143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[22:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég mundi vilja fá frá hæstv. ráðherra er — þar sem almannahagsmunir heimila að grípa svona inn í, og nú er það orðið nokkuð skýrt að afskipti stjórnvalda af verkfalli starfsmanna Herjólfs voru vegna almannahagsmuna, hérna er talað um almannahagsmuni — að það komi skýr stefna frá stjórnvöldum, skýr stefna komi um það hvað eru almannahagsmunir. Við hvaða kringumstæður er hægt að setja á lög til að koma í veg fyrir verkföll? Það er ekki góð staða fyrir starfsmenn þessa lands sem hafa verkfallsrétt að það sé óskýrt hver réttur þeirra er. Þeir fara af stað, þeir tjalda til, þeir skipuleggja sig, svo eru sett á neyðarlög. Þeir vita ekki hver staða þeirra er. Ef það eru almannahagsmunir, þessar kringumstæður núna — starfsfólk landsins þarf að vita við hvaða kringumstæður ríkisstjórnin lítur á hlutina sem almannahagsmuni, og setji jafnvel á lög og segi: Þið hafið bara ekkert verkfallsrétt, þannig lítum við á það.

Er ríkisstjórnin tilbúin að ganga þá leið? Alla vega er ljóst að það gengur ekki að fólk sé að tjalda til, skipuleggja sig og fara af stað með þau réttindi sín sem fótunum er síðan alltaf kippt undan með. Hvað segir ráðherra? Er hún tilbúin að gefa það út alveg skýrt hverjir mega fara í verkfall á Íslandi? Hverjir mega það ekki vegna almannahagsmuna?