143. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2014.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:07]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Það er gaman að lifa á fallegum vordögum þegar náttúran er að klæðast sínu dýrasta skarti og fram undan er birta, hlýja og gróandinn á fullu. Að sama skapi er ánægjulegt að líta yfir liðið ár og sjá fræin sem við dreifðum og sáðum í fyrravor í formi fyrirheita vera að blómstra um land allt.

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, sem senn hefur starfað í eitt ár, getur sannarlega litið með stolti og ánægju yfir farinn veg. Strax á sumarþingi var hafist handa við að bæta lífsgæði eldra fólks m.a. með hækkun á frítekjumarki og draga úr áhrifum lífeyrissjóðsgreiðslna á grunnlífeyri. Síðan við gerð fjárlaga var 6 milljörðum — 6 þús. millj. kr. framlagi bætt við almannatryggingar og efnd þau fyrirheit úr kosningabaráttunni að draga til baka skerðinguna frá árinu 2009 og rétta þannig hlut aldraðra og öryrkja. Reyndar var öryggisnet almannatrygginga treyst enn frekar í fjárlagagerðinni því að milli ára hækkuðu framlög til almannatrygginga um 9 milljarða kr.

Eitt aðalmarkmið okkar í þeirri fjárlagavinnu var eigi að síður agi og festa og að fjárlögum yrði lokað hallalausum. Hún var mergjuð stundin þegar við samþykktum hallalaus fjárlög, en gátum samt einnig aukið framlög til heilbrigðismála um 4 þús. millj. kr. Með því var bætt úr brýnum vanda Landspítalans og jafnframt leyst úr vanda heilbrigðisstofnana víða um land, enda sjást batamerki hvarvetna í þjóðfélaginu, ekki síst hjá sveitarfélögunum, og atvinnuleysismeinið er að hjaðna, sem er sérstaklega ánægjulegt og dýrmætt.

Undanfarna daga höfum við fjallað um stærstu mál þessarar ríkisstjórnar um að koma til móts við um 80% fjölskyldna landsins til lækkunar fasteignaskulda. Það er tvímælalaust mikilvægt að geta einnig notað séreignarsparnaðinn til lækkunar á skuldum, en um leið er sú leið hvati til sparnaðar.

Hvað varðar leiðréttingu á forsendubrestinum sem varð á húsnæðislánum í hruninu er hér um að ræða almenna aðgerð til aðstoðar þeim sem skulda húsnæðislán. Sumir fjargviðrast yfir því að einhver heimili með verulegar skuldir en einnig eignir geti átt rétt á leiðréttingu, en ég bendi á að hér voru afskrifaðar skuldir upp á milljónatugi hjá stórlöxum á síðasta kjörtímabili, hjá einstaklingum sem og fyrirtækjum.

Nýlega samþykktum við hér á Alþingi vandaða og framsýna byggðaáætlun. Það var gleðiefni að hún var afgreidd ágreiningslaust með 60 atkvæðum. Ég vek athygli á því að þar er m.a. slegið föstu að flugvöllurinn verði áfram í Reykjavík — 60 atkvæði á Alþingi.

Þó að mér þyki mjög ánægjulegt að hafa fengið tækifæri til setu hér og taka þátt í því að bæta þjóðfélagið og lífsaðstæður fjölskyldna í landinu, hefur vinnulag hér á Alþingi komið mér nokkuð á óvart. Ég bind því vonir við endurskoðun þingskapa þar sem óhjákvæmilegt er að lagfæra þingsköpin þannig að afgreiðsla mála eða þinghaldið verði virkara. Stjórnarandstaða á hverjum tíma hefur miklu hlutverki að gegna, en stundum skil ég ekki hægaganginn eða tafirnar hér eins og þegar mörgum dögum var eytt í fremur efnislítið þras um fundarstjórn forseta.

Virðulegi forseti. Þótt ríkisstjórnin hafi náð ágætum árangri á mörgum sviðum er enn þá margt ógert og brýn verkefni blasa við og bíða næstu þinga. Fyrir liggur að finna framtíðarfyrirkomulag varðandi leiguhúsnæði og aðstoð við þá sem ekki búa í eigin húsnæði. Þá verður að ljúka mótun fiskveiðistefnu til framtíðar og orkustefnu sem tekur tillit til náttúruverndar og siðlegrar umgengni um landið.

Stórvaxandi fjöldi ferðamanna gerir það óhjákvæmilegt að grípa til umfangsmikilla aðgerða til þess að forðast náttúruspjöll. Helgistaður þjóðarinnar, Þingvellir, þarfnast stóraukinnar uppbyggingar og verðum við þegar að fara að hugleiða hvernig við stöndum að 1100 ára afmæli Alþingis á Þingvöllum árið 2030.

Virðulegi forseti. Forn málsmáttur segir: Hugurinn ræður hálfum sigri. Trú á árangur, sigur og jákvæðni skipta miklu máli í öllum störfum og viðfangsefnum sem við tökum okkur fyrir hendur.

Ég þakka þingheimi fyrir veturinn. Við skulum hafa sumarið gott.