143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

losun gróðurhúsalofttegunda.

449. mál
[11:04]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að núverandi stefna er í sjálfu sér áframhald þeirrar stefnu sem verið hefur. Ég tel mjög mikilvægt að við skiptum ekki um kúrs þó að nýjar ríkisstjórnir og annað komi, að við vinnum í rétta átt allan tímann.

Það er líka rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni, einstök áhrif geta verið staðbundin og súrnun sjávar er alvarleg ógn sem stafar að Íslandi. Þess vegna er mikilvægt að við eflum vísinda- og rannsóknarvinnu, bæði á þessu sviði og öðrum. Það er líka mikilvægt að við horfum til tillagna hagræðingarhópsins, af því að hann var nefndur í fyrirspurn fyrr í dag við hv. þingmann, að efla rannsóknarstöðvar okkar og stofnanir þannig að þær séu betur í stakk búnar til að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Það er mjög mikilvægt, Ísland er kjörinn vettvangur fyrir slíkar rannsóknir á öllum þessum sviðum og ég held að það sé mikilvægt að við gerum það. Það er líka mikilvægt að við tökum þátt í umræðu á alþjóðlegum vettvangi.

Japansheimsóknin sem ég nefndi er gott dæmi og eins það sem við erum að gera innan Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna.

Að lokum vil ég nefna nýsköpun af ýmsu tagi sem tengist loftslagsmálum og unnið er að á Íslandi. Fjölmargir aðilar eru að vinna að áhugaverðum loftslagsvænum verkefnum á ýmsum sviðum, t.d. er tilraun til niðurdælingar koldíoxíðs á Hellisheiði, vinnsla metanóls úr jarðhitagufu og ýmis tækni til að draga úr útblæstri í skipum. Eðli málsins samkvæmt leiða ekki öll rannsóknar- og þróunarverkefni til hagkvæmra lausna, en ég hef trú á því að mörg þessara verkefna muni bera ávöxt sem Íslendingar og aðrir geta nýtt sér.

Ég tel að Íslendingar eigi að hafa metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum. Hún verður auðvitað líka að vera raunhæf og hagfelld og byggja á staðreyndum og góðri greiningu. Baráttan gegn loftslagsvánni er líklega eitthvert flóknasta og margbrotnasta verkefni sem mannkynið stendur frammi fyrir og þar þarf hvert ríki að horfa á aðstæður sínar og möguleika og byggja stefnu sína á því, en einnig að taka þátt í alþjóðlegri umræðu.

Ég þakka að lokum hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og áhugaverða umræðu.