143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

landsskipulagsstefna.

464. mál
[11:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég er ánægð að heyra að hér er í raun um að ræða beint framhald af þeirri vinnu sem þegar lá fyrir. Við deilum þeirri afstöðu, ég og hæstv. ráðherra, að þessi tímalína er einfaldlega of knöpp og stakkurinn í lögunum frá 2010 er of þröngur, þ.e. að gera ráð fyrir því að fyrir liggi tillaga tveimur árum eftir þingkosningar, ekki síst vegna þess bæði hversu hátt flækjustigið er og eins vegna þess að við erum að gera þetta í fyrsta sinn. Sú sem hér stendur náði ekki að ljúka þessu í þinginu, ég náði bara að leggja það fram. Ég varð þess áskynja sjálf að það er mikil þörf á því að byggja upp traust á þessu tiltekna verkfæri, bæði meðal þeirra stofnana sem um véla og ekki síður gagnvart sveitarfélögunum. Þetta er mjög flókið lýðræðisverkefni gagnvart sveitarfélögunum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Hverjar telur hann helstu áskoranirnar í því ferli sem fram undan er, frá deginum í dag og fram að vonandi úrvinnslu þingsins að ári? Í öðru lagi, telur hæstv. ráðherra tímabært nú þegar að huga að því hvort endurskoða beri þessi tímamörk í gildandi skipulagslögum?