143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[22:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hafa að sjálfsögðu allir skilning á því að þetta er ekki gleðilegt tilefni, en ástæða þess að mig langar að eiga orðastað beint við ráðherra og spyrja hæstv. ráðherra tiltekinnar spurningar er sú að við vitum af yfirvofandi vinnudeilum víðar. Nú þegar hefur verið sett ákveðið fordæmi á Alþingi með þeirri lagasetningu sem var samþykkt gagnvart starfsmönnum Herjólfs. Nú liggur fyrir þetta frumvarp um frestun verkfallsaðgerða flugmanna. Við ræðum það hér og í umhverfis- og samgöngunefnd. Þetta er að sjálfsögðu ekki alveg eins mál, en við vitum að það standa yfir aðrar vinnudeilur, til að mynda má nefna flugfreyjur. Á morgun er vinnustöðvun hjá grunnskólakennurum. Það er ekki enn farið að ganga saman í þeim málum. Þá veltum við því auðvitað fyrir okkur sem hér erum hvort þessi þungu spor sem hæstv. ráðherra nefndi verði fleiri. Hvernig verður þeim háttað þegar þing verður farið í hlé?

Mig langar að spyrja hver afstaða hæstv. ráðherra er til þess ef til þess kemur að núverandi hæstv. ríkisstjórn telji aftur nauðsynlegt að leggja fram frumvarp sem felur í sér að setja lög á verkfall. Ætlar hæstv. ríkisstjórn að kalla saman þing og tryggja aðkomu þingsins að slíkum ákvörðunum þótt það verði ekki á starfstíma þingsins? Mér finnst mjög mikilvægt að afstaða hæstv. ráðherra í því máli sé skýr.