143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[23:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði hér áðan í andsvari er alveg ljóst að þetta er auðvitað ekkert gleðitilefni og kannski ekki síst í ljósi samhengisins. Það er alveg rétt að hæstv. ráðherra vitnaði áðan í fordæmi um lög sem sett voru á verkfall flugvirkja 2010. Ég kom að því í ræðu minni þegar við ræddum um verkfallið á Herjólfi hér fyrr í vetur að þar hefðu vissulega verið vegnir og metnir hagsmunir á þeim tíma og ríkisstjórnin, sem ég sat í, komst að tiltekinni niðurstöðu. Hins vegar er ávallt tilefni þegar svona stór mál koma inn á borð Alþingis til að meta þau og skoða. Það er ekki að hægt að horfa bara til fordæmanna heldur þarf að horfa á heildarsamhengi á hverjum tíma.

Það sem vekur mér áhyggjur er að hér er í fyrsta lagi nýlega búið að setja lög, lög sem ég greiddi atkvæði gegn. Ég taldi það ekki standast þær forsendur sem þyrftu að vera fyrir slíkri lagasetningu sem staðfestar hafa verið m.a. í dómi Mannréttindadómstólsins um ákvæði um félagafrelsi þar sem skipti mjög miklu að staðinn sé vörður um frelsi stéttarfélaga til að semja um kaup og kjör gagnvart vinnuveitendum sínum. Þar hefur verkfallsrétturinn verið talinn ein mikilvægasta leiðin til að styrkja frelsi stéttarfélaga og í mannréttindasáttmálanum er sú túlkun birt að hann skuli ekki háður öðrum takmörkunum en þeim „sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi“, eins og þar segir, með leyfi forseta. Það var mitt mat þegar við ræddum Herjólfsmálið að þær forsendur væru ekki til staðar. Þess vegna greiddi ég og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði atkvæði gegn þeim lögum.

Það vekur mér hins vegar áhyggjur þegar hér er komið fram nýtt frumvarp vegna mjög erfiðrar deilu, á því höfum við skilning og hæstv. ráðherra fór yfir það í framsögu sinni að deilan er erfið. Þar hefur ekki náðst saman, þar virðist langt á milli aðila en það breytir því ekki að þetta er í hvert einasta skipti gríðarlega stórt mál því að við erum að fjalla um mannréttindamál. Við erum að fjalla um grundvallarréttindi fólks til að semja um kaup og kjör, ekki síst á tímum þar sem við horfum ekki bara á þá þróun hér á Íslandi, heldur eru auknar vinnudeilur um heim allan og staða hópa erfið sem eru að semja um kaup og kjör. Við hljótum að hafa áhyggjur af þeirri þróun, bæði hér heima og erlendis og að lagasetningu sé beitt með þessum hætti.

Þær áhyggjur sem ég viðraði áðan snúast líka um að fleiri hópar í samfélaginu eiga í deilum, hópar sem heyra m.a. undir hæstv. ráðherra sem þarf að mæla fyrir þessu frumvarpi hér í kvöld. Nefni ég þar flugfreyjur, en við horfum líka upp á vinnustöðvun grunnskólakennara á morgun. Við erum nýkomin í gegnum langt og erfitt verkfall framhaldsskólakennara og við eigum væntanlega eftir að sjá hver áhrifin af því verða. Við vitum að fyrri verkföll til að mynda í framhaldsskólum hafa yfirleitt skilað sér í auknu brottfalli, fleiri nemendur hverfa frá námi og fyrir liggur að eitthvað verður um það núna. Við getum ímyndað okkur hvaða áhrif verkfall grunnskólakennara mundi hafa hér á samfélagið allt. Það er því eðlilegt að við sem eigum að taka afstöðu til þessarar tillögu setjum málið í heildarsamhengi, bæði hér heima, þar sem verið hefur óvenju mikið um róstur á vinnumarkaði, en líka erlendis þar sem við horfum upp á sömu þróun. Hvort sem það á nú endilega við í þessu tilviki þar sem hér er ekki um hefðbundna láglaunastétt að ræða þá tengi ég þessa almennu þróun um róstur á vinnumarkaði við vaxandi ójöfnuð í heiminum og harðari slagi sem víða eru teknir um kaup og kjör. En eins og ég sagði áðan á það ekki endilega við um þessa deilu.

Ég vil taka það fram að hæstv. ráðherra gerði fulltrúum flokkanna á Alþingi skýra grein fyrir því að það kynni að vera von á einhverju slíku frumvarpi og hefur hún haldið okkur upplýstum um málið, sem mér finnst mjög jákvætt. Ég vil sérstaklega taka það fram að ég er ánægð með þau svör sem hún gaf mér áðan að ef til sambærilegra tilfella kæmi á næstunni þegar þing verður farið heim mundi hún mælast til þess að þing yrði kallað aftur saman.

Ég tel að það sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd þurfi að taka til skoðunar á fundi sínum í fyrramálið sé að fara yfir þá almannahagsmuni sem hér liggja undir. Það er mjög mikilvæg spurning sem þarf að svara og greina í meðförum nefndarinnar. Hins vegar er mikilvægt að við ræðum málið í því heildarsamhengi sem ég nefndi áðan, þ.e. hvaða áhrif lagasetningar geta haft á vinnumarkaðinn sem heild, hvort við horfum fram á þá þróun að vinnuveitendur upplifi enga hvatningu til að ná samningum við félagsmenn sína ef þeir telja sig geta treyst á lagasetningu svo fremi sem hægt sé að færa rök fyrir því að almannahagsmunir séu nægilega ríkir. Mér finnst eðlilegt að við þingmenn tökum það til skoðunar í meðförum nefndarinnar hvort uppi séu áhyggjur af slíkri þróun. Það er mjög stórt mál því að þá er um það að ræða að eðlilegt samband vinnuveitenda og þeirra sem þiggja laun er komið í ákveðið uppnám.

Ég sé ekki ástæðu til að halda langa ræðu. Ég tel að ég hafi gert grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég tel eðlilegt að nefndin skoði og þeirri grundvallarsannfæringu minni að hér er um mjög mikilvægan rétt að ræða sem er mjög áríðandi að við þingmenn stöndum vörð um eftir fremsta megni.