143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[12:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það sem veldur mér mestum áhyggjum er að það er ekki alveg skýrt hverjir mega og hverjir mega ekki fara í verkfall eða vera í verkfalli. Mig langaði að spyrja hv. þm. Höskuld Þórhallsson hvort honum finnist við ekki þurfa að hafa línurnar skýrari.

Nú er næsta víst að það stefnir í verkfall hjá flugfreyjum og flugvirkjum með svona lagasetningu yfir höfði sér. Finnst hv. þingmanni eðlilegt að starfsstéttir séu í raun strax komnar í þessa þumalskrúfu? Þarf ekki að gera eitthvað til þess að línurnar séu skýrari?

Ég átti orðastað við hæstv. innanríkisráðherra í gærkvöldi um þetta mál og mér fannst ráðherrann vera sama sinnis og ég, að það þyrfti að skýra línurnar betur. Ef maður má ekki fara í verkfall verður hann að hafa önnur réttindi, það hlýtur að vera þannig.

Mér finnst við vera í limbói með ákveðnar starfsstéttir og þær verða að fá að vita hvort þær mega eða mega ekki hafa þessi sjálfsögðu mannréttindi. Við verðum að einhenda okkur í það, núna er ófriður á vinnumarkaði nánast hvar sem mann ber niður. Það verður að skýra þetta. Þetta hlýtur að forgangsmál hjá þinginu í sumar.