143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[23:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tek undir með henni að verkfallsrétturinn er afskaplega mikilvægur og hluti af mannréttindum. Þá er það spurningin: Hvers lags verkfallsréttur? Við skulum hugsa okkur að hjá Flugleiðum sé starfandi annars vegar fólk sem getur stöðvað flug og hins vegar fólk sem getur ekki stöðvað flug og félagið borgar þeim hópum laun. Ef hóparnir geta stöðvað flug og aukið gífurlegan þrýsting í þjóðfélaginu á félagið að semja og þeir fá sífellt hærri og hærri laun. Hvað þýðir það fyrir hina í fyrirtækinu sem ekki geta stöðvað? Ég er tala um ræstingafólk, ég er tala um skrifstofumenn og aðra sem ekki geta stöðvað flug. Þeir fá þá alltaf lægri og lægri laun í hlutfalli, vegna þess að afkoma fyrirtækisins er óbreytt, það hefur ákveðna fjármuni til að borga laun.

Ég vil nefnilega velta upp, sérstaklega með vinstri mönnum, verkfallsréttinum sem var í upphafi og er heilagur, þ.e. sem beinist að fyrirtækinu sem um er að ræða en ekki að þriðja aðila, ekki að því skaða þriðja aðila eins mikið og mögulegt er, og hvort sá verkfallsréttur að skaða þriðja aðila leiði ekki í rauninni til ójöfnuðar og skaði láglaunastéttirnar.

Hér var nefnt verkfall grunnskólakennara, þeir fara held ég í verkfall á morgun. Það gerist ekki neitt. Krakkarnir eru í fríi og það þarf kannski að sjá um börnin en það stöðvast ekkert í landinu, það er enginn þrýstingur, þeir geta ekki notað þennan þriðja aðila sem þarf helst að vera í miklu magni til að loka landinu.