143. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2014.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:34]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Eitt meginmarkmið síðustu ríkisstjórnar var að minnka skuldsetningu þjóðarinnar og gera ríkisfjármálin sjálfbær. Ekki er um það deilt að töluverður árangur náðist hvað þetta varðar og er hann vissulega markverður með tilliti til þeirra aðstæðna sem þá ríktu. En eftir að sitjandi ríkisstjórn tók við hefur ekki gengið á öðru en ráðstöfunum sem rýra hag ríkissjóðs í bráð og lengd og margt af því sem tekið hefur verið til bragðs vekur furðu. Fyrsta verkið var að fjölga ráðherrum og aðstoðarmönnum og skipta stjórnsýslunni upp aftur sem kostar um 46 milljónir á ári. Valdastólarnir freistuðu þarna meira en sparnaður í þágu almennings.

Það hefur líka legið fyrir frá upphafi að við erum að fást við ríkisstjórn hinna efnameiri í samfélaginu og birtist það skýrt og greinilega í þeim aðgerðum sem hún stendur fyrir. Á sumarþingi síðasta ár var línan lögð þegar veiðigjöldin voru lækkuð og bætir ríkisstjórnin í þá aðgerð nú á vordögum með enn frekari lækkun þessara gjalda. Við vinnslu fjárlagafrumvarpsins í vetur var áherslan lögð á að lækka tekjuskatt á hærri tekjur, fallið frá hærri virðisaukaskatti á ferðamenn, ákveðið að framlengja ekki auðlegðarskatt en hækka gjöld á sjúklinga með margvíslegum hætti. Allt var þetta á sömu bókina lært. Hinum efnameiri er hlíft en byrðar þeirra sem minna hafa eru þyngdar.

Sóknaráætlanir landshluta, menningarsamningar, brothættar byggðir, allt eru þetta verkefni sem fyrri ríkisstjórn lagði mikla áherslu á en hægri stjórnin skar hraustlega niður. Þessar athafnir lýsa áherslum ríkisstjórnarinnar í byggðamálum í verki. Í sömu andrá og niðurskurðarhnífnum er beitt á mikilvæg samfélagsverkefni talar þessi sama ríkisstjórn um að standa vörð um heimilin.

Fjarvera forustumanna ríkisstjórnarinnar undanfarna daga er æpandi á sama tíma og fjallað hefur verið um lagafrumvörpin sem leiddu af kosningaloforðum þeirra og forsætisráðherra sagði vera á heimsmælikvarða þegar hann sló sem mest um sig með orðavaðlinum og allt í boði hrægamma. En hver er hin raunverulega staða? Í hverju var heimsmetið sett? Útgreiðslu úr ríkissjóði? Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar færa okkur heim sanninn um það hvað liggur að baki heimsmetinu. Niðurgreiðslu skulda til handa efnamiklu fólki sem er ekki í neinum greiðsluvanda er það sem ber hæst. Stórir hópar verða út undan og fá ekkert nema bláþráðóttan spuna. Þeirra hlutskipti á að vera að bíða og þrauka í veikri von um að kannski komi einhvern tímann að þeim. Fjármálastofnanir fá sitt að fullu þar sem greiðslujöfnunarreikningar verða það fyrsta sem ríkisstjórnin greiðir, sem þýðir að fyrsta 20 milljarða útgreiðslan leysir engan greiðsluvanda hjá fólki og heimsmetið góða reynist vera í spunalist en ekki stjórnlist.

Kæru landsmenn Það kemur ekki á óvart að áhersla hægri stjórnarinnar skuli vera að gera vel við þá sem vel eru aflögufærir, efnameira fólkið í samfélaginu. Við höfum séð ráðherrana kikna í hnjánum gagnvart útgerðinni sem streitist á móti því að greiða sanngjarnt gjald fyrir sameiginlega sjávarauðlind okkar. Þeir kunna að hlusta þegar útgerðarmenn hvísla. Og mörgum litlu byggðunum blæðir. Það kemur ekki á óvart þetta eru nú einu sinni sömu flokkarnir og streittust gegn því á síðasta kjörtímabili að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá og þeir eru enn við sama heygarðshornið í þeim efnum þrátt fyrir eindregna niðurstöðu um annað úr þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar almenningur hrópar heyra þeir ekki. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa opinberað það mjög vel á þessu fyrsta starfsári ríkisstjórnarinnar fyrir hvað þeir standa.

Kæru landsmenn. Við stöndum frammi fyrir því að hér starfar ríkisstjórn sem stjórnast af mætti peninganna og stjórnar með hagsmuni peningaaflanna í fyrirrúmi. Það er því ástæða til að hafa áhyggjur af því að þjóðarskútan stefni í sömu átt og haldið var þegar hún steytti að endingu á skerjum hrunsins. En við vinstri græn munum halda áfram að brjóta niður múra sérhagsmunagæslunnar. Við fórum ekki fram með óábyrg yfirboð og gylliboð í kosningabaráttu okkar eins og ríkisstjórnarflokkarnir gerðu. Við þurfum ekki að éta neitt ofan í okkur, ekki snúa okkur út úr neinum klemmum með undanbrögðum og ólíkindalátum. Leiðarljós okkar vinstri grænna, hér eftir sem hingað til, er að leggja áherslu á og beita okkur fyrir jöfnuði í hinu stóra samhengi því að í samfélagi þar sem jöfnuður ríkir og tækifæri bjóðast líður fólki vel.

Góðar stundir og gleðilegt vinstra vor.