143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[23:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur ekki skilið það — eða ég hef ekki náð að koma hugsuninni alveg á framfæri. Málið er það að þeir sem geta valdið þriðja aðila miklu tjóni, ég nefni yfirvinnubannið á Herjólfi, það kostaði hásetana ósköp lítið, þeir misstu bara af yfirvinnu, en það skaðaði heilt samfélag í Eyjum. Þeir gátu valdið þriðja aðila gífurlegu tjóni og þess vegna var verkfallsréttur þeirra svona sterkur. Það sem ég á við með því að taka þá hópa hjá Flugleiðum sem ekki geta stöðvað flug, ekki geta valdið þriðja aðila miklu tjóni, og hinna sem geta valdið miklu tjóni hjá þriðja aðila, að þeir sem valda miklu tjóni fá sífellt hærri og hærri laun. Það leiðir af því að þeir valda svo miklu tjóni. Hvar endum við þá? Það þýðir að þegar að kreppir og háu launin eru orðin of þung, þá er ekki hægt að borga lágu launamönnunum eins mikið sem ekki geta valdið tjóni.

Ég velti því upp fyrir hv. þingmanni, sem er vinstri maður, hvort vinstri menn þurfi ekki að fara að greina verkfallsrétt af tegund eitt og verkfallsrétt af tegund tvö, þ.e. verkfallsréttur sem er notaður til þess að skaða þriðja aðila og ná þannig fram pressu, hvort hann eigi ekki minni rétt á sér og sé ekki alveg eins heilagur og hinn verkfallsrétturinn þar sem menn eru að berjast fyrir sínum kjörum með því að skaða fyrirtækið sem þeir vinna hjá.