143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

landsskipulagsstefna.

464. mál
[11:42]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi tímalínuna er hún vissulega þröng. Við erum sammála um að þetta getur tekið tíma, það er erfitt að koma þessu fram á tveimur árum. Ég er samt á þeirri skoðun að við eigum að sjá til.

Það verður auðveldara næst þegar endurnýjunin kemur þannig að ég er ekki á því að við ættum strax að fara að endurskoða lögin heldur sjá hvernig okkur muni ganga núna. Áskoranirnar núna eru fyrst og fremst þær að halda tímafrestinn. Það hefur tekist mjög vel hjá Skipulagsstofnun og þeim sem eru í þessu verkefni í verkefnisstjórninni. Þar er öflugt fólk og það er vissulega rétt að verið er að halda áfram með vinnu sem hafin var og það hjálpar til. Þarna kemur reyndar líka inn nýtt fólk, verið er að bæta við einum áherslupunkti sem búið er að vinna mjög vel við og skila inn skýrslum varðandi þá vinnu.

Af því að tíminn var skammur í fyrstu atrennu var vinnan við þessi áhersluatriði mislangt á veg komin, til að mynda hvað varðar búsetu. Byggðaþróunarvinnan var skammt á veg komin og er þá verið að undirbyggja þá vinnu mjög vel núna. Ég vænti þess að við fáum niðurstöður á réttum tíma, ég treysti því. Ég er sammála fyrirspyrjanda um að það er mjög mikilvægt að byggja upp traust á þessum grunni.

Það hefur einfaldlega ekki verið í langan tíma. Fyrir nokkrum árum, þegar við hv. þingmaður og sá sem hér stendur vorum væntanlega sveitarstjórnarmenn, kom einn þáverandi umhverfisráðherra á fund sveitarstjórnar og sagði að nauðsynlegt væri að fá landsskipulagsstefnu til að geta komið í veg fyrir ákvarðanir sveitarfélaga. Það varð auðvitað ekki til þess að auka traustið á milli þessara aðila.

Ég tel að við séum á réttri leið og höfum verið það núna í þó nokkur ár frá lagasetningunni 2010. Ef okkur tekst vel núna með þessa landsskipulagsstefnu er það góð þróun sem verður til heilla fyrir land og þjóð, og sveitarfélögin líka.