143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

upplýsingar um leynireikninga og aflandsfélög.

[11:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra. Forsætisráðherra hefur lýst því yfir skýrt og afdráttarlaust að skattrannsóknarstjóra skorti, eftir hans bestu vitund, hvorki heimildir né fjármuni í þessum efnum, heldur sé það einfaldlega undir mati hans komið hvort þessar upplýsingar geta nýst við að uppræta skattsvik og að mikilvægt sé að skattrannsóknarstjóri leiti margra leiða til þess að uppræta skattsvik. Það er mikilvæg yfirlýsing frá hæstv. forsætisráðherra og skýr skilaboð til eftirlitsstofnana í landinu um að lögð er áhersla á að leita allra leiða til þess að tryggja það að lögum og reglum sé fylgt.

Þjóðverjar hafa keypt upplýsingar um leynireikninga í mörgum löndum. Það hafa líka aðrar þjóðir gert. Verið er að birta opinberlega í alþjóðlegum fjölmiðlum ýmsar upplýsingar um slíka hluti. Ég held að fáar þjóðir hafi jafn mikla þörf og við Íslendingar fyrir það að slíkar upplýsingar séu lagðar á borðið.

Virðulegur forseti. Ég skil (Forseti hringir.) ekki við hvað hæstv. fjármálaráðherra er hræddur.