143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

yfirlýsingar forsætisráðherra um ýmsar dagsetningar.

[11:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir afar skemmtilega útgáfu af rökhyggju forsætisráðherra og samskiptamáta hans. Ég held að það sé fínt í lok þings að við fáum staðfest hvernig samskipti hann vill hafa við þingið. Þetta var mjög gott dæmi um það, akkúrat þetta svar.

Þessar yfirlýsingar forsætisráðherra núna bera það einfaldlega með sér að hann er ekki með hlutina á hreinu. Af hverju er hann yfir höfuð að nefna þessar dagsetningar? Ég hefði haldið að í jafn stórum málum og þessum, afnámi gjaldeyrishafta og skuldaniðurfellingar, mundu menn forðast að setja á sig tímapressur. En það hefur einmitt komið á daginn að það hefur ekki verið vandað til verka í skuldaniðurfellingarmáli ríkisstjórnarinnar. Það eru allt of margir lausir endar enn þá. Ég óttast það með þessu háttalagi hæstv. forsætisráðherra að hann sé stöðugt að setja óraunhæfa tímapressu á mikilvæg mál. Ég spyr því: Hefur hæstv. forsætisráðherra hug á því að vanda sig betur þegar kemur að dagsetningum? Eða megum við búast við þessari óábyrgu (Forseti hringir.) framkomu við þjóðina áfram?