143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

staða sóknaráætlunar skapandi greina.

461. mál
[12:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Eitthvað hefur þetta nú farið öfugt. Það var ekkert lagt upp með það hér að það væri verið að skoða myndbönd. Ég var einungis að nefna að það kom mjög skýrt fram á þeirri tónlistarhátíð sem ég nefndi, uppskeruhátíð, hversu mikilvæg þessi starfsemi er, hversu umfangsmikil hún er, hversu margir taka þar þátt, hversu miklar gjaldeyristekjur hún skapar o.s.frv. Það á ekki að gera lítið úr því með þeim hætti sem hér var gert.

Það sem ég lagði áherslu á í svari mínu var þetta: Sú vinna sem snýr að sóknaráætlun í skapandi greinum snýst ekki bara um það hvernig við reynum að setja í þær aukið fjármagn heldur líka hvernig við hugum að grunninum að þessu öllu saman. Það er einna mikilvægasti þátturinn. Það tekur vissulega tíma. Það snýr að þeirri menntun sem er í boði fyrir þá sem starfa og hyggjast starfa í þessum greinum, en ekki einungis hvernig við undirbyggjum þessa málaflokka í fjárlögum og hvernig verður farið með þá. Ég ber auðvitað von til og er að undirbúa að hægt verði að auka fjármagn til þessa málaflokks. Það er stefna mín og þá á grundvelli þessa, en ég hef líka metið það svo að við þessa vinnu sé ekki minna mikilvægt, til þess að undirbyggja svona sókn til langs tíma, að huga betur að menntun. Ég get talið hér upp mörg dæmi um ákveðnar brotalamir í menntakerfi okkar þegar kemur að hinum skapandi greinum. Ég er sannfærður um að hv. þingmaður og fyrirspyrjandi þekki þær vel. Við þeim þarf að bregðast. Það hefur setið á hakanum um langa hríð.

Hvað varðar tímasetningar, enn og aftur, sem lúta að því sem ég veit að margir bíða eftir, þ.e. hvaða fjármagn verður til skiptanna, þá munu þær ekki geta litið dagsins ljós af neinni alvöru fyrr en við komum að fjárlagagerðinni. Þegar það liggur fyrir mun staða ríkissjóðs ráða þar mestu um. En það liggur fyrir og fólst í orðum forsætisráðherra í áramótaávarpinu að stefnan væri sú að allt kapp yrði lagt á að bæta við skapandi greinar þannig að við legðum grunn að frekari sókn.