143. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2014.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Það er tekið að vora á ný. Með vorinu eykst okkur bjartsýni og þor og brúnin léttist þegar birtan tekur völdin. En það er ekki aðeins veðrið og hækkandi sól sem gefa fyrirheit um bjartari tíma. Á því ári sem nú er liðið frá alþingiskosningunum hafa orðið miklar breytingar til batnaðar í efnahagslífinu og kannanir sýna að bjartsýni fólks hefur aukist. Stjórnendur fyrirtækja eru nú einnig bjartsýnni og jákvæðari gagnvart framtíðinni en þeir hafa verið frá árinu 2007. Flestir þeirra telja að aðstæður muni batna á næstu mánuðum og tæplega fjórðungur þeirra sér fram á auknar fjárfestingar á árinu. Vart þarf að taka fram hversu mikilvæg þessi viðhorfsbreyting er fyrir atvinnulífið og samfélagið allt, enda er aukin fjárfesting eitt af því sem efnahagslífið þarfnast hvað mest um þessar mundir.

Þessi mikilvæga viðhorfsbreyting sprettur ekki af engu.

Mjög jákvæð þróun hefur orðið í atvinnumálum. Starfandi fólki fjölgaði umtalsvert árið 2013, og voru að jafnaði 6 þúsund fleiri á vinnumarkaði en árið áður. Byggingariðnaðurinn er að taka verulega við sér og horfur á umtalsverðum fjárfestingum þar og mörg fjárfestingarverkefni eru á leiðinni sem virðast af viðráðanlegri stærð. Fjárfesting er einnig almennt að aukast meðal smærri fyrirtækja sem er mjög jákvætt.

Markvissar aðgerðir í ríkisfjármálum og efnahagsstjórn hafa skilað árangri sem nú er tekið eftir á alþjóðlegum vettvangi. Í nýrri hagvaxtarspá OECD fyrir Ísland sem birt var fyrir viku er gert ráð fyrir 2,7% hagvexti í ár og 3,2% á því næsta. Enn meira máli skiptir þó að hagvöxtur er nú drifinn áfram af fjárfestingu og útflutningi. Því til stuðnings má benda á að í fyrsta sinn frá árinu 2002 var viðskiptajöfnuður jákvæður um 82 milljarða í fyrra en var neikvæður um 80 milljarða árið áður.

Það hefur orðið raunverulegur viðsnúningur í efnahagslífinu.

Samstarf ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins hefur einnig skilað jákvæðum árangri eins og sjá mátti í kjarasamningum sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði þar sem áhersla er lögð á aukinn kaupmátt með stöðugleika að leiðarljósi. Með sameiginlegu átaki hefur tekist að auka kaupmátt og koma verðbólgu niður fyrir markmið Seðlabankans. Ársverðbólga mælist nú 2,3% og horfur eru á hóflegri verðbólgu út þetta ár.

Einhverjum kann hugsanlega að þykja það lítt merkilegar fréttir að verðbólga mælist nú loks undir því markmiði, en þegar litið er til þess að þetta er aðeins í annað sinn frá árinu 2004 sem verðbólga á Íslandi fer undir 2,5% og í fyrsta sinn á þessum tíu árum sem hún helst undir því markmiði í þrjá mánuði samfellt sést hversu gríðarlega mikilvægur þessi árangur er. Ef fram fer sem horfir sjáum við fram á einhverja mestu kaupmáttaraukningu frá 2007.

Góðir landsmenn. Fyrsta mál ríkisstjórnarinnar eftir að hún tók við völdum var að leggja fram þingsályktunartillögu í tíu liðum um aðgerðir í þágu skuldugra heimila. Nú, þegar ár er liðið, er öllum tíu þáttum aðgerðaáætlunarinnar lokið eða þeir komnir í farveg.

Í þessari viku mun Alþingi ljúka við setningu laga um almenna skuldaleiðréttingu, beina höfuðstólsleiðréttingu og lækkun höfuðstóls með séreignarsparnaði. Með þessum frumvörpum næst loks árangur í baráttunni fyrir almennum skuldaleiðréttingum sem hófst í febrúar 2009, fyrir fimm árum. Með leiðréttingunni er komið til móts við heimili með verðtryggð húsnæðislán með aðgerðum sem fyrri ríkisstjórn hélt fram að væru óframkvæmanlegar. Beinar niðurfærslur á höfuðstól verðtryggðra lána og möguleiki á að nýta séreignarsparnað til að greiða niður lán mun hjálpa heimilum með verðtryggð lán á beinan hátt með því að lækka mánaðarlega greiðslubyrði og hækka ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar.

Heildaráhrif leiðréttingarinnar eru metin um 150 milljarðar fyrir 100 þús. heimili þessa lands. Þegar núverandi ríkisstjórn nær slíkum árangri á níu mánuðum er svo sem við því að búast að talsmenn fyrri ríkisstjórnar reyni að malda í móinn, sömu talsmenn og höfðu rúm fjögur ár til að svara kallinu um leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum en fullyrtu þess í stað í desember 2012 að ekki yrði meira gert fyrir íslensk heimili. Nú er hins vegar komið í ljós, eins og Einar Benediktsson skrifaði í herhvöt sinni til Íslendinga fyrir tæpum 120 árum, að vilji er allt sem þarf.

Nefna má fjölmörg dæmi um verkefni og skref sem ríkisstjórnin hefur stigið sem stuðla að framgangi þjóðarinnar og efnahagslegum stöðugleika til lengri og skemmri tíma litið.

Ég leyfi mér að nefna aðeins nokkur atriði hér, hæstv. forseti. Stórt og mikilvægt skref var stigið með afgreiðslu hallalausra fjárlaga í fyrsta sinn frá árinu 2007 eftir að halli ríkissjóðs stefndi í tugi milljarða króna eftir afar ófullkomna fjárlagagerð fyrrverandi ríkisstjórnar. Okkur hefur tekist að stöðva 30 milljarða kr. árlega greiðslu í vexti vegna rekstrarhalla undanfarinna ára á sama tíma og fjárveitingar til grundvallarþátta velferðarkerfisins hafa verið auknar um milljarða króna. Einnig hefur ráðstöfunarfé fjölskyldna og fyrirtækja í landinu aukist með skattalækkunum.

Ég nefni 4 milljarða króna innspýtingu í heilbrigðiskerfið.

Ég nefni 5 milljarða króna í skattalækkanir í þágu fjölskyldna.

Ég nefni 5–6 milljarða í þágu eldri borgara og öryrkja, m.a. með því að draga til baka ósanngjarna skerðingu vegna víxlverkunar lífeyrisgreiðslna.

Ég nefni eflingu almennrar löggæslu um land allt.

Ég nefni eina heildstæðustu endurskoðun á húsnæðiskerfinu sem ráðist hefur verið í.

Virðulegi forseti. Við höfum undirritað fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingar á Bakka við Húsavík þar sem stefnt er að því að framleiðsla kísilmálms hefjist árið 2016. Gert er ráð fyrir að í fyrsta áfanga verði til 120 bein störf við verksmiðjuna en með stækkun bætast við 40. Þá hefur Byggðastofnun metið afleidd störf við fyrsta áfanga um 160 og eftir stækkun um 210.

Jafnframt hefur verið undirritaður fjárfestingarsamningur vegna fyrirhugaðs kísilvers í Helguvík á Reykjanesi og einnig örþörungaverksmiðjunnar Algalífs. Um er að ræða alls ný fjárfestingarverkefni sem munu skapa fjölmörg ný störf og viðhalda öflugum hagvexti. 4 þús. ný störf hafa skapast á síðustu 12 mánuðum, meira en tíu á dag.

En þótt við getum bæði litið stolt um öxl og horft bjartsýn til framtíðar bíða fjölmargar áskoranir lausnar. Þar er ekki síst horft til afléttingar fjármagnshafta. Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar, fyrst og fremst, að standa vörð um hagsmuni almennings og íslenskra fyrirtækja þegar tekist verður á um þá niðurstöðu. Nýleg greining á greiðslujöfnuði þjóðarbúsins sýnir svo ekki verður um villst að framtíðarheill íslensks almennings veltur á því að þetta verkefni verði leyst af kostgæfni og í sem bestri og mestri pólitískri sátt.

Það er alveg skýrt, eins og bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa sagt, að ríkisstjórnin mun ekki veita kröfuhöfum bankanna undanþágu frá gjaldeyrishöftum á kostnað almennings í landinu. Það er ekki í boði af hálfu ríkisstjórnarinnar að almenningur taki á sig meiri skerðingu á lífskjörum, t.d. í formi stórfelldrar raungengislækkunar, til að erlendir kröfuhafar geti sloppið með háar gjaldeyrisfjárhæðir úr höftum. Ríkisstjórnin mun aldrei standa fyrir slíkri friðþægingu á kostnað almennings.

Því getið þið treyst.

Virðulegur forseti, kæru landsmenn. Í sumar fögnum við 70 ára ártíð þess hugarfars sem skóp lýðveldið Ísland, hugarfars sem á 20. öld sá til þess að íslenskt samfélag reis úr viðjum fátæks bændasamfélags til þess að verða eitt ríkasta og öruggasta samfélag í heimi. Sama hugarfar uppbyggingar og framkvæmda þurfum við nú að halda í heiðri. Við erum ein þjóð í einu landi og verðum að standa saman sem einn maður. — Góðar stundir.