143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

staða sóknaráætlunar skapandi greina.

461. mál
[12:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um stöðu sóknaráætlunar skapandi greina. Í áramótaávarpi hæstv. forsætisráðherra í byrjun árs boðaði forsætisráðherra sóknaráætlun skapandi greina. Hann gerði raunar meira en það, hann upplýsti að sú vinna væri komin mjög vel á veg. Fjöldi fólks fagnaði því sérstaklega og taldi þetta vera til marks um að ríkisstjórnin, sem hafði legið undir því ámæli að vera gamaldags og afturhaldssöm í atvinnumálum og hafa engan áhuga á sköpun eða framþróun á nokkurn hátt heldur bara á stóriðjustefnu og öðrum slíkum áherslum, hefði breytt um stefnu og að forsætisráðherra gengi fram fyrir skjöldu og væri með ávarpinu í eitt skipti fyrir öll að reka slyðruorðið af ríkisstjórninni og tala fyrir ríkisstjórn sköpunar, framþróunar og víðsýni. Það var ekki laust við að upp kæmu fagnaðarlæti í ýmsum greinum samfélagsins, ekki síst vegna þess að ráðherrann upplýsti að vinnan væri komin vel á veg.

Nú er staðan dálítið snúin í þeim efnum sem varða menningu og þjóðmenningu. Þau hafa verið rædd hér í þinginu með misgóðum árangri þar sem svörin hafa verið alla vega. Þessi spurning lýtur ekki að því heldur miklu frekar er hér um að ræða ósk til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um svör um það hvernig þessi vinna stendur. Hvaða samtök listamanna hafa tekið þátt í vinnunni? Hverjir hafa verið teknir að borðinu á hverju stigi? Hver er tímalínan í þessu verkefni?

Ekki síst í anda samstarfs og framsýni sem er svo mikilvægt í þessum málaflokki vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það hvenær hann sjái fyrir sér að stjórnarandstaðan komi að borðinu til að leggja grunn að sóknaráætlun skapandi greina til framtíðar. Því ég vænti þess að þetta sé verkefni af því tagi sem þrífist best í þverpólitísku og öflugu samráði. Það væri gott að heyra hæstv. ráðherra gera grein fyrir stefnu sinni og framtíðarsýn í þeim efnum, en kannski fyrst og fremst að gera okkur grein fyrir því hvernig staða þessara mikilvæga verkefnis er sem hæstv. forsætisráðherra gerði svo ágætlega grein fyrir í áramótaávarpi.