143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[12:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Launþegar hafa rétt til aðildar að stéttarfélögum og verkfallsrétturinn er varinn annars vegar í 74. gr. stjórnarskrárinnar og hins vegar 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Við virðum þennan rétt en eins og með öll mannréttindi sæta þau einhverjum takmörkunum. Á það hefur verið fallist, og er lögfest í stjórnarskránni og í mannréttindasáttmála Evrópu, að mannréttindi eins geta stangast á við mannréttindi annars.

Því miður geta verkfallsaðgerðir tiltekinna hópa í samfélaginu beinst svo mjög að þriðja aðila sem á enga aðild að samningnum. Hæstiréttur hefur gefið það út að löggjafinn hafi mjög skýrar og í raun víðtækar heimildir til að meta hvort hinir almennu hagsmunir séu í húfi í hverju einstöku tilviki. Mér sýnist, og jafnvel eftir að ég hef rennt örstutt yfir álit minni hlutans, að flestir telji að slíkir almannahagsmunir séu fyrir hendi í þessu máli.

Ég treysti mér ekki til að svara því hér og nú hvort setja eigi einhverja skýra línu í þessum efnum. Ég held reyndar að það sé þörf umræða og vonast til þess að hún fari fram hér, jafnvel í þessari umræðu eða seinna á Alþingi. (Forseti hringir.) Niðurstaðan er einfaldlega sú að við teljum okkur vera að vinna (Forseti hringir.) á grundvelli þeirra laga sem við þurfum að vinna eftir.