143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

Landsbankabréfið.

[11:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég legg greinilega annan skilning í þetta skuldabréf en hæstv. forseti. Í mínum huga þurfti að endurreisa hér banka sem heitir Landsbankinn í daglegu tali. Hann fékk miklar eignir sem meðgjöf þegar hann var stofnaður og þær eignir komu úr þrotabúi gamla Landsbankans. Þær eignir eru ekki ókeypis. Nýi Landsbankinn þarf að greiða fyrir þær með skuldabréfi. Það er þetta skuldabréf sem um ræðir. Það var af margvíslegum orsökum í erlendri mynt; það hentaði ekki bankanum illa að hafa skuldabréfið í erlendri mynt. Nú er komið að skuldadögum og þessar eignir eru æðiverðmætar.

Þetta er liður í Icesave-málinu vegna þess að Icesave-reikningarnir eru forgangskröfur í bú gamla Landsbankans og þetta bréf (Forseti hringir.) sem á að greiða inn í þrotabú gamla bankans er liður í því að greiða forgangskröfuhöfum (Forseti hringir.) í Englandi og Hollandi. Sagði ekki hæstv. forsætisráðherra alltaf á sínum tíma að bankinn mundi sjálfur greiða (Forseti hringir.) Icesave-reikningana? Er hann ekki að koma í veg fyrir það núna að það geti gerst?