143. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2014.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:44]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ástkæra Alþingi. Elsku landsmenn. Ég vil byrja á að nota tækifærið og þakka forseta fyrir hlýjar kveðjur sem hann sendi Pollapönkshópnum til Eurovisionlands á dögunum, það gladdi Polla. Ég færi forseta og þingheimi öllum líka bestu Pollakveðjur til baka með hvatningu um að hvika hvergi frá baráttunni gegn hvers kyns fordómum. Sá þingmaður sem hér stendur tekur þau skilaboð heils hugar til sín.

Fordómar eru nefnilega ekki bara eitthvað sem býr í öðru fólki, í öðrum flokkum eða í öðrum löndum. Öll glímum við við einhverja fordóma sem við þurfum að berjast við. Fordómar leiða af sér mismunun og vond samskipti. Það er slæmt. Ef við getum nálgast mál fordómalaust með opnum huga er líklegra að sem flestir verði glaðir og það er gott.

Ég vil meina að helsta verkefni okkar í stjórnmálum og reyndar almennt í lífinu sé að gera okkar besta til að auka hamingju í heiminum og koma í veg fyrir óhamingju. Það er auðveldara ef maður gengur glaður til verks og með opnum en þó gagnrýnum huga. Tónlistarmaðurinn og vitringurinn Willie Nelson orðaði þetta vel þegar hann sagði í lauslegri þýðingu, með leyfi forseta:

„Haltu huganum opnum, bara ekki svo opnum að heilinn detti í gólfið.“

Ég vil minna á að hamingja og peningar eru ekki endilega það sama. Margir muna eftir sjónvarpssápuóperunni Dallas. Ég fylgdist af andakt og stundum hryllingi með ævintýrum, vandræðum og svikráðum J.R. Ewing og co. í Dallas. Sumarið 1986 var ég svo heppinn að fá að heimsækja hinn raunverulega Southfork-búgarð fyrir utan Dallas í Bandaríkjunum og gleymi því seint hvað það var undarleg upplifun að vera sjálfur staddur í því óraunverulega umhverfi sem ég þekkti bara af sjónvarpsskjánum. Á þeim tíma tókst mér ekki á nokkurn hátt að tengja mig því umhverfi. Ég kom ekki upp orði af viti við ferðafélaga mína. Þetta var vægast sagt skrýtin tilfinning og sérstök upplifun.

Ég hugsaði um þessar tilfinningar eftir kosningarnar í fyrra þegar ég sté í fyrsta sinn inn í sali Alþingis. En það er ekki í boði að finna sig ekki og koma ekki upp orði á Alþingi Íslendinga og það þótt við þingmenn sitjum vissulega í óvenjulegum en um leið kunnuglegum sal með augu myndavélanna á okkur öllum stundum.

Ég vil meina að við þingmenn getum dregið ákveðinn lærdóm af J.R. Ewing og samferðafólki hans í Dallas. Við getum til dæmis lært að bregðast við því sem upp kemur og láta ekki skrýtnar eða erfiðar aðstæður hefta eða draga okkur niður. Við getum líka nýtt okkur dæmisögurnar frá Dallas sem víti til varnaðar. Sviksemi, sjálfhverfa og leynimakk er engum til góðs. Einstrengingsháttur og hroki koma sjaldnast neinu í verk og leiða á endanum til hörmunga og óhamingju fyrir alla.

Á þinginu í vetur höfum við upplifað dæmi um hvort tveggja, bæði gott og slæmt. Við höfum á köflum átt uppbyggilega umræðu og séð vandaða ákvarðanatöku með breiðri þátttöku. Þá var unnið af jákvæðni og af opnum hug. En við höfum líka upplifað átök og leiðindi, riðlaða dagskrá og á köflum flausturslegar ákvarðanir teknar í flýti. Þá tók reiðin og tortryggnin af okkur völdin.

Á Alþingi Íslendinga er mikið undir. Miklu skiptir að vel takist til í hvívetna. Við slíkar aðstæður eru öll verkfæri og hvers konar brýning bæði gagnleg og verðmæt jafnvel þó þau kunni að kvikna út frá amerískri sápuóperu frá níunda áratugnum.

Það kemur fyrir að titillag úr Dallasþáttunum hljómi í höfðinu á mér hérna í þinginu. Það er þörf áminning og mikilvægur lærdómur um störf okkar hér. Það skiptir miklu máli fyrir þingmann eins og mig, sem er jú fulltrúi kjósenda og þegar á botninn er hvolft þjónn þeirra, að fá lærdóm og brýningu sem gagnast mér í störfum. Dallas hefur komið mér að gagni. Ég deili þeirri hugsun í þeirri von að aðrir kynnu að hafa gagn af og jafnvel gaman.

Af því tilefni vil ég flytja lítið ljóð sem undirritaður samdi með Sigurjóni Kjartanssyni tónlistarmanni um svipað leyti og Dallasþættirnir höfðu hvað mest áhrif á Íslendinga. Ljóðið er samið við titillag þáttanna sem margir kannast við. Það er ekki til siðs að syngja úr ræðustól Alþingis þannig að ég mun flytja ljóðið á hefðbundinn hátt, en treysti því að lagið sjálft sé ferskt í minni hv. þingmanna og tengist þannig ljóðinu í hugum þeirra. Með leyfi forseta:

Dallalas, la Dallalallalas

er falleg borg í Texas.

Bítast fagrar konur um mikinn auð

innan um mislitan sauð.

Ewing-fjölskyldan samheldin er

þá vandamál steðja að.

J.R. glúrinn en Bobby er ber

og miss Ellie æði er.

Dallalas, Dallalallalas.

Þetta ljóð minnir mig alltaf á hvað þarf til að gera gagn hérna á þingi, eins furðulegt og það hljómar. [Hlátur í þingsal.] Samheldni, hæfilega glúrin vinnubrögð og dass af áræðni. Ég vona að það komi öðrum að gagni líka.

Ég minni þingheim á að stjórnmálin gerast ekki eingöngu hérna inni í þessum sal. Stjórnmálin koma öllum við. Þau koma við líf allra Íslendinga. Það er mikilvægt fyrir þingmenn að muna að okkar umræða fer ekki bara fram okkar á milli. Ég hvet þingmenn áfram til að horfa út fyrir húsið, tala til þjóðarinnar og hlusta á þjóðina. Það eru raunveruleg stjórnmál, ekki eingöngu persónulegt karp okkar á milli.

Með ást í hjarta og heilum hug óska ég þingheimi heilla. Megi hugir okkar vera galopnir og verulega virkir. — Takk fyrir. Góða ferð.