143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

breyting á reglugerð nr. 785/1999.

462. mál
[11:10]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Spurt er um reglugerð nr. 214/2014 um breytingu á reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Breytingin var gerð þar sem ráðuneytið hafði vitneskju um að í einhverjum tilvikum hefði það valdið vandkvæðum fyrir starfsemi að deiliskipulag væri ekki í gildi á því svæði sem starfsemin var staðsett. Kom þessi vitneskja til meðal annars vegna beiðna sem ráðuneytinu höfðu borist vegna undanþágna frá kröfum reglugerðarinnar um gildandi deiliskipulag vegna umsóknar um starfsleyfi.

Ráðuneytið taldi því rétt að skoða þörf á því hvort breyta ætti ákvæðum reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem gæti haft í för með sér mengun, hvað þetta atriði varðar. Við gerð breytinga á reglugerðinni hafði ráðuneytið samráð við Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi og Samband íslenskra sveitarfélaga. Á fundi með Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi og Sambandi íslenskra sveitarfélaga kom fram sú skoðun að brýn þörf væri á breytingum á viðkomandi ákvæðum reglugerðarinnar þar sem nokkuð oft kæmi upp að deiliskipulag væri ekki í gildi.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kom fram að stofnunin taldi ekki þörf á breytingum á reglugerðinni, eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á. Vísaði stofnunin til þess að mikilvægt væri að ferli ákvarðanatöku um veitingu slíkra starfsleyfa væri með þeim hætti að ráðstöfun lands kæmi fyrst með aðalskipulagi og deiliskipulagi í samræmi við skipulagsskyldu sveitarfélaga. Benti stofnunin einnig á að í skipulagslögum væri til staðar undantekningarregla um grenndarkynningu sem væri unnt að nýta þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir.

Ráðuneytið tekur undir með Umhverfisstofnun að meginreglan eigi að vera sú að deiliskipulag liggi fyrir og sé í gildi þar sem viðkomandi starfsemi er staðsett þegar sótt er um leyfi fyrir mengandi starfsemi. Í umræddri reglugerð er meginreglan því sú að allur atvinnurekstur skal vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Hins vegar er ljóst að grenndarkynning sem úrræði samkvæmt skipulagslögum varðar eingöngu tilvik sem snúa að framkvæmda- og byggingarleyfum en ekki annars konar leyfum. Í þessu sambandi skal nefnt að Umhverfisstofnun benti á tiltekin atriði í umsögn sinni við reglugerðardrögin sem ráðuneytið taldi vera til bóta og tók tillit til áður en umrædd reglugerðarbreyting var gerð.

Ég nefndi áðan að með umræddri reglugerðarbreytingu kemur fram sú skýra meginregla að allur atvinnurekstur skal vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Í því sambandi tel ég rétt að benda á dóm Hæstaréttar frá 27. febrúar sl. í máli 651/2013. Þar var niðurstaðan sú að af lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og þágildandi skipulags- og byggingarlögum sem og umræddri óbreyttri reglugerð leiddi að tilvist deiliskipulags fyrir svæði þar sem fyrirhugað væri að reka skotvöll væri ekki skilyrði fyrir útgáfu leyfis til slíkrar starfsemi, heldur væri eingöngu gerð sú krafa að afrit af deiliskipulagi skyldi fylgja með umsókn ef það væri fyrir hendi.

Vegna þessarar niðurstöðu dómsins var ljóst að gera þurfti breytingu á reglugerðinni þar sem skýrt kæmi fram að atvinnurekstur skyldi vera í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Umhverfisstofnun bendir réttilega á að brýnt sé að hvetja til þess að lokið verði við gerð deiliskipulags þeirra svæða þar sem gert er ráð fyrir starfsemi sem getur haft í för með sér mengun. Þar er nokkuð langt í land. Til eru mörg dæmi um atvinnurekstur til fleiri ára á svæði þar sem starfsemin samræmist aðalskipulagi en deiliskipulag er ekki í gildi. Í slíkum tilvikum hefur þó oft hvorki verið hægt að gefa út starfsleyfi þegar kemur að endurnýjun né veita undanþágu frá starfsleyfi. Hefur það verið afar íþyngjandi fyrir umrædda starfsemi.

Í þessu sambandi skal þó bent á að samkvæmt umræddri reglugerðarbreytingu er meginreglan sú að óheimilt er að gefa starfsleyfi út til lengri tíma en fjögurra ára þegar deiliskipulag liggur ekki fyrir. Með þeirri breytingu sem gerð var á umræddri reglugerð er aðeins heimilt að gefa út starfsleyfi tímabundið og ávallt þarf að fá umsögn frá viðkomandi skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa og þarf starfsemin að samrýmast aðalskipulagi varðandi landnotkun og byggðaþróun og samþykktri notkun fasteignar.

Með því að starfsleyfi er veitt að hámarki til fjögurra ára, þegar deiliskipulag liggur ekki fyrir, er þeim skilaboðum komið á framfæri til viðkomandi sveitarfélaga að ljúka þurfi vinnu við deiliskipulag. Ljóst er að mörg sveitarfélög hafa ekki valdið þeim kostnaði eða vinnu sem því fylgir og fyrir því liggja sjálfsagt ýmsar ástæður. Það hlýtur hins vegar að teljast sanngirnismál gagnvart starfsemi á svæðinu að hafi hún verið til staðar í mörg ár án þess að deiliskipulag liggi fyrir sé hægt að endurnýja starfsleyfið þrátt fyrir skort á deiliskipulagi sé starfsemin í samræmi við gildandi aðalskipulag hvað landnotkun og byggðaþróun varðar og í samræmi við samþykkta notkun fasteignar.

Það er af þessum ástæðum sem ráðuneytið hafði frumkvæði að því að breyta viðkomandi reglugerð.