143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[23:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held, eins og ég sagði áðan, að mjög erfitt sé að fara að skipta verkfallsréttinum upp í tvo hluta, ekki heldur út frá þeim kríteríum sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. hvaða skaða menn geta haft á þriðja aðila. Þó má segja að dómur Mannréttindadómstólsins sem ég vitnaði í hafi gert það að einu leyti, þ.e. þar er viðurkenndur réttur stjórnvalda til þess ef almannahagsmunir eru nægilega brýnir að hafa áhrif á kjaradeilur. Það má því segja að með þeim dómi hafi ákveðin aðgreining orðið til. En það að við sköpum einhverja slíka aðgreiningu almennt tel ég ekki heillavænlega þróun.

Svo má nefna að ýmsir hópar sem hafa ekki endilega háar tekjur geta haft alveg gríðarleg áhrif á líf fólks. Ég nefndi grunnskólakennara áðan. Við þekkjum mörg verkföll sorphirðumanna um Evrópu sem hafa alveg gríðarleg áhrif á lífsgæði fólks sem hafa ekki endilega skilað þeim neitt sérstaklega háum tekjum.