143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

gæsir og álftir.

463. mál
[11:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og verð að segja að mér finnst þau góð. Mér finnst skynsamlegt að sameina krafta þeirra sem best þekkja til og ríkasta hagsmuni hafa í þessum efnum. Ég fagna líka því sem kemur fram í máli hæstv. ráðherra að hann telji rétt að byrja á færum leiðum innan núverandi lagaumhverfis.

Ég hef sjálf heyrt af þeim leiðum sem hæstv. ráðherra nefnir hér, bæði varðandi verndar- og beitarsvæði og tilteknar fælingarleiðir og fælingaraðferðir og vísar hann þar til mikillar reynslu á Norðurlöndunum. Mér er kunnugt um að mikil reynsla sé líka fyrir hendi í Skotlandi. Þær upplýsingar liggja væntanlega fyrir í starfshópnum og verða þessar aðferðir skoðaðar og reifaðar þar.

Mig langar til þess að biðja hæstv. ráðherra í seinna svari að fara svolítið betur yfir tímalínuna í þeirri vinnu sem hann nefnir. Við eigum gríðarlega sterka og góða vinnu sem er grundvallarrit um veiðar og vernd. Það er úttekt starfshóps sem ég setti í gang á sínum tíma og er eins konar hvítbók um vernd og veiðar og fjallar um þá löggjöf í heild. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái fyrir sér heildarendurskoðun laganna eða hvort hann vilji fókusera sérstaklega á þá þætti sem lúta að beinlínis þessum atriðum.

Hæstv. ráðherra nefnir að skipulögð gagnasöfnun sé komin í gang og það er mjög brýnt á grundvelli upplýsinga sem þegar eru fyrir hendi. Mig langar að spyrja ráðherrann um það hvenær hann sjái fyrir sér að einhverjar afurðir líti dagsins ljós.