143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[23:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég ætla nú ekki að halda hér langa ræðu. Mig langar að biðja forseta að kalla ráðherra í salinn því að ég hef ákveðnar spurningar til þess ráðherra sem flytur þetta mál.

Þangað til ráðherrann kemur inn í salinn ætla ég aðeins að fara yfir áhyggjur mínar varðandi þetta mál í tengslum við allar hinar starfsstéttirnar sem eru með kjarasamninga sína í uppnámi. Ég var mjög mótfallin því að sambærilegum aðgerðum væri beitt gagnvart starfsfólki Herjólfs sem þó var aðeins í yfirvinnuverkfalli. Mér skildist á einum af sérfræðingnum í tölfræði hér á þingi, hv. þm. Helga Hjörvar, að svona bönn hefðu verið sett á fjórum sinnum á síðustu tuttugu árum. Nú er þetta í annað sinn hjá þessari ríkisstjórn. Það segir mér að við erum komin inn á háskalega braut.

Hvert sem maður lítur heyrir maður af því að kjaramál séu í uppnámi. Hvar dregur maður línurnar í skilgreiningu á því hvenær setja megi verkbann? Ég mundi vilja ræða það við ráðherrann hvort hægt sé að fá „garantí“ frá ríkisstjórninni um að ekki verði farið í fleiri slíkar lagasetningar. Hvar dregur maður mörkin? Hvenær er í lagi að brjóta mannréttindi?

Mér finnst eitt alltaf gleymast þegar verið er að tala um svona lagasetningu. Nú hefur vofað yfir þessum starfsmönnum og öðrum starfsmönnum, sem eru í kjaraviðræðum og hafa þurft að beita þessum rétti, að sett verði lög sem banni þeim að grípa til aðgerða til að standa vörð um réttindi sín.

Ég verð að segja að mér finnst mjög ósmekklegt þegar verið er að leggja til að fólk sé einhvern veginn flokkað eftir þessu og sagt: Þú mátt ekki fara í verkfall ef þú ert með góð laun. Mér finnst það mjög skrýtið og ég skil ekki svona rök. Þetta hefur verið svolítið áberandi í samfélaginu.

Það sem ég gagnrýndi varðandi Herjólf var til dæmis: Af hverju er ábyrgð vinnuveitenda svona sjaldan dregin inn í þessar umræður? Það er alltaf talað um að þeir sem beita verkfallsréttinum valdi samfélaginu tjóni. Mér finnst þetta ábyrgðarhluti þeirra sem standa að baki því fyrirtæki sem verður fyrir barðinu á verkfalli atvinnuflugmanna því að það hefur fengið gríðarlega mikinn hagnað. Það sama mátti segja um rekstraraðila Herjólfs, þá hefði ekki munað um að setjast niður og semja við starfsfólk sitt.

Ég óttast þessa þróun og þess vegna langaði mig að fá hæstv. ráðherra í salinn og bera fram fyrir hana spurningu. Það er svo mikil hætta, þegar búið er að rjúfa ákveðinn múr og fara yfir ákveðna þröskulda, að haldið sé áfram á þeirri vegferð. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra og vona að hún komi í andsvör við mig til að gefa mér svar við þessu: Er möguleiki að gefa einhver fyrirheit um að aðrir sem eru hugsanlega að fara í verkfall eða eru að semja lendi ekki í því sama — ég hef áhyggjur af því að samningsstaða þeirra sé verri út af því að þegar þessar aðgerðir voru að hefjast hjá atvinnuflugmönnum var alltaf yfirvofandi að sett yrði lögbann á verkfallið — að það verði að „trendi“ hjá ríkisstjórninni að setja lögbann á þessi gríðarlega mikilvægu mannréttindi?

Eins og komið hefur fram, t.d. þegar maður skoðar Vestmannaeyjar versus Ísland, bæði eru þetta eyjur, þá hafði yfirvinnuverkfallið, sem starfsmenn á ferjunni Herjólfi fóru í, það mikil áhrif á Vestmannaeyjar að ríkisstjórnin ákvað að grípa inn í. Ákveðið var að setja lögbann á verkfallið út af því að það hafði mikil áhrif á Vestmannaeyjar. Nú eru sambærileg rök notuð um Ísland en það er nú samt þannig að Icelandair er langt því frá eina flugfélagið sem flýgur til og frá Íslandi, sem betur fer erum við ekki alveg einangruð. Mér fannst það líka ógæfa þegar sambærileg lög voru sett á flugvirkja. Ég held við verðum einhvern veginn að gefa fólki rými til að semja svo að það þurfi ekki að fara í verkfall. Það skekkir stöðuna fyrir þá sem eru að sækja rétt sinn til atvinnurekenda að yfir þeim vofi að ríkisstjórnin sé tilbúin að grípa til þessara aðgerða.

Mig langar að biðja ráðherrann um að gefa okkur einhver svör um það hvort ekki verði örugglega reynt að beita öllum tiltækum ráðum til að nota ekki aftur sambærileg lög á önnur verkföll.