143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

móðurmálskennsla.

573. mál
[12:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir fyrirspurn hans.

Lög um grunn- og framhaldsskóla gera ráð fyrir því að nemendur með annað móðurmál en íslensku fái tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu, t.d. sem valgrein eða í fjarnámi. Samkvæmt lögum um grunnskóla eiga nemendur með annað móðurmál en íslensku rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Með kennslunni er stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda og þeir geti stundað nám í grunnskólum og tekið virkan þátt í íslensku samfélagi. Grunnskólum er heimilt að viðurkenna kunnáttu í móðurmáli nemenda með annað móðurmál en íslensku sem hluta af skyldunámi er komi í stað skyldunáms í erlendu tungumáli.

Í reglugerð um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í íslensku segir að framhaldsskóli sé ekki ábyrgur fyrir náminu en geti verið tengiliður, t.d. við gagnasöfn, bókasöfn, félög og annað það sem veiti nemendum aðgang að kennslu í eigin móðurmáli.

Ekki er með sambærilegum hætti fjallað um rétt leikskólabarna með annað móðurmál en íslensku til móðurmálskennslu í lagaramma um leikskólann. Þar má hins vegar finna áherslu á að í leikskólum skuli fara fram nám um menningu, þjóðerni, tungumál og að í leikskólum skuli skapaðar aðstæður til að nemendur fái tækifæri til að kynnast tungumálum og möguleikum þeirra.

Litið hefur verið svo á að með tilvísun til 25. gr. grunnskólalaga séu enska og danska eða önnur Norðurlandamál skyldunámsgreinar. Sérstök móðurmálskennsla í norsku og sænsku eða öðrum tungumálum er ekki lögbundin fyrir nemendur, því eru önnur tungumál ekki skyldunámsgreinar með sambærilegum hætti og danska og enska.

Í grunnskólalögum er gert ráð fyrir að danska sé alla jafna það norræna tungumál sem kennt er í skólum hér á landi, en kennsla í norsku eða sænsku standi til boða nemendum sem hafa sérstök tengsl við Noreg eða Svíþjóð. Kennslan kemur í stað fyrir dönskukennslu og hefst á sama tíma og dönskukennslan hefst í grunnskólanum. Kennsla í norsku og sænsku í grunnskólum er því í samræmi við anda grunnskólalaga um valfrelsi, sveigjanleika og yfirlýsingu um málstefnu Norðurlanda og ákvæði í aðalnámskrá grunnskóla.

Þó að ekki sé ákveðið með beinum hætti í lögum eða aðalnámskrá og kveðið þar á um rétt til móðurmálskennslu þessara nemenda er dregið fram mikilvægi þess að nemendur fái tækifæri til að rækta og þróa eigið móðurmál til að stuðla að virku tvítyngi. Þessu er t.d. hægt að ná með því að nýta tölvu- og upplýsingatækni og samstarf við foreldra til að viðhalda og rækta móðurmálið. Má nefna að tungumálatorgið hefur í auknum mæli komið að þróun á þessu sviði sem og samtökin Móðurmál.

Í aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla er fjallað um mat á móðurmáli nemenda og kveðið á um að æskilegt sé að nemendur eigi kost á því að fá hæfni sína í móðurmáli metna. Einnig eru ákvæði í aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla að heimilt er að veita nemendum með annað móðurmál en íslensku undanþágu frá námi í tiltekinni námsgrein. Þar er getið sérstaklega um dönsku fyrir þann nemendahóp. Slík undanþága sem veitt er í grunnskóla gildir einnig í framhaldsskólum. Auk þess er skólastjórum grunnskóla heimilt samkvæmt lögum að viðurkenna nám sem stundað er utan grunnskóla sem jafngildi grunnskólanáms allt frá upphafi til loka grunnskóla. Þessi heimild hentar sérstaklega vel til að styðja við mat á hæfni nemenda með annað móðurmál en íslensku í eigin móðurmáli.

Ég vil að lokum nefna vinnu sem hefur farið fram á vegum velferðarráðuneytisins og innflytjendaráðs, m.a. með þátttöku fulltrúa úr mennta- og menningarmálaráðuneyti, um menntun innflytjenda. Þar hefur m.a. verið horft til þess með hvaða hætti unnt sé að vinna markvissara að auknu tvítyngi nemenda með annað móðurmál en íslensku. Í vinnslu eru tillögur að aðgerðum á sviði móðurmálskennslu sem væntanlega verða lagðar fyrir Alþingi á haustþingi, þá gefst tækifæri til að ræða þau mál hér frekar. Reikna ég með að það svari að nokkru því sem hv. þingmaður vakti sérstaklega athygli á sem er hlutfall nemenda sem eru af erlendu bergi brotnir sem fara í framhaldsskóla að loknu námi í grunnskóla.

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að innan lagaramma fyrir þrjú fyrstu skólastigin felist ýmis tækifæri til eflingar móðurmálskennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku. Með stuðningi af m.a. væntanlegum tillögum um aðgerðir á sviði móðurmálskennslu verði hægt að koma betur til móts við þarfir móðurmálskennslu við þann hóp nemenda sem fyrirspurn þessi snýr að.