143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

stækkun hvalfriðunarsvæðis á Faxaflóa.

[11:30]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Á rúmum tveimur áratugum hefur hvalaskoðun vaxið upp í að verða stærsta afþreyingargrein ferðaþjónustunnar í Reykjavík og sú þriðja stærsta á Íslandi. Á þriðja hundrað manns starfa við greinina á ári hverju og hún skilar rúmum 4 milljörðum kr. í gjaldeyristekjur. Fjórði hver erlendi ferðamaður sem kemur til landsins fer í hvalaskoðun. Á síðasta ári nýttu rúmlega 200 þúsund manns sér þessa afþreyingu, þar af 115 þúsund í ferðum frá Reykjavík.

Í viðtali við fjölmiðla í gær segir Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, blikur vera á lofti vegna árekstra hvalaskoðunar og hrefnuveiða á Faxaflóa. Hann segir að veiðarnar þrengi verulega að greininni og til þess að ferðaþjónustan blómstri í Reykjavík verði að færa út griðasvæði hvala.

Svo segir hann, með leyfi forseta, í viðtali við fjölmiðla:

„Hvalaskoðun hefur jafnframt leitt af sér frekari umsvif og uppbyggingu þar sem hún er stunduð. Reykjavíkurhöfn er nú orðin einn líflegasti og mest spennandi staður borgarinnar með öllum þeim gestum sem þangað koma. Það er því augljóst að hagsmunir borgarsamfélagsins og hvalaskoðunar fara saman.“

Þetta á raunar ekki bara við um Reykjavík, heldur víðar á landinu þar sem hvalaskoðun er stunduð.

Forustumenn Samtaka ferðaþjónustunnar og hvalaskoðunarfyrirtækja efndu til sérstaks fundar með oddvitum allra framboða til borgarstjórnar í Reykjavík nýlega. Þar kom fram mjög sterkt ákall um að hvalaskoðunarsvæði Faxaflóa yrði stækkað í samræmi við þær óskir sem ferðaþjónustan hefði lagt fram. Virðist vera alger pólitískur einhugur um þetta mál.

Þannig að mín spurning til hæstv. ráðherra ferðamála er: Mun ráðherrann svara kalli framboða í Reykjavík og svara kalli Samtaka ferðaþjónustunnar og hvalaskoðunarfyrirtækja um (Forseti hringir.) stækkun griðasvæðis hvala í Faxaflóa?