143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

móðurmálskennsla.

573. mál
[12:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svör hans. Ég tel að hér sé mjög brýnt mál á ferðinni og ég er sammála því sem fræðimenn, sem um þetta hafa fjallað, hafa sagt að kunnátta í eigin móðurmáli er mikilvæg forsenda þess að menn öðlist góða færni í öðru tungumáli. Börn sem koma hingað til lands þurfa að ná færni í íslensku til þess að fóta sig vel í íslensku samfélagi og til þess þurfa þau góðan grunn í eigin tungumáli.

Fyrir einhverjum áratugum síðan að ég tel var sú lína uppi að tvítyngi truflaði börn í námi og væri skaðlegt, en nýrri rannsóknir tala í aðra átt og ég held að það sé nú almennt viðurkennt.

Sviðsstjóri skólamála í Reykjavíkurborg var í viðtali við útvarpið um miðjan apríl. Þar segir hann mikilvægt að sveitarfélögin sem og Reykjavíkurborg þurfi að ræða saman um móðurmál þeirra barna sem hafa annað tungumál en íslensku og það verði metið sem partur af þeirra námi, bæði í grunnnámi og framhaldsnámi. Hann leggur áherslu á að skólastigin þurfi að haldast að og fylgjast að. Ég er sammála því. Ég tel þess vegna að það þurfi að huga mjög vel að þessum málum. Og ef það eru dæmi um að börnum sé beinlínis bannað að nota sitt eigið tungumál er það náttúrlega algerlega fráleitt.

Eitt er að í grunnskólalögum og í aðalnámskrá, eins og ráðherrann gat um, eru heimildir til þess að velja eigið tungumál, eigið móðurmál, í stað t.d. dönsku. Ég velti því kannski upp í þessari seinni ræðu hvort ráðherrann teldi koma til álita að það væri meira en bara heimild, jafnvel skylda, að verða við slíkum óskum ef nokkur kostur er.