143. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2014.

almennar stjórnmálaumræður.

[19:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Ég vil líkt og fyrri ræðumaður byrja á því að óska öllum gleðilegs sumars og vil árétta það að þrátt fyrir að það hljómi stundum eins og stjórnmálamenn séu að túlka gjörólíkan veruleika, líkt og kom fram í ræðu fyrri ræðumanns og ég mundi sjálfsagt tala allt öðruvísi um síðustu fjögur ár en gert var, þá breytir það engu um þá staðreynd sem við stöndum frammi fyrir og við hér á þinginu erum meðvituð um að fyrir rétt rúmu ári sendi þjóðin þinginu skýr skilaboð. Þau skilaboð birtust í kosningum og fólu í sér kröfu um breytingar, þau fólu í sér von um betri tíma, þau fólu í sér von um bjartari framtíð og forgangsröðun í þágu fólksins í landinu. Að þessu hefur að mínu mati verð unnið mjög ötullega undanfarið ár. Það hefur ekki einungis verið unnið ötullega að því verkefni af hálfu ríkisstjórnarinnar, heldur af hálfu allra sem sitja í þessum sal. Fyrir það ber að þakka. Þess vegna er árangurinn að birtast.

Hagvöxtur hefur aukist, verðbólga hefur lækkað og kaupmáttur hefur vaxið samhliða lækkun skatta og lækkun opinberra gjalda. Á sama tíma hefur fjölbreytnin í atvinnulífinu aukist. Við sjáum sprotana allt í kringum okkur, stórkostlega mikilvæga sprota sem við verðum að nýta. Ný fyrirtæki hafa orðið til og heil fjögur þúsund ný störf hafa orðið til, eitthvað sem hlýtur að gleðja alla sem sitja í þessum sal og alla sem bera hag íslenskrar þjóðar fyrir brjósti. Þá samþykkti Alþingi sín fyrstu hallalausu fjárlög í sex ár um síðastliðin áramót, samhliða því sem markvisst hefur verið unnið að því að draga úr útgjaldaaukningu og skuldasöfnun hins opinbera.

Stór og mikilvæg mál sem snúa beint að fólkinu í landinu hafa verið sett í forgang. Fyrir þeim málum hafa allir þingmenn greitt götu hér á þingi. Brugðist var við bráðum skuldavanda heimilanna með almennri og ábyrgri lánaleiðréttingu sem kemur til framkvæmda á næstu vikum, leiðréttingu sem ekki aðeins mun nýtast einstaka fjölskyldum í þessu landi og gera þeim auðveldara að takast á við hlutina um hver mánaðamót, heldur samfélaginu öllu sem þurfti svo bráðnauðsynlega á slíkri sátt að halda um það risastóra mál.

Slíkar aðgerðir í þágu fólksins í landinu, kæru áheyrendur, eru ein af meginforsendum þess, kannski ein aðalforsenda þess, að Ísland geti hafið þá sókn sem fólkið í landinu á svo skilið að hefja og þá sókn sem svo nauðsynleg er. Þær forsendur eru nú til staðar og þær forsendur eru að verða til, forsendur til viðspyrnu og forsendur til aukinnar bjartsýni og væntinga um betri tíma.

En verkefnin eru, kæru landsmenn, mörg. Og þið megið vita að ríkisstjórnin sem nú situr og allt Alþingi sem nú starfar vinnur að því á hverjum degi hörðum höndum að bæta hag almennings í landinu og tryggja það að tækifærin verði nýtt.

Við höfum brugðist við eðlilegu ákalli um úrbætur í heilbrigðis-, velferðar- og menntamálum. Við höfum bætt eldri borgurum og öryrkjum skerðingar umliðinna ára og við höfum unnið að því að efla atvinnulífið í landinu svo að fyrirtæki og einstaklingar geti nýtt sín tækifæri og notið þess sem landið okkar hefur upp á að bjóða.

Við erum líka að auka öryggi almennings í víðum skilningi. Við höfum undirbúið samgöngubætur með það að leiðarljósi að tryggja aukið umferðaröryggi og viðhald, en einnig með því að skoða nýjar leiðir og nýjar framkvæmdir í samstarfi hins opinbera og einkaaðila.

Veruleg efling löggæslu er einnig staðreynd vegna þess hvernig menn tóku hér höndum saman í því verkefni að gera betur þar. Víðtæk sátt hefur náðst á þingi núna síðast í morgun um fækkun en um leið eflingu embætta hins opinbera samhliða því sem markvisst er unnið að því að varðveita grunnþjónustuna en hagræða í yfirbyggingu, hagræða í kerfinu sjálfu hvar sem því verður við komið. Áherslur nýs þings og nýrrar ríkisstjórnar eru þannig að skila sér.

Fyrir utan það sem ég hef nefnt höfum við þegar stigið fyrstu skrefin en afar mikilvæg fyrstu skref af mörgum í þá átt að lækka skatta, tolla og vörugjöld. Við erum einnig að vinna að því að einfalda skattkerfið allt með það að markmiði að kaupmáttur almennings, kaupmáttur hins venjulega fólks í landinu aukist og geta fólks og fyrirtækja til að skapa störf og verðmæti verði meiri.

Kæru landsmenn. Sá árangur sem við höfum náð á liðnu ári er, eins og ég hef sagt áður og hvet okkur eindregið til þess að nálgast hlutina með þeim hætti og hef gert oft úr þessum ræðustóli, ekki einungis núverandi ríkisstjórn eða sitjandi þingi að þakka. Sú ríkisstjórn og sá þingmeirihluti sem sat á síðasta kjörtímabili lagði einnig mikið á sig líkt og fyrri ríkisstjórnir og líkt og fyrri þingmeirihlutar. En árangurinn sem við merkjum og mælum er samt sem áður fyrst og fremst, fyrst og síðast, fólkinu í landinu að þakka, fólkinu sem byggir þetta land. Þann árangur ber okkur að vernda, enda er hann viðkvæmur, auk þess sem mikið verk er enn óunnið.

Einmitt þess vegna, kæru landsmenn, og er nokkuð ofarlega í huga þeirrar sem hér stendur, eru kjaradeilur á vinnumarkaði sérstakt áhyggjuefni þessa stundina. Við erum flest sammála um þau markmið að auka kaupmátt, halda verðbólgu lágri, bæta launakjör eftir því sem hægt er og tryggja það að atvinnulífið geti haldið áfram að skapa verðmæti og skapa störf. Við vitum einnig flest að í kjaradeilum getur verið vandasamt, erfitt og hugsanlega oft næstum því ómögulegt að mætasta á miðri leið.

En ég vil vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi minna okkur öll á það að ábyrgðin á því að árangurinn sem við höfum náð nýtist öllum er okkar allra. Það gefur augaleið að enginn einn hópur launamanna í samfélaginu getur farið fram á svo mikla hækkun að aðrir hópar verði ýmist skildir eftir eða að samfélagið allt beri af því slíkan skaða að úr honum verði varla unnið í bráð. Aðkoma ríkisvaldsins og löggjafans alls að slíkum deilum er og getur aldrei orðið annað en neyðarúrræði. Ég vil minna á það að þessu sinni og tryggja og árétta að fulltrúar launþega og fulltrúar atvinnulífs verða að líta þannig á slíka löggjöf.

Kæru landsmenn. Á síðustu árum hefur því miður mátt heyra of mikla svartsýni og vantrú á framtíðina í íslensku samfélagi. Við sem störfum í stjórnmálum, við sem sitjum í þessum sal, þurfum að sjálfsögðu að skynja þetta sterkt. Kannski má með nokkurri sanngirni segja að fólk hafi á ákveðnum tíma gefist upp á stjórnmálunum, enda upplifun margra sjálfsagt sú að stjórnmálin hafi einfaldlega gefist upp á þeim verkefnum sem skiptu mestu fyrir almenning í landinu. Þess vegna birtist krafan um breytingar um nýja von svo skýrt í síðustu kosningum.

Þessi staða hefur þó, svo allrar sanngirni sé gætt, breyst nokkuð á undanförnum missirum og mánuðum. Það er auðvitað ánægjulegt að sjá að traust almennings til Alþingis hefur aukist aðeins, nokkuð, á undanförnu ári. En við getum samt gert betur, svo miklu, miklu betur, vandað okkur meira og unnið sameiginlega að þeim verkefnum sem fyrir okkur liggja. Því að þó svo að stjórnmálin séu og eigi sjálfsagt að vera staður fyrir átök um hugmyndir og hugsjónir vona ég að við sem hér sitjum gleymum því ekki og gleymum því aldrei að það var eitt loforð sem við öll gáfum síðastliðið vor. Við gáfum öll sameiginlega þjóðinni eitt loforð: Það var fyrirheitið um ný, breytt og betri stjórnmál. Ég hvet okkur til að muna þetta og vera jafn upptekin af þessu pólitíska loforði og við erum af öðrum.

Pólitískir sigrar koma nefnilega ekki með því að berja sem fastast á pólitískum andstæðingum eða gera lítið úr góðum vilja stjórnar eða stjórnarandstöðu. Eini alvöru pólitíski sigurinn, eini pólitíski sigurinn sem skiptir máli felst í því að líf almennings verði betra á morgun en það er í dag. Það er það sem stjórnmálin eiga að snúast um.

Skuldaleiðrétting, skattalækkanir, atvinnuuppbygging, aukið öryggi, betri menntun og meiri velferð eru allt verkefni á lista ríkisstjórnar og verkefni á lista þingsins. Ekkert þessara mála er eitt og sér þó mikilvægara en það að við sem þjóð séum sammála um að stefna lengra, gera betur og horfa björtum augum til framtíðar. Það er nefnilega sigur sem felst í slíkri samstöðu. Í því felst pólitískur sigur fyrir alla hvar í flokki sem þeir standa.

Kæru landsmenn. Að gera það besta fyrir landið okkar, það besta fyrir börnin okkar, það besta fyrir náungann og það besta fyrir samfélagið er verkefnið sem við okkur blasir og bíður Alþingis og okkar allra næstu árin.

Ég er sannfærð um að sú ríkisstjórn sem nú situr og það Alþingi sem nú starfar mun sinna því verkefni vel, en ég er enn sannfærðari um að þjóðin sjálf, fólkið í landinu, mun sinna því verkefni vel og tryggja að á þeim tímamótum sem íslensk þjóð stendur nákvæmlega nú verði valin rétt og farsæl leið, leið þar sem ákvarðanir verða teknar með hliðsjón af hugsanlegum sigrum framtíðarinnar frekar en ósigrum fortíðar. Ísland hefur alla burði, kæru landsmenn, til að vera land tækifæranna. Við skulum leyfa landinu og fólkinu sem býr í landinu að njóta þeirra tækifæra. — Góðar stundir.