143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

gæsir og álftir.

463. mál
[11:22]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég tel mjög mikilvægt að koma þessum málum á dagskrá og vinna að lausnum, á sama hátt og það er mikilvægt að ræða stefnu hins opinbera, stjórnvalda, í refa- og minkaveiðum. Ágangur af gæsum og álftum hefur farið mjög vaxandi, m.a. vegna breytinga á búháttum þar sem menn eru farnir í vaxandi mæli að rækta korn og repju til að framleiða meðal annars vistvænt eldsneyti. Þá hafa bændur orðið fyrir miklum búsifjum af völdum þessara fuglategunda í ræktunarlöndum sínum.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur í vetur verið í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Bændasamtök Íslands, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Fuglavernd um þann vanda sem bændur standa frammi fyrir vegna ágangs villtra fugla, þá einkum grágæsa og álfta. Haldnir hafa verið nokkrir fundir til að fara yfir stöðuna, hvernig eigi að meta tjónið sem hefur kannski ekki verið gert með nægilega skýrum hætti til þessa, hvaða aðgerðum hafi verið beitt til varna, mögulegar nýjar aðferðir og leiðir til að draga úr áganginum og hvernig best sé að haga þessum málum til frambúðar.

Nú er fengin ákveðin niðurstaða í þetta mál. Í samstarfi umhverfisyfirvalda og Bændasamtakanna fer af stað í vor skipuleg gagnasöfnun um umfang og eðli þessa vanda þar sem nýttur verður gagnagrunnur Bændasamtakanna um ræktað land á Íslandi sem kallast jörð.is. Þar munu bændur geta skráð nákvæmlega það tjón sem þeir verða fyrir, hvað það er, af völdum hvaða fugla og á hvers konar ræktunarlandi eða hvers konar ræktun er um að ræða.

Þessum upplýsingum er síðan ætlað að verða grunnur að því að setja upp aðgerðaáætlun um raunhæfar aðgerðir til að reyna að koma í veg fyrir slíkt tjón. Undirbúningur þeirrar vinnu er líka kominn af stað og er unnið að því að setja upp aðgerðaáætlun til að meta aðstæður, ágang og tjón af völdum þessara tegunda og gera tillögur um viðbrögð og skipulag aðgerða. Mikilvægt er að sameina krafta umhverfis- og landbúnaðarmála til að vinna að lausnum á þessu verkefni til framtíðar. Vona ég að með þessu sé búið að koma málinu í ákveðinn lausnamiðaðan farveg og menn séu þá ekki í stöðugri umræðu án þess að hún skili nokkru eins og kannski hefur verið um allnokkurt skeið af ýmsum ástæðum.

Ýmislegt er hægt að gera eins og að skoða leiðir til fælingar, aðrar til að hindra fuglana að komast í ræktunarlöndin. Mögulega væri hægt að styrkja bændur til að koma upp sérstökum verndar- eða beitarsvæðum fyrir þessa fugla til að draga úr ágangi í kornakra eða nýræktir. Miklu skiptir að þær aðgerðir sem ráðist er í séu skilvirkar og verði ekki til þess að færa bara vandann á milli svæða. Það er til mikil reynsla annars staðar á Norðurlöndunum um þessi mál. Þar eru margvíslegar aðferðir notaðar, ráðunautar aðstoða bændur og, ef allt um þrýtur eru formlegar leiðir í stjórnkerfinu til að grípa til róttækari aðgerða.

Spurt var hvort ráðherra telji nauðsynlegt að breyta lögum til að koma til móts við óskir bænda um að veiða þessa fugla. Breytingar á lögum eru vissulega einn þátturinn sem þarf að skoða. Mikilvægt er hins vegar að kanna þær leiðir sem eru færar innan núverandi lagaramma. Þar kemur til greina að breyta lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum dýrum til að innleiða nýtt skipulag á umsjón slíkra aðgerða og framkvæmd þeirra ef á þarf að halda. Einnig þarf að skoða hvort og hvernig megi breyta lögum eða reglum eða umhverfi landbúnaðarkerfisins til að styðja þær aðgerðir.