143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[23:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svörin. Það sem mér finnst óþægilegt, og mjög mörgum, er að það er ekki alveg skýrt hvenær má grípa inn í. Hvernig eru þessar skilgreiningar? Hver eru hin faglegu ferli í kringum svona ákvörðun?

Ég er þakklát hæstv. ráðherra fyrir að beina sjónum að atvinnurekendum í ræðu sinni en í umræðunni í fjölmiðlum er einatt, eins og nú, mikill áróður í gangi þar sem verið er að taka saman hvað þetta kostar og spjótunum alltaf beint að starfsmönnunum. Þannig les ég það, samt á ég engra hagsmuna að gæta í þessu máli. Það er sá áróður sem blasir við þeim sem lesa fjölmiðla og fylgjast með málum í gegnum þá.

Mér finnst þetta virkilega mikið áhyggjuefni og mér finnst mjög óþægilegt að ekki sé skilgreint hverjir mega og hverjir mega ekki fara í verkfall. Ef einhverjar ákveðnar stéttir á Íslandi mega ekki fara í verkfall, út af því að það ríkir hagsmunir vega þar á móti, þá verður fólk að vita það svo að hægt sé að búa til eitthvert regluverk sem tryggir réttindi þess á einhvern annan hátt. Mega þá atvinnuflugmenn aldrei fara í verkfall? Eru það skilaboðin? Mér finnst þetta of loðið allt saman.

Ef mikið ber á milli og ríkissáttasemjari metur það svo að ekki sé hægt að komast að neinni niðurstöðu, er það þá sjálfgefið að boðað sé til lagasetningar á þennan hátt? Mér finnst þetta svo óskýrt. Það vantar meiri skýrleika. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að skoða jafnvel regluverkið í kringum þessi réttindi í samstarfi við stéttarfélög.