143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

staða sóknaráætlunar skapandi greina.

461. mál
[12:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn um þetta mikilvæga mál sem hér er bryddað upp á.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir að forsætisráðherra gat þess í áramótaávarpi sínu að vinna væri hafin og komin af stað við undirbúning að sóknaráætlun í þeim greinum sem hér um ræðir. Ljóst má vera og þarf ekki að deila um margháttað mikilvægi þessara greina í samfélaginu, bæði efnahagslega en líka þegar kemur að því að meta lífsgæði í landinu, hvernig það er að búa hér, að það sé öflugt lista- og menningarlíf sem við getum öll notið.

Mig langar rétt að nefna að þegar íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent var þar spilað ágætt myndband sem veitti yfirlit yfir umfang tónlistarstarfseminnar hér heima, svo sem fjölda tónleika, tónleikagesta, fjölda gesta sem komu til landsins sérstaklega til að fara á tónleika og einnig fjölda tónleika íslenskra listamanna erlendis. Þetta gaf ágætt yfirlit yfir umfangið og ætti að vera fróðlegt fyrir alþingismenn að kynna sér. En um leið er um margt áhugavert að sjá líka, þegar menn setjast yfir þessi mál öll, hversu víðtækt, almennt og gott samstarf er innan listgreinanna á milli listamanna og þvert á listgreinar, og hversu mikil fagmennska og oft djörfung liggur þar að baki þar sem mikið er gert úr litlu. Þegar horft er til þeirra fjármuna sem veittir eru, sem svo sannarlega mættu vera meiri, er ljóst að mikið er gert fyrir þá.

Hvað varðar sóknaráætlunina stendur sú vinna yfir. Þar hefur ýmislegt komið upp sem ég tel að þurfi að skoða alveg sérstaklega. Ég vil nefna hér eitt sem við erum að vinna að sem snýr að menntun listamanna.

Það má færa fyrir því sterk rök að hluta af þeim árangri sem íslenskir tónlistarmenn hafa náð á alþjóðavísu megi rekja til þess að við höfum komið upp mjög góðu menntakerfi fyrir tónlistina, en tónlistarskólar eru víðs vegar um landið. Þá kemur auðvitað upp sú spurning í vinnu okkar við sóknaráætlun og grunn þeirrar sóknar hvernig við búum almennt að menntun í listnámi. Ég tel að þar þurfum við að gera bragarbót á. Við þurfum að nálgast það með heildstæðari hætti. Á það hefur verið bent af sérfræðingum sem hafa skoðað hjá okkur listnámið að þótt við höfum gert þetta vel með tónlistina eru ýmsar aðrar listgreinar sem við þurfum að endurskoða og sjá hvernig við viljum byggja upp.

Umræðan um listaskóla á framhaldsskólastigi er þekkt og ég vil nota tækifærið hér og benda á að uppi eru vandamál t.d. með framhaldsskólastigið í tónlist sem snúa að samskiptum Reykjavíkurborgar og ríkisins um það fjárframlag sem við ætlum að setja og höfum sett til þess að liðka fyrir og auðvelda rekstur á því stigi. Ríkið hefur hugsað sér að setja þar inn fjármuni sem eiga að vera til viðbótar en því miður hefur það verið túlkað þannig að Reykjavíkurborg hefur raunverulega sagt sig frá því að fjármagna þessa vinnu.

Ástæðan fyrir að ég nefni þetta er að við stefnumótun sóknaráætlunar fyrir hinar skapandi greinar skiptir miklu máli að huga vel að grunninum. Grunnurinn felst í menntakerfinu. Í því höfum við verið að vinna. Ég hef átt reglubundinn fund eins og er sem ráðherra með Bandalagi íslenskra listamanna þar sem ég hef setið með þeim og gert þeim grein fyrir þeim áherslum sem ég hef verið að ræða og þessari vinnu. Þar hef ég fengið fram athugasemdir nú þegar sem geta vel nýst og munu nýtast í þá vinnu. Ég veit að hv. þm. Svandís Svavarsdóttir þekkir til þess samstarfs á milli ráðherra og Bandalags íslenskra listamanna. Ég hef sjálfur síðan fundað óformlega með fjölda aðila til þess að ræða þessi mál. Í framhaldi af þeirri vinnu kemur að því að við köllum formlega eftir athugasemdum. Síðan mun staða ríkisfjármála ráða því í þessu máli eins og svo mörgum öðrum hvað við getum gert til að reyna að auka fjárframlög okkar til þessarar starfsemi, sem er afar mikilvægt. Ég geri mér auðvitað væntingar um að hægt verði að gera það en það mun ekki líta dagsins ljós fyrr en við gerð fjárlaga.