143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[12:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi lít ég svo á að ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis skapi ekki fordæmi fyrir þær kjaradeilur sem því miður eru í gangi og fyrirsjáanlegar eru. Það kom mjög skýrt fram á fundi nefndarinnar að það yrði að vega og meta hvert mál fyrir sig og mjög mikilvægt væri að löggjafinn mundi í hvert einasta skipti meta algjörlega sjálfstætt hvort þeir hagsmunir sem væru í húfi fyrir samfélagið væru það miklir að grípa þyrfti til þeirra aðgerða sem lagt er til að fara út í hér.

Bæði meiri og minni hluti nefndarinnar einskorðuðu málflutning sinn á mjög málefnalegan hátt við þessa kjaradeilu og voru ekki, ætla ég að leyfa mér að fullyrða, að blanda öðrum málum inn í þetta mál. Svar mitt við seinni hluta spurningarinnar er því: Nei.