143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

gæsir og álftir.

463. mál
[11:30]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Tímalínan er í sjálfu sér sú að innan þessa gagnagrunns Bændasamtakanna, jörð.is, er árinu skipt í þrennt, ef ég fer rétt með. Það er lifandi grunnur sem menn skrá inn í, vor og sumar, haust og síðan yfir vetrarmánuðina. Hugmyndin er sú að þar safnist inn upplýsingar sem við getum nýtt meðal annars um tjónið sem er gríðarlegt og mjög nauðsynlegt er að fá tölulegar upplýsingar um. Þar mundu væntanlega líka birtast upplýsingar um mismunandi aðgerðir sem menn hafa gripið til í fælingartilgangi og verður þá möguleiki að bera þær saman. Núna getum við sagt að á næsta ári fari sú vinna fram og kannski á sama tíma að ári, eins og einhvern tímann hefur verið sagt, höfum við þá betri upplýsingar til að fjalla um næstu skref sem við verðum að horfa til.

Það er rétt sem hv. þm. Haraldur Benediktsson benti á að við höfum líka átt beint samstarf við aðrar þjóðir, ekki bara lært af reynslu annarra þjóða með þekkingarleit eða slíku heldur áttum við í beinu samstarfi við Norðmenn. Við vorum með sameiginlega umsókn um þróunarstyrk eða rannsóknarstyrk sem því miður fékkst ekki fé í á þessu ári. Mér finnst ekki ólíklegt að menn reyni það aftur. Þetta er ekki bara vandamál á Íslandi og menn hafa farið mismunandi leiðir til að vinna á því. Það er mikilvægt fyrir okkur að læra af reynslu annarra.

Bæði gæs og álft hefur fjölgað gríðarlega á liðnum árum og áratugum á sama tíma og búskaparhættir hafa breyst. Hvort það er ástæðan fyrir fjölguninni skal ég ekki fullyrða, en tjónið og ágangurinn er hins vegar þess eðlis að þetta er ekkert gamanmál og verður að taka á því föstum tökum. Það hyggst ríkisstjórnin gera.