143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

yfirlýsingar forsætisráðherra um ýmsar dagsetningar.

[11:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur verið afar duglegur við að nefna dagsetningar og setja sér tímafresti en síður að standa við þá. Stuttu eftir að hann tók við embætti gaf hann yfirlýsingu um að ný áætlun um afnám gjaldeyrishafta mundi liggja fyrir í september. „Það mun ekki taka langan tíma að klára verkið,“ með leyfi forseta, var haft eftir honum af því tilefni á Bloomberg. Engin áætlun lá fyrir í september og engin slík hefur enn verið kynnt fyrir þinginu.

Hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir í október sl. að tillögur hans í skuldamálum yrðu lagðar fyrir þingið í nóvember. „Tillögurnar liggja fyrir í nóvember og fara þá til meðferðar í þinginu,“ sagði hann í fréttum Ríkisútvarpsins, með leyfi forseta.

Það var síðan ekki fyrr en í lok mars að þingið fékk þessar tillögur til sín. Þegar þær voru svo lagðar fram og kynntar opinberlega var sagt að almenningur gæti sótt um skuldaniðurfærslu þann 15. maí, sem er einmitt dagurinn í dag.

Þegar ríkisskattstjóri tilkynnti þinginu í byrjun maí að það mundi ekki ganga eftir fullyrti hæstv. forsætisráðherra á ÍNN að svo væri nú víst. Á kynningarsíðu um málið á vef forsætisráðuneytisins í dag, núna í morgun, stendur að það verði opnað fyrir umsóknir í dag. Er það?

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvernig stendur á því að hann nefnir í sífellu dagsetningar sem hann getur ekki staðið við? Stóð aldrei til að standa við þær? Eða skiptir það hæstv. forsætisráðherra engu máli að skapa væntingar hjá þjóðinni meðal almennings og markaðsaðila sem síðan standast ekki? Hvernig getur hæstv. forsætisráðherra ætlast til þess að skapa traust milli stjórnvalda og þjóðarinnar þegar staðan er þessi?