143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

breyting á reglugerð nr. 785/1999.

462. mál
[11:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi grenndarkynningarnar kom það einmitt fram í máli mínu að þær snúa fyrst og fremst að framkvæmda- og byggingarleyfum en ekki öðrum leyfum eins og til dæmis starfsleyfum. Þar held ég til að mynda að sé ágreiningur eða mismunandi afstaða Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins og túlkun okkar á lögum og reglum í þessu landi.

Ég held að það sé nokkuð skýrt.

Dæmi um slíkt er að mjög víða á landbúnaðarsvæðum landsins skal vera landbúnaðarstarfsemi samkvæmt gildandi aðalskipulagi og íbúaþróun. Ég tek dæmi um hús sem nýtt hefur verið undir hænsnabúskap eða svínabú, sem telst í þessari reglugerð vera mengandi starfsemi. Ef menn ætla síðan að hefja starfsemi að nýju í slíku húsi þurfa þeir að sækja um starfsleyfi, en þá hafa menn rekist á þá veggi að ekki sé búið að deiliskipuleggja allt sveitarfélagið, enda er það þannig samkvæmt gildandi aðalskipulagi að þar skuli vera landbúnaðarstarfsemi og tengd starfsemi.

Þetta hefur valdið verulegum truflunum í stjórnsýslunni. Menn hafa verið að reyna að fara þessar leiðir en rekist á veggi fram og til baka. Þarna er að mínu mati engan veginn verið að fara gegn einu eða neinu. Ég tel því að ráðherrann stundi hér fyrst og fremst skynsamlega stjórnsýslu með meðalhóf að leiðarljósi og breyti reglum þannig að hægt sé að stunda eðlilega starfsemi í landinu. Ég bendi einnig á dóm Hæstaréttar sem féll á sama tíma sem styður mál ráðuneytisins og þess ráðherra sem hér talar.