143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

fækkun svartfugls.

466. mál
[12:07]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, hér er um auðlind að ræða sem við eigum að nýta á skynsamlegan og sjálfbæran hátt. Það svarar líka síðustu fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda um það hvort einhver mörk séu í því hvenær við teljum að ekki sé forsvaranlegt að nýta viðkomandi stofn.

Það er rétt að þekking okkar er gloppótt. Ástand einstakra stofna er hins vegar mjög mismunandi og það er mikilvægt að átta sig á því. Ef við tökum til dæmis lundann þá hefur stofninn, þó að hann sé hruninn fyrir norðan land, jafnvel verið að styrkja sig á einstökum svæðum. Þegar umræðan var hvað hæst á árunum 2011 og 2012 hafði meðal annars samband við mig Kristján Eiríksson nokkur, bróðir Jóns Drangeyjarjarls, sem hafði mjög nákvæmar skráningar yfir lundaveiði á fleiri en einum stað. Hann taldi tillögur þáverandi ráðherra vera engan veginn í samræmi við þá þekkingu sem væri til, hún væri vissulega gloppótt en sums staðar væri hún mjög mikil og það væri eiginlega alveg út í hött að setja á veiðibann almennt á stofna á Íslandi.

Það hefur líka verið bent á að sá ágæti fiskur makríll gæti komið hér við sögu og hefur verið nefndur sem ástæða þess að fæðuframboð í hafi hefði þessi áhrif á svartfuglinn.

Síðan var auðvitað mjög áhugavert, af því að hér inni eru nokkrir af helstu aðilum sem stóðu fyrir ESB-viðræðunum og þeirri aðlögun sem hér var, að margir tóku þessa umræðu um veiðibannið á þessar fimm tegundir sem hluta af aðlögun við Evrópusambandið, hvort sem það var með réttu eða röngu. Þetta sýnir hversu erfitt ástand var hér þegar þessi umræða átti sér stað, menn rugla kannski saman hlutum, hvort sem það er með réttu eða (Gripið fram í.) röngu. (Forseti hringir.) Mikilvægast er að við nýtum þá þekkingu sem fyrir er og tökum ekki ákvarðanir, hvorki þær sem okkur er skipað að taka annars staðar frá til aðlögunar (Forseti hringir.) né aðrar án þess að muna eftir því að sums staðar er til mjög góð grundvallarþekking um viðkomandi veiðistofn. Þá er auðvitað skynsamlegt að nýta þá þekkingu.