143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

fækkun svartfugls.

466. mál
[11:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Þetta er síðasta fyrirspurnin í þessum ágæta skottís sem við hæstv. umhverfisráðherra erum að taka hér. Hún lýtur að þeirri staðreynd sem við blasir að staða svartfuglastofna hérlendis er býsna alvarleg.

Árið 2011 var settur á stofn starfshópur til að gera tillögur um aðgerðir sem gætu stuðlað að endurreisn svartfuglastofna hér við land. Sá starfshópur var settur af stað vegna þess að þá lá fyrir að veruleg fækkun hafði orðið í nokkrum stofnum sjófugla missirin á undan.

Má segja að það hafi orðið hrun í lundastofninum til að mynda. Þá hafði verið lélegur varpárgangur hjá lunda, sérstaklega á sunnanverðu landinu, í fjögur til fimm ár og var raunar algjör viðkomubrestur á árinu 2010 á Suðurlandi.

Stuttnefju hafði þá fækkað um allt land og álku og langvíu um sunnan- og vestanvert landið en stofnar þeirra héldust nokkuð í horfinu um norðanvert landið hins vegar. (ÖS: Og haftyrðillinn …) Já.

Orsakir fækkunar og viðkomubrests sjófugla virðast að mestu leyti vera fæðuskortur eða það var að minnsta kosti sá grundvöllur sem starfshópurinn lagði, en fuglarnir lifa á sandsíli og loðnu að mestu leyti. Hrun varð í sandsílastofninum árið 2000 og hann hefur ekki náð sér á strik síðan en loðnustofninn hefur verið í lægð í áratug.

Veiðar á sjófuglum hafa ekki verið taldar hafa veruleg áhrif á fækkun stofna þeirra en eru hins vegar sá þáttur sem mest er hægt að hafa áhrif á til að milda áfallið.

Starfshópurinn skilaði tillögum til umhverfisráðherra á sínum tíma og má segja að þær tillögur hafi verið býsna róttækar. Það var ágreiningur í starfshópnum á sínum tíma. Bændasamtökin sögðu sig frá hópnum og lagt var til að fimm tegundir sjófugla yrðu friðaðar í fimm ár og lundinn var meðal þeirra fugla sem var lagt til að bannað yrði að veiða. Lagt var til að friðað yrði fyrir öllum veiðum, eggjatöku og nýtingu o.s.frv. Ég veit að ég þarf ekki að minna hæstv. ráðherra á það að umræðan í samfélaginu var býsna heit um þessar tillögur.

Vandamálið er ekki farið, viðfangsefnið er þarna enn þó að tillögur starfshópsins hafi ekki náð fram að ganga nema að óverulegum hluta. Um er að ræða verulegt áhyggjuefni sem varðar ekki bara þessa stofna hér við land heldur líka í nágrannalöndunum sem hafa hvert um sig gripið til aðgerða í þessum efnum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann áformi einhverjar aðgerðir í þessu efni.