnun að ákveða viðmiðunarverðið einhliða. Slíka breytingu þyrfti að skoða í ríku samráði við stéttarfélög og félög atvinnurekenda í sjávarútvegi, séð í ljósi núverandi skipulags sem bundið er í kjarasamninga. Þá þyrfti að skoða vandlega kosti og galla slíkrar breytingar.

Eins og sakir standa þar sem lítið virðist hafa þokast í kjarasamningsviðræðum sjómanna og útvegsmanna tel ég ekki rétt að leggja til við Alþingi tillögur sem snerta grundvallarþætti í starfsemi Verðlagsstofu skiptaverðs. Engu að síður tel ég mikilvægt að Alþingi fylgist vel með þróun þessara mála.

Í 3. lið fyrirspurnarinnar er spurt hvort ráðherra telji að hægt sé að bæta með öðru móti samkeppnisstöðu fiskvinnslufyrirtækja sem ekki stunda veiðar. Í álitinu er komið inn á það hvort unnt væri að auka samkeppni á nýliðun í sjávarútvegi með því að auka heimildir til kvótaframsals, m.a. þannig að fiskvinnslur geti átt kvóta án þess að eiga fiskiskip. Þetta er gömul umræða og var málið meðal annars rætt á Alþingi 1993–1994 án þess að það leiddi til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Það er grundvallarhugsun í aflamarkskerfinu að aflamark sé bundið við fiskiskip. Við þá endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem ég hef sett af stað í ráðuneyti mínu hef ég ekki lagt til að veitt verði undanþága þannig að fiskvinnslur fái að eiga kvóta sem ekki yrði bundinn á tiltekið skip.

Ætli ég komi ekki að lokum ræðu minnar í seinna svari þar sem ekki gefst tími til alls nú.