143. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2014.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Elsku þjóðin mín. Stundum velti ég fyrir mér hverjir hlusta á eldhúsdagsumræður. Ætli fólkið sem þarf að lifa með afleiðingum gjörða okkar hér á Alþingi hlusti? Mér finnst það mjög ólíklegt.

Tilgangur umræðnanna hér í kvöld er að við sem erum á Alþingi í samfélagsþjónustu fyrir ykkur förum yfir þingveturinn, störfin okkar, hverju við komum í verk fyrir ykkur og hverju okkur tókst ekki almennilega að koma í verk eins og stóð til samkvæmt loforðaflaumi sem verður oftast of ákafur í samkeppninni um hver kann að lofa best fyrir kosningar. Nú erum við í miðjum slíkum loforðaflaumi í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga og tilefni til að hvetja fólk til að muna að orð eru ekki án ábyrgðar.

Það er að sjálfsögðu mjög margt sem ég gæti gagnrýnt þessa ríkisstjórn fyrir, en aðrir hafa varið tíma sínum í slíka gagnrýni og óþarfi að láta ykkur sem heima sitjið hlusta á endurtekið efni. Mig langar að tala um Alþingi, störfin okkar hér og Íslandsmetið sem mun verða sett á næstu dögum. Ég hef verið talsmaður þess síðan ég kom hingað á þing, og samþingmenn mínir margir hverjir, að Alþingi sé besti vettvangurinn til efnislegrar vinnu þvert á flokka til stefnumótunar og ýmissa þjóðþrifaverka. Þá hef ég verið talsmaður þess að þingmannamál fái endanlega afgreiðslu áður en þingi lýkur.

Það kann að vera ruglingslegt fyrir þá sem eru ekki vel inni í störfum okkar að það sé talað um þinglok þó að kjörtímabilinu sé ekki lokið. Hvert kjörtímabil samanstendur af fjórum þingum. Þegar hverju þingi lýkur er skorið á svokallaðan þingmálahala. Þess vegna afgreiðum við svona mörg mál í belg og biðu við lok hvers þings. Þingmálahalinn sem skorið er á samanstendur af öllum þingmálum og lögunum sem við náum ekki að ljúka á næstu dögum. Mér finnst það rosalega furðulegt verklag og hef nöldrað yfir því í fimm ár án árangurs. Það þýðir nefnilega að þau mál sem við erum næstum því búin að afgreiða þarf að endurflytja, við þurfum að fá aftur sömu umsagnirnar frá almenningi og hagsmunaaðilum og aftur sömu gestina til að ræða aftur um sama óbreytta frumvarpið eða ályktunina.

Sum mál hafa farið í gegnum þetta ferli í fjögur til fimm skipti, mál sem samstaða er um og hvorki málefnalegur né pólitískur ágreiningur um.

Kæru hlustendur. Ástæða þess að ég er svona ánægð með Íslandsmetið er að fjöldamörg mál sem hafa verið flutt aftur og aftur, jafnvel af þingmönnum annarra flokka þing eftir þing, fá loksins afgreiðslu og verða annaðhvort að verklagsreglum fyrir ríkisstjórnina eða að lögum. Hvorki fyrr né síðar hafa jafn mörg þingmannamál verið sett á dagskrá til fullnaðarafgreiðslu og við verðum vitni að á næstu tveimur dögum.

Mig langar að hrósa þingheimi fyrir það. Mig langar til að við munum og séum stolt af því sem við gerum vel. Mig langar til að fara yfir hvað við höfum samþykkt og hvað við eigum eftir að samþykkja.

Við höfum samþykkt þingsályktanir um eftirfarandi málefni:

Átak til atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu, forvarnastarf vegna krabbameins í blöðruhálskirtli, jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum, leikskóla að loknu fæðingarorlofi, mótun geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlunar, myglusvepp og tjón af völdum hans, skipun nefndar um málefni hinsegin fólks, skráningu upplýsinga um umgengnisforeldra og stuðning við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara.

Við munum á næstu tveimur dögum samþykkja þingsályktanir um:

Aðgerðir í þágu lækningar við mænuskaða, eflingu skógræktar sem atvinnuvegar, hert viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri, landsnet ferðaleiða, mótmæli gegn ofsóknum gegn samkynhneigðum í Úganda, rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku, ráðstafanir gegn málverkafölsunum, samningu stefnumarkandi frumvarpa og þingsályktunartillagna, skrásetningu kjörsóknar eftir fæðingarári í kosningum á Íslandi frá vori 2014, varðveislu menningararfleifðar á stafrænu formi, mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu, bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi, stefnu varðandi byggingu nýs Landspítala og gerð sáttmála um verndun friðhelgi einkalífs í stafrænum miðlum.

Mér finnst þessi mál endurspegla vilja og getu þingsins til samstarfs um málefni sem munu hafa áhrif á fjölmarga einstaklinga í samfélagi okkar. Ég vona að þessi jákvæða þróun í lýðræðisátt haldi áfram að eiga sér stað á þinginu. Jafnframt hefur það verið rætt á vettvangi formanna flokkanna, sem og meðal þingflokksformanna, að láta mál lifa á milli þinga og mun það svo sannarlega gera störf okkar skilvirkari. Enginn meiri þingmálahali.

Ég man þegar ég kom fyrst á þing og heyrði þetta orð, þingmálahali, og fannst það skrýtið.

Vonandi mun þingmálahalaskurðurinn heyra sögunni til á næsta þingi. Næsta stóra baráttumál okkar þingmanna til að tryggja að þingstörfin verði gagnsærri og aðgengilegri almenningi er að nefndafundir verði sendir út beint. Það kostar ekki neitt nema vilja. Við þingmenn Pírata höfum boðist til að aðstoða ókeypis við að koma slíku í framkvæmd. Það er mjög mikilvægt að nefndafundir séu opnir því að þar fáum við aðgengi að fagupplýsingum sem eru notaðar til grundvallar ákvarðanatöku og lagasetningu.

Við píratar viljum að þú fylgist með hvað við erum að gera. Við höfum lagt fram fjölmargar skriflegar fyrirspurnir til ráðherra sem okkur hafa borist frá almenningi. Við lítum á okkur sem lifandi upplýsingalög og þó að við séum bara þrjú í þinghópnum okkar höfum við haft mikilvæg áhrif á þingstörfin með annars konar sýn og þekkingu en aðrir þingmenn sérhæfa sig í. Mér finnst það sönnun þess að mikilvægt sé að hafa sem fjölhæfasta flóru af einstaklingum sem fulltrúa almennings til að geta miðlað þekkingu, reynslu og sérhæfingu þvert á milli flokka í vinnu okkar hér.

Alþingi er nefnilega ekki endilega það átakasvæði sem fjölmiðlar draga upp og við sjálf látum í skína í þingsal. Alþingi yrði ekki neitt úr verki og lögin yrðu margfalt verri ef við bærum ekki gæfu til að vinna saman.

Þó að þingið haldi ekki fundi á næstu mánuðum liggja fyrir mörg verkefni fyrir lítinn þingflokk. Við ætlum að nota sumarið til að skrifa frumvörp til að leggja fram í haust. Við munum vinna að endurskoðun höfundarréttarlaga í samstarfi við sérfræðinga og hugsjónafólk, höfundarréttarhafa og lögfræðinga víðs vegar um heim. Við erum svo heppin að tilheyra sívaxandi flokki pírata á heimsvísu sem miðlar sérþekkingu og reynslu sín á milli. Við ætlum að skrifa frumvörp um vernd milliliða og afnám gagnageymdar en stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hyggst halda áfram með vinnu við slíkt afnám í kjölfar dóms Evrópudómstólsins í apríl þar sem slík geymd telst ólögmæt. Þá erum við að vinna að lögum til verndar afhjúpendum og áframhaldandi umgjörð til að auka aðgengi að lýðræðisþátttöku.

Kæru þið, sem eruð að hlusta á þessar umræður, ef þið þekkið ungt fólk sem er tregt á kjörstað í sveitarstjórnarkosningum er það á ykkar ábyrgð að drífa það með ykkur á kjörstað. Ef við tökum ekki þátt í lýðræðinu erum við dæmd til að sitja uppi með misvitra fulltrúa og mistæk stefnumál. Við eigum frábær verkfæri til þátttöku, stefnumál pírata á sveitarstjórnarstigi fyrirfinnast til dæmis á vefnum Betri Reykjavík. Þar geta menn sagt hug sinn um stefnumálin og jafnvel sett inn þau mál sem þeim finnst mikilvægast að verði á oddinum í þessum kosningum.

Mig langar að ljúka þessu á að minna okkur á svolítið sem ég hef haft á heilanum og urðu mér mikil vonbrigði á síðustu stundum síðasta þings og það er að þann 17. júní í ár er dagurinn sem við áttum að fá nýja stjórnarskrá. Ég hlýt að spyrja forustumenn stjórnarflokkanna og fyrrverandi slíka: Hvar er nýja stjórnarskráin sem þjóðin kaus að leggja sem grunn að nýja Íslandi? Hvar er hún? Ef við hefðum borið gæfu til að hlíta vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá þyrfti almenningur ekki að standa enn og aftur í mótmælum út af til dæmis aðildarviðræðunum og hugsanlegum slitum á þeim. Nei, þá hefðuð þið haft lýðræðisleg verkfæri til að veita okkur í þingheimi nauðsynlegt aðhald.

Ég óska öllum þingmönnum og hlustendum góðra stunda og vonast til þess að við getum haldið áfram að auka aðgengi almennings að þessum vinnustað. Ég óska þess, þó að það sé ekkert endilega rosalega gaman að hlusta á eldhúsdagsumræðurnar, að þið fylgist betur með okkur. Það er á ykkar ábyrgð.