143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

breyting á reglugerð nr. 785/1999.

462. mál
[11:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og fram kemur á dagskrá þingsins í dag lýtur fyrirspurn mín að breytingu á reglugerð nr. 785/1999, en hún fjallar um starfsleyfi fyrir mengandi atvinnustarfsemi. Það vakti athygli mína sem kom fram í fréttum þegar fjallað var um breytingu á reglugerðinni í mars sem leið, að með breytingu hæstv. ráðherra væri hægt að sækja um undanþágu frá því að skila afriti af deiliskipulagi þegar sótt er um starfsleyfi fyrir mengandi atvinnustarfsemi. Það kunna að vera röksemdir fyrir því en það sem vakti athygli mína var sú staðreynd að Umhverfisstofnun, sem er stofnun umhverfisráðuneytisins að því er varðar mengunarmál og auðvitað starfsleyfismál og ýmislegt þar að lútandi, gagnrýnir þetta í umsögn sinni um reglugerðina, þ.e. Umhverfisstofnunin sem á bæði að starfa samkvæmt reglugerðinni og fylgja henni eftir er ekki sammála ráðherranum um þessa skipan mála. Umhverfisstofnun tekur fram að hún telji ekki þörf á þessum breytingum, það sé mikilvægt þegar ákvörðun um starfsleyfi sé tekin að ráðstöfun á landi komi fyrst með aðalskipulagi og deiliskipulagi og að hann sé mjög mikilvægur sá tiltekni réttur almennings og þeirra sem búa í nábýli við mengandi atvinnurekstur að þeir geti komið með athugasemdir og þá í gegnum skipulagsferlið.

Skipulagsferlið er náttúrlega mjög vel skilgreint samkvæmt lögum og aðkoma almennings mjög vel vörðuð þar, en þarna fer ráðherrann gegn ráðleggingu Umhverfisstofnunar án þess að fyrir því séu skýrar röksemdir.

Að vísu kemur fram á fréttavef, mig minnir að það sé fréttavefur Ríkisútvarpsins, eða þar er bréf frá ráðuneytinu þar sem eru ákveðnar skýringar um að ráðuneytið hafi ákveðið að ráðast í þessar breytingar þar sem fyrirkomulagið eins og það er hafi hamlað atvinnustarfsemi víða, að það sé ekki til gildandi deiliskipulag á viðkomandi svæði þar sem starfsemin fer fram eða á að fara fram og það snúist í raun um hagræði.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um rökin fyrir því að farið var gegn mati Umhverfisstofnunar sem ég tel að þurfi að vera býsna sterk varðandi breytingu á þessari reglugerð og ekki síður sú spurning sem er kannski mikilvægari: Við hverja var haft samráð? Við hverja hafði ráðherra samráð um þá ákvörðun að fara gegn sérfræðistofnuninni í mengunarmálum og hver hafði frumkvæði að þeirri breytingu sem ráðherra staðfesti í vetur sem leið?