143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[23:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Á þessu eldhúsdagskvöldi er komið til umræðu frumvarp til laga um frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna sem hæstv. innanríkisráðherra hefur mælt fyrir. Upplýst hefur verið, bæði af ráðherra og raunar einnig fyrr af formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, að hæstv. ráðherra hafi upplýst stjórnarandstöðuflokkana um að slíkar aðgerðir gætu verið yfirvofandi og einnig í dag þegar fyrir lá að hæstv. ríkisstjórn mundi leggja þetta frumvarp fyrir þingið. Ber að hrósa hæstv. innanríkisráðherra fyrir það. Hún hefur lagt sig fram um að hafa samráð við stjórnarandstöðuna, það er þakkarvert og reyndar mjög mikilvægt, ekki síst í málum sem eru af þeirri gerð sem hér um ræðir, reyndar alltaf, en einkum og sér í lagi þegar þarf samstöðu þingsins til að koma málum á dagskrá, jafnvel þó að um þau séu skiptar skoðanir efnislega, þá er það mikilvægt.

Verkfallsrétturinn er geysilega þýðingarmikill réttur í samfélagi okkar. Stundum er sagt að hann sé vandmeðfarinn og það er ugglaust rétt, en hann er engu að síður mikilvægur hluti af almennum mannréttindum. Nú er það að vísu þannig að við höfum í löggjöf okkar, eins og víðar í öðrum löndum, sett lög um hverjir hafa verkfallsrétt og hverjir ekki. Þar er ákveðin lína dregin í löggjöfinni. Sú stétt sem hér er til umræðu hefur verkfallsrétt, um það er ekki deilt. Takmarkanir á verkfallsrétti byggja ekki á því í hvaða launaflokki viðkomandi stéttir eru og geta ekki gert það. Þess vegna get ég sagt eins og hæstv. ráðherra, maður getur ekki sett sig í eitthvert dómarasæti um það hvort stétt sem er ofarlega í launaskalanum eigi að geta beitt verkfallsvopninu á tilteknum tímapunkti eða ekki.

Það er líka auðvelt að segja að aðgerðir flugmanna við þær aðstæður sem við erum í í dag séu væntanlega óvinsælar í samfélaginu og þess vegna sé auðveldara að beita verkfallsvopnum en ella. Það eru sjónarmið sem ég gæti ekki tekið undir. Mér finnst þess vegna að ræða þurfi þetta mál á öðrum forsendum en slíkum.

Það er kannski heldur ekkert voðalega til vinsælda fallið við þær aðstæður núna að leggjast gegn eða mæla gegn lagasetningu af þessum toga, en málið í mínum hug getur ekki snúist um það í hvaða launaflokkum einstaka stéttir eru. Við höfum ákveðinn ramma í löggjöfinni þar sem við takmörkum verkfallsrétt tiltekinna stétta, aðrar hafa verkfallsrétt, hann er mikilvægur og hann ber að virða.

Hins vegar verður staðan alltaf matskennd þegar kemur að því hjá stjórnvöldum á hverjum tíma að taka afstöðu til þess hvort á að grípa inn í vinnudeilur með þeim hætti sem hér er gert. Það hafa margar ríkisstjórnir gert í gegnum tíðina. Ég lít hins vegar svo á að inngrip í vinnudeilur séu alltaf neyðarúrræði og sé alltaf sérstök aðgerð bundin við þær aðstæður sem uppi eru á hverjum tíma og að lagasetning á einum tíma geti ekki verið fordæmisgefandi fyrir lagasetningu síðar og heldur sé ekki hægt að nota lagasetningu í tilteknu tilviki og benda á fordæmi á fyrri árum eins og aðeins var gert hér. Menn verða í þessum aðstæðum að horfa til þess að þetta er algjör undantekning, þetta er neyðarúrræði. Aðstæðurnar frá einum tíma til annars eru mismunandi og geta ekki gefið fordæmi um aðgerðir síðar meir, það er að minnsta kosti mín afstaða. Ég teldi mjög varhugavert að gera það. Þetta verður alltaf hagsmunamat og verður alltaf mat á aðstæðum hverju sinni.

Hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir þeim sjónarmiðum sem liggja að baki þessu frumvarpi og það er mat hennar og hæstv. ríkisstjórnar. Mér finnst vera fullmikið bráðræði í tengslum við þessa fyrirhuguðu lagasetningu. Aðgerðirnar, sem eru lögmætar, hafa ekki staðið mjög lengi, hafa ekki gert það. Matið á hinum þjóðhagslegu afleiðingum og hagsmunum er líka í sjálfu sér mjög erfitt. Menn hljóta að velta fyrir sér: Hver er mælikvarðinn?

Hæstv. ráðherra fór hér með tölur um kostnað við verkfallsaðgerðir eða tap á hverju degi mælt í krónum eða milljónum, það er áþreifanlegur mælikvarði.

Hér var aðeins nefnt í fyrri ræðu um málið að yfirvofandi er vinnustöðvun grunnskólakennara á morgun. Ekki er langt síðan hér var langt verkfall framhaldsskólakennara. Hvert er hið samfélagslega tap eða hinn samfélagslegi kostnaður af slíkum aðgerðum? Hv. þm. Pétur Blöndal orðaði það þannig að það gerðist ekki neitt nema krakkarnir fengju frí. Ég er ekki sammála því. Mér finnst mjög ábyrgðarlaust að tala með þeim hætti. Verkfall í skólum hefur auðvitað samfélagsleg áhrif og samfélagslegan kostnað. Það er kannski ekki auðvelt að festa hendur á því hér og nú og segja: Það kostar 900 millj. kr. á dag, í því tapi sem samfélagið verður fyrir til lengri tíma litið vegna þess að börnin verða af kennslu.

Ég dreg þetta fram til að reyna að varpa ljósi á það að hagsmunamatið er ekki einhlítt. Kannski erum við of upptekin af því að mæla svona hluti í krónum og aurum í augnablikinu. Kannski er það það sem ræður of mikið ferð til að mynda í þessu máli. Ég ætla ekki að fullyrða það en ég vil velta því upp í þessari umræðu. Þetta er sjónarmið sem mér finnst sjálfsagt að heyrist, alveg burt séð frá því hvaða hópur á í hlut í þessu tilviki og um hvaða launakjör er að ræða. Það eru ekki allir félagsmenn í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna með sömu kjör. Það eru auðvitað ýmsir þar með góð kjör og svo eru kannski aðrir sem eru nýlega komnir úr námi og hafa hafið störf sem eru ekki endilega með sérstaklega há laun, án þess að ég þekki launatöflu Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Ég verð nú að viðurkenna það, en ég ímynda mér að nokkurt gap sé á milli þeirra sem eru á byrjunarlaunum og hinna sem eru komnir efst í stigann.

Inn í umræðuna blandast líka umræðan um aðrar stéttir.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekið mjög afdráttarlaust af skarið um það að það sé afstaða hennar að komi sambærilegar aðstæður upp í framtíðinni meðan hún er í ráðuneytinu muni hún óska eftir því að þing komi saman ef það er ekki að störfum komi slíkar aðstæður upp. Bráðabirgðalög eru nú frekar úrelt í nútímasamfélagi þegar hægt er að kalla saman Alþingi með engum fyrirvara. Ég fagna því og vænti þess að sú afstaða sé líka til staðar, sambærileg, hjá öðrum hæstv. ráðherrum. Ég reikna með því að aðrir séu sama sinnis hvað þetta snertir.

En það eru aðrar stéttir í farvatninu. Ég sagði áðan að mér fyndist þetta fullmikið bráðræði, mér finnst að hæstv. ríkisstjórn sé að fara fullfljótt af stað miðað við það að umræddar aðgerðir hafa ekki staðið mjög lengi. Það eru aðrar stéttir í farvatninu. Auðvitað hljóta menn að hafa áhyggjur af því að einfalda leiðin verði valin og kallað verði á lagasetningu fljótlega aftur. Það er þess vegna meðal annars sem ég lagði áherslu á það áðan í máli mínu að lagasetning á tiltekna stétt við tilteknar aðstæður má ekki vera fordæmi fyrir lagasetningu einhvern tímann í náinni framtíð eða þess vegna lengra inn í framtíðina. Menn verða alltaf að skoða þetta miðað við þær aðstæður sem uppi eru á hverjum tíma.

Það er líka áhyggjuefni að óróleiki er á vinnumarkaði. Ég sá viðtal við sérfræðing sem tjáði sig við fjölmiðla um stöðu á vinnumarkaði sem lét hafa það eftir sér að meiri óróleiki væri á vinnumarkaði nú en í langan tíma, sennilega allt frá því að þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir kringum 1990. Ég kann ekki að meta það nákvæmlega, en það sjónarmið kom þar fram. Það er auðvitað áhyggjuefni. Það hlýtur að vera verkefni ríkisstjórnar á hverjum tíma að fylgjast með stöðu á vinnumarkaði og reyna að leggja sitt af mörkum til að sem mest ró sé, en auðvitað eru kjaradeilur í sjálfu sér ekkert nýtt fyrirbrigði. Þetta er hvorki fyrsta né síðasta kjaradeilan, þær munu koma. Það er réttur launafólks að berjast fyrir bættum kjörum og stundum er talað um það, meðal annars í þessu samhengi, að lagðar hafi verið ákveðnar línur í kjarasamningum í desember. Við vitum náttúrlega hver afdrif þeirra kjarasamninga voru í atkvæðagreiðslum hjá stórum félögum. Ekki var voðalega mikil ánægja með þá hjá öllum. Þar að auki er það þannig að jafnvel þó að Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins séu mikilvægir aðilar á vinnumarkaði eru líka önnur stéttarfélög með frjálsan samningsrétt. Hann verður ekki tekinn af öðrum félögum með samningum til dæmis Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins, það gerist ekki. Ef menn vilja reyna að ná einhvers konar þjóðarsátt eins og var gert 1990 verða allir að sitja við það borð, ekki þannig að sumir sitji við það borð og afhendi síðan afurðina öðrum, það verða allir að koma að því borði. Það var ekki í þessu tilfelli, því miður.

Virðulegur forseti. Þetta eru sjónarmið sem ég vildi einfaldlega láta heyrast í umræðunni. Mér finnst vera fullmikið bráðræði á þeirri tillögu sem hér liggur fyrir miðað við aðstæður. Þetta er mat hæstv. ríkisstjórnar og hún ber að sjálfsögðu ábyrgð á því. Síðan nefndi ég einnig sjónarmið að því er varðar hvernig hagsmunamatinu er háttað, hvernig verðmætamatið er hjá okkur þegar við erum að leggja mat á efnahagslegar afleiðingar verkfallsaðgerða og bar saman þá stöðu sem uppi er í þessu máli og andspænis til dæmis kennurum, og við getum talað um heilbrigðisstéttir og aðrar slíkar.

Ég vonast því til að þessi sjónarmið komi upp í meðferð hv. þingnefndar. Ég vænti þess að málsaðilar í þessu tilfelli verði kallaðir fyrir hv. nefnd og þeir geti gert grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu. En ég geng að sjálfsögðu út frá því að þegar ríkisstjórn hefur lagt fram frumvarp um íhlutun í vinnudeilu af þessu tagi muni hún ljúka afgreiðslu þess máls og reyna að gera það eins fljótt og vel og hún getur. En að sjálfsögðu er ekki hægt að loka á það að fram fari einhver málefnaleg umræða um mál af þessum toga.