143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

móðurmálskennsla.

573. mál
[12:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Fyrir skemmstu fengum við fregnir af því í fjölmiðlum að börn sem hingað koma frá öðrum löndum sitja ekki öll við sama borð, sum fá að læra móðurmál sitt í stað dönsku en önnur ekki. Því hefur jafnvel verið haldið fram, fræðimenn hafa komist að þeirri niðurstöðu og ýmsar rannsóknir benda til þess, að góður málþroski í móðurmáli sé undirstaða læsis. Það hefur komið fram að börnum sem hingað koma frá Noregi, Svíþjóð og Póllandi sé boðið upp á stað- eða fjarnám í móðurmáli sínu í stað dönsku. Það hefur líka verið sagt frá því fjölmiðlum, sem vekur sérstaka eftirtekt, að dæmi séu um að börnum hafi jafnvel verið meinað að nota móðurmál sitt í skólum og meinað að koma með skólabækur á eigin móðurmáli í frjálsa tíma í skólum, sem er mjög sérkennilegt svo ekki sé meira sagt. Fræðimenn halda því sem sagt fram að góður málþroski í móðurmáli sé undirstaða læsis.

Í frétt í Ríkisútvarpinu í miðjum aprílmánuði var m.a. viðtal við Birnu Arnbjörnsdóttur, prófessor í annarsmálsfræðum við Háskóla Íslands, sem sagði að fræðimenn væru sammála um að góður málþroski í móðurmáli væri undirstaða læsis og þess að börn lærðu að lesa sér til gagns. Hún segir jafnframt að fái barn ekki tækifæri til þess að viðhalda móðurmálinu geti það haft áhrif á vitsmunaþroska þess og þess vegna sé mjög mikilvægt að börn sem komi hingað til lands fái móðurmálskennslu vegna þess að við vitum að með því ykjust möguleikar þeirra til náms.

Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að velta upp þeirri spurningu sem ég hef lagt fyrir hæstv. menntamálaráðherra. Það er staðreynd að um 6% barna í íslenskum grunnskólum hafa annað móðurmál en íslensku. Aðeins um 80% barna innflytjenda skrá sig í framhaldsskóla samanborið við 96% barna innfæddra Íslendinga. Þetta er auðvitað áhyggjuefni. Miklu lægra hlutfall innflytjenda klárar framhaldsskólann og meginástæða þess er að þá nemendur skortir íslenskukunnáttu til að ná nógu góðum tökum á náminu. Til þess þurfa þeir líka færni í eigin tungumáli. Þess vegna hef ég lagt þessa fyrirspurn fyrir hæstv. menntamálaráðherra: Hvernig hyggst ráðherra tryggja að börn á leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólaaldri, sem hafa annað móðurmál en íslensku, fái viðunandi kennslu í sínu móðurmáli í skólum landsins?