143. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2014.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:50]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Kæru landsmenn. Grunnstefna Pírata er að verja og efla grunnréttindi fólks. Það færir manni vissan frið að finna við þá iðju þunga mestu tæknibyltingar mannkynssögunnar með sér.

Það er nefnilega ekki tilviljun að píratar eru til. Í lok síðustu aldar spáði faðir nútímastjórnunar, Peter Drucker, að það væri nánast öruggt að upplýsingabyltingin, sem hegðar sér eins og aðrar tæknibyltingar, mundi bylta sviði stjórnmálanna innan 20 ára.

Það eru 600 þúsund píratar í 60 löndum með yfir 250 fulltrúa á löggjafarsamkundum í dag. Fyrir ári voru svo Píratar, stjórnmálaarmur upplýsingabyltingarinnar, í fyrsta sinn kosnir á þjóðþing, Alþingi okkar Íslendinga. Undiralda upplýsingabyltingarinnar er að færa okkur í átt til upplýstara samfélags þar sem allir hafi í ríkara mæli rétt til að koma að ákvörðunum sem þá varðar. Þetta er framtíðarsýn Pírata.

Árangur Pírata á þessu þingi sem er að ljúka sýnir að eitthvað erum við að gera rétt. Sem nýstofnaður flokkur komum við þremur mönnum á þing og fylgi Pírata hefur tvöfaldast frá kosningum.

Á síðasta ári settum við fram skýra grunnstefnu sem endurspeglar nýja forgangsröðun gilda fólks í nettengdum heimi og skapar Pírötum þannig sérstöðu. Án skýrrar stefnu er hætt við að ungur stjórnmálaflokkur nái hvorki að halda samstöðu né að ná eyrum kjósenda.

Kjarni grunnstefnunnar snýst um að verja og efla grunnréttindi fólks og að tryggja rétt allra til að koma að ákvörðunum sem þá varðar. Þetta er eitthvað sem enginn getur í raun verið ósammála í orði, en iðulega er það ekki þannig á borði. Sérstaða Pírata er svo fókusinn á réttindi sem eru netverjum kær eins og gegnsæi, friðhelgi einkalífsins og beinna lýðræði.

Í kosningabaráttunni fyrir ári náðum við að byggja á styrkleikum þess fólks sem vildi taka þátt og nýta frumkvæði þess. Þar sem Píratar eru blessunarlega flestir mjög sjálfstæðir sættum við okkur við mistök sem fylgja ómiðstýrðu skipulagi en uppskárum þess í stað miklu fleiri sjálfboðaliða sem sýndu frumkvæði og áhuga. Það sama á sér stað núna hjá aðildarfélögum Pírata í Reykjavík, í Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjanesbæ. Þessi framboð Pírata eru öll með einn eða tvo menn inn í könnunum.

Á Alþingi höfum við nýtt tækifærin til að vernda og efla grunnréttindin, ekki aðeins þau sem netið gerir mikilvæg. Við setjum í fókus að bæta réttarstöðu lántakenda og með góðu samstarfi á þinginu fyrir jól voru nauðungarsölur stöðvaðar fram til 1. september nk., sem hefur skapað skjól þar til dómur fellur vonandi í máli Hagsmunasamtaka heimilanna um lögmæti verðtryggingar á neytendalánum. Íbúðalánasjóður tefur það mál og hafa nú tveir hv. þingmenn Framsóknarflokksins kallað eftir að því máli verði flýtt, sem er þakkarvert. En við skulum horfa á það að stjórnvöld geta haft þau áhrif að Íbúðalánasjóður hætti að tefja þetta dómsmál. Við þurfum að fá niðurstöðu.

Ég minni á að þegar nauðungarsölurnar hefjast 1. september er það alfarið á ábyrgð stjórnarflokkanna, því að þeir hafa getað gripið inn í og stöðvað þetta og þingið kemur ekki saman fyrr en 10. september.

Við höfum frá kosningum verið ötul við að halda á lofti mikilvægi friðhelgi einkalífsins. Hef ég heyrt innan úr stjórnsýslunni að þar á bæ séu menn farnir að vakna. Það sama hefur gerst á þinginu og nú nýlega felldum við í umhverfis- og samgöngunefnd út ákvæði sem ríkislögreglustjóri vildi fá til víðtækrar öflunar viðkvæmra persónuupplýsinga, m.a. frá mökum og um fjárhagsstöðu þeirra sem vinna á öryggissvæði flugvalla.

Friðhelgi einkalífsins eru réttindi sem eru orðin mikilvæg kjósendum í nettengdum heimi og verða þeim æ mikilvægari. Stjórnmálamenn þurfa að standa sig við að verja þessi réttindi eða að tapa fylgi ella.

Stóra málið sem við Píratar höfum náð samningum um að klára í þinginu núna á föstudag eða laugardag snýr að réttindavernd veikasta hópsins í samfélaginu. Í þingsályktunartillögu sem Píratar flytja ásamt þingmönnum úr öllum flokkum er kallað eftir að stjórnvöld skipi starfshóp fagaðila sem móti stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til verndar félagslegra réttinda neytendanna og aðstandenda þeirra.

Misnotkun fíkniefna er heilbrigðisvandamál. Það er kominn tími til að nálgast það út frá mannréttindum og vísindum. Greinargerð ályktunarinnar hefst á orðum Kofis Annan, fyrrum aðalritara Sameinuðu þjóðanna, með leyfi forseta:

„Það er trú mín að eiturlyf hafi eyðilagt líf margra, en röng stefna stjórnvalda hefur eyðilagt líf miklu fleiri. Við þurfum að horfa á stefnuna og spyrja okkur einlæglega og heiðarlega; virkar hún? Ef hún virkar ekki, höfum við hugrekki til að breyta henni?“

Við Píratar erum þakklátir fyrir móttökurnar sem við höfum fengið og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs og nýs samstarfs við alla þá sem deila okkar framtíðarsýn, sama hvort og hvar í flokki þeir finnast. — Takk fyrir.